Fréttasafn



25. mar. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Ábyrgð byggingarstjóra

Fyrirspurnir hafa borist  til Samtaka iðnaðarins vegna ábyrgðar byggingarstjóra í framhaldi af námskeiði um notkun Mannvirkjagáttar. Nokkurs misskilnings hefur gætt um heimild fyrirtækja til að bera ábyrgð sem byggingarstjórar og þá jafnvel að öll ábyrgð liggi hjá þeim aðila sem skrifar undir fyrir hönd fyrirtækis. Hér fyrir neðan eru upplýsingar sem taka af vafa um hvernig þessu er háttað. 

Samkvæmt 5. mgr. 28. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki geta fyrirtæki og stofnanir í eigin nafni borið ábyrgð sem byggingarstjórar við mannvirkjagerð enda starfi þar maður við byggingarstjórn sem hefur starfsleyfi til að annast umsjón með þeirri gerð mannvirkis, sbr. 4. mgr. 27. gr. Í athugasemdum með lagafrumvarpinu sem síðar varð að mannvirkjalögum er það tekið fram með skýrum hætti að tilgangur ákvæðisins er fyrst og fremst að takmarka þá persónulegu ábyrgð sem einstaklingur, sem starfar hjá byggingarfyrirtæki, ber á verkinu, enda hefur hann oft minna ákvörðunarvald varðandi bygginguna en sjálfstæður aðili.

Þess skal þó getið að sá aðili sem skrifar undir f.h. fyrirtækis og hefur framangreint starfsleyfi gæti þurft að svara fyrir verkið f.h. fyrirtækisins. Enda gegnir hann mikilvægu hlutverki við byggingaframkvæmdir og er faglegur fulltrúi eiganda, sér um samskipti við yfirvöld, hönnuði, iðnmeistara og aðra sem að mannvirkjagerðinni koma. Sú skylda breytist ekki þó svo að fyrirtæki beri ábyrgð á verkum hans. Þá skal starfsleyfishafi sjálfur annast þau störf við mannvirkjagerðina sem byggingarstjóra er ætlað skv. 1. mgr. 4.7.6. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Rétt er að geta þess að Mannvirkjastofnun er sammála framangreindri afstöðu samtakanna. 

Hér eru frekari upplýsingar um Lög um mannvirki.

Hér eru frekari upplýsingar um greinargerð með lögunum