Fréttasafn



15. okt. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Ábyrgð stjórnvalda að koma á nauðsynlegum úrbótum

Sú vara sem bygginga- og mannvirkjastarfsemi framleiðir er undirstaðan í okkar samfélagi og umbótastarf í greininni má því ekki bara vera í tísku þegar vel gengur. Hagsveiflur hafa ekki áhrif á grundvallarþörf fólks fyrir þak yfir höfuðið. Við verðum að búa þannig um hnútana að við náum að tryggja sem mestan stöðugleika m.a. með því að koma þessum tillögum átakshópsins í framkvæmd. Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í viðtali í blaði Verk og vit sem fylgdi nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins undir fyrirsögninni Hagsveiflur hafa ekki áhrif á þörf fólks fyrir þak yfir höfuðið. Þar er hún að vísa til 40 tillagna að nauðsynlegum úrbótum til að leysa húsnæðisvandann sem átakshópur forsætisráðherra um bætta stöðu á húsnæðismarkaði skilað í janúar síðastliðnum. Í kjölfarið hafi vinnuhópar verið settir af stað til að útfæra þær tillögur nánar. „Að mínu mati ætti nú að ríkja betri skilningur á mikilvægi atvinnugreinarinnar en það er auðvitað á ábyrgð stjórnvalda að koma þessum tillögum í framkvæmd, þrátt fyrir að ákveðin niðursveifla sé nú hafin á íbúðamarkaði,“ segir Jóhanna Klara en samkvæmt nýlegri talningu Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu er ríflega 18% samdráttur í íbúðum að fokheldu.

Gera þarf breytingar til að tryggja gæði og stöðugleika atvinnugreinarinnar

Jóhanna Klara segir í viðtalinu að þegar horft sé til þess sem gerst hafi frá því Verk og vit var haldið síðast þá hafi Samtök iðnaðarins mótað enn skýrari sýn þegar kemur að þeim nauðsynlegu breytingum sem gera þarf til að tryggja gæði og stöðugleika atvinnugreinarinnar. „Samtökin hafa lagt áherslu á heildstæðar breytingar sem felast m.a. í sameiningu málaflokksins meðal ráðuneyta, ríkisstofnana og milli sveitarfélaga. Ennfremur hafa samtökin lagt áherslu á að mæta verði þörf fyrir betri upplýsingar um framboð og eftirspurn íbúðarhúsnæðis. Þá höfum við bent á ákveðna þætti í kerfinu sem verður að laga til að auðvelda aðilum að reisa þær íbúðir sem eftirspurn er eftir, auka nýsköpun og lækka byggingarkostnað. Stór hluti af þessum vandamálum snýr að rafrænni stjórnsýslu og ljóst er að þar þarf að taka til hendinni. Frá síðustu sýningu höfum við séð breytingar í rétta átt á mörgum af þessum þáttum og vinna hefur átt sér stað við að móta breytt regluverk í bygginga- og mannvirkjagerð.“

Umræða um þörfin á hagkvæmu húsnæði enn háværari

Frá því að Verk og vit fór síðast fram hefur umræðan um bilið á milli eftirspurnar og framboðs einnig aukist talsvert og umræða um þörfina á hagkvæmu húsnæði er nú enn háværari. „Áhersla hefur verið á uppbyggingu á þéttingarreitum og nú er svo komið að ríflega helmingur allra íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum þess er á slíkum reitum. Af þeim er ríflega ein af hverjum fimm í póstnúmerinu 101 þar sem fermetrar eru dýrir. Það verður því áhugavert að sjá hvort þessi umræða kemur til með að endurspegla sýninguna á næsta ári,“ segir Jóhanna Klara.

Hér er hægt að nálgast blað Verk og vit í heild sinni. 

Verk-og-vit-vidtal-JKS