Fréttasafn5. maí 2015 Starfsumhverfi

Að fletja út launakökuna

Það er því sem næst efnahagslegt náttúrulögmál að summa allra greiddra launa í landinu getur bara vaxið með takmörkuðum hætti. Verðmætasköpun hagkerfisins er það sem setur okkur náttúrulegar skorður. Yfir lengri tímabil er það aðeins aukin verðmætasköpun og framleiðniaukning sem getur staðið undin hækkun launa og kaupmáttar.

Árið 2014 voru greidd laun og launatengd gjöld í landinu fyrir 1.043 milljarða króna. Nam hækkunin frá árinu á undan 5,3%. Frá árinu 1980 hefur þessi upphæð hækkað að meðaltali um 3,1% að raungildi á hverju ári. Hins vegar nemur kaupmáttaraukning á þessu tímabili að  meðaltali 1,3% á ári og skýrist munurinn einkum af fólksfjölgun. Hlutfall launa í þjóðarkökunni er um 60% og hefur haldist býsna stöðugt í sögulegu samhengi. Óháð því hvað semst um í kjarasamningum munu laun og kaupmáttur ekki hækka að raungildi nema um fáein prósent og grundvallast af aukinni framleiðni.

Staðan á íslenskum vinnumarkaði er afar snúin um þessar mundir og einkennist af harðri kjarabaráttu og verkföllum. Áherslur einstakra hópa eru mismunandi en áberandi er krafa þeirra um mikla hækkun launa. Eins og áður sagði er heildarlaunakakan takmörkuð. Af þeim sökum hefur árangursrík kjarabarátta einstakra hópa fyrir hækkun launa áhrif á aðra í sömu baráttu.

Í reynd snýst baráttan um það hvernig skipta eigi kökunni. Þegar er búið að ákveða stærðina á sneiðinni sem einstaka hópar eiga að fá. Segja má að undirrót þeirrar ólgu sem er á vinnumarkaði sé stærðin á þessari sneið sem sumir hafa náð að tryggja sér með skæðum verkföllum á liðnum vetri. Stórir hópar launamanna vilja sinn skerf af kökunni og í sama hlutfalli og áður. Það kallar á miklar launahækkanir sem vandséð er að nokkur innistæða sé fyrir.

Í raun er verið að fara fram á kakan verði flött út með kökukefli og stærð sneiðanna endurskipulögð. Kakan mun ekki stækka við það. Í reynd virðist það vera hörð samkeppni einstakra hópa launamanna sem drífur þessa baráttu. Að endingu mun þetta ekki skila einum eða neinum neitt. Kaupmáttur mun ekki aukast, störfum mun ekki fjölga, vextir munu hækka og gengið mun veikjast. Ekkert mun koma sér verr fyrir almennan launamann á Íslandi. Ein mikilvægasta kjarabótin er lág verðbólga og vextir. Innistæðulausar launahækkanir vinna gegn því. Að óbreyttu blasir þekktur raunveruleiki fyrri áratuga um víxlhækkun launa og verðlags við okkur.

Lausn er ekki í augsýn. Verkföll munu síður en svo einfalda stöðuna – þvert á móti munu víðtæk verkföll lama undirstoðir verðmætasköpunar og kaupmáttar. Nú reynir á sem aldrei fyrr að sýna ábyrgð og forystu og koma í veg fyrir að kökukeflið fari á loft.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI

Birt í Morgunblaðinu 5. maí 2015