Fréttasafn15. feb. 2016 Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Að setja sér markmið í loftslagsmálum

 Breytingar á kúltur, ferlum, skipulagi og vinnulagi fyrirtækja eru nauðsynlegar þegar fyrirtæki setja loftslagsmál á oddinn.  Umbótastarf er því nauðsynlegt.

 „Það skiptir verulega miklu máli að allir sérfræðingar fyrirtækis tileinki sér og hugi að nýjum og bættum lausnum í umhverfismálum, óháð deildum“, sagði Helga Jóhanna Bjarnadóttir sviðsstjóri hjá Eflu verkfræðistofu á fundi Samtaka iðnaðarins um framleiðni þar sem loftlagsmál voru í brennidepli. Helga Jóhanna benti á að auknar áherslur fyrirtækja á loftlagsmálsmálum krefjast þess oftast að gerðar séu breytingar í kúltur, ferlum, skipulagi og vinnulagi fyrirtækja. Þeir sem hefja slíka vegferð þurfa að átta sig á að um umfangsmikið verkefni sé að ræða sem krefst verkefnastjórnunar og fjárútláta.

„Við verðum alltaf að byrja á því að skilgreina fyrirtækið og átta okkur á því hvar við erum stödd í umhverfismálum. Í kjölfarið getum við farið að setja okkur mælanleg markmið, stefnu og aðferðir til að mæla árangur til framtíðar“ sagði Helga Jóhanna um fyrstu skref sem fyrirtæki ættu að stíga í tengslum við loftlagsmál. Fyrirtæki sem taka á loftlagsmálum eru gjarnan eftirsóttir vinnustaðir fyrir ungt fólk enda eru þetta yfirleitt framsækin fyrirtæki með ríka áherslu á nýsköpun og skemmtilega vinnustaðamenningu. Sem dæmi um áhugaverða hluti sem Efla vinnur að nefndi Helga samgöngustefnu fyrirtækisins sem miðar að því að minnka mengun, auka heilbrigði starfsfólks og bæta borgarmyndina. Samgöngustyrkir eru veittir  en starfsfólk skráir í stimpilklukkuna hvort það kom grænt til vinnu og bókhald er haldið yfir þetta. Starfsmönnum stendur til boða að nýta litla sparneytna vinnubíla, hjól og rafmagnshjól. Fjarbúnaður er nýttur í samskiptum milli starfsstöðva og við viðskiptavini til að draga úr ferðum milli staða. Starfsstöðvar fyrirtækisins eru BREEAM umhverfisvottaðar en í vottunarferlinu var bílastæðum fækkað um 59 og lögð áhersla á gönguleiðir og öryggi starfsmanna á bílastæðum.

Saga umhverfisvöktunar er löng hjá Rio Tinto Alcan,  en vöktun á gróðri hófst árið 1968 sem er ári áður en ISAL hóf framleiðslu. Eelstu mælingar gróðurhúsalofttegunda eru frá árinu 1979. Guðrún Þóra Magnúsdóttir leiðtogi umhverfismála og rannsóknastofu, sagði frá mælingum og vöktun gróðurhúsalofttegunda hjá ISAL og hvernig brugðist er við frávikum.

„Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvað á að vakta og hvað það er sem raunverulega er hægt að hafa áhrif á“, sagði Guðrún Þóra en í dag vakta menn bruna skauta þar sem mesta losunin myndast, losun PFC efna og jarðefnaeldsneyti sem notast er við í ofnum fyrirtækisins. Gerðar eru ríkar kröfur til þess að vöktunaráætlun sem stuðst er við sé bæði vel skilgreind og niðurnjörfuð. Tíðnin á rýni árangurs er mismunandi eftir því hvar hægt er að hafa áhrif á niðurstöðurnar en t.d. er losun PFC efna skoðuð daglega og um 30  töflufundir haldnir á hverjum degi til að auka yfirsýn allar starfsmanna. Ef í ljós kemur að hægt sé að gera betur eru sett af stað umbótaverkefni og fræðslumolar unnir til að koma skilaboðum áleiðis. Þannig er tryggt að gripið sé snemma inní og allir taki þátt í umbótum. 

Að lokum tók Guðrún Þóra það fram að mikilvægt er að fyrirtæki beri sig saman við aðra og haldi því til haga sem gert hefur verið. T.d. hefur ISAL verið með skráningar frá 1990 í tengslum við umhverfisvæna raforku í stað eldsneytis. 

Þorsteinn Aðalsteinsson starfar hjá  ARK Technology sem er nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í rafrænum lausnum til að fylgjast með losun útgerðarfyrirtækja. Þorsteinn talaði um mikilvægi þess að nálgast verkefni tengt losun með því að taka virðiskeðju fyrirtækis fyrir sem eina heild. Þannig reynir ARK að mæla hvern þátt í virðiskeðjunni til að sýna svo endanlegt kolefnis fótspor fyrirtækisins. „Það er að verða kynslóðarbreyting í rekstrardeildum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta eru menn sem vita að það þarf að huga að umhverfinu og ganga vel um þær auðlindir sem verið að notast við. Einnig hefur verið kynslóðarbreyting hjá vélstjórum og stýrimönnum sem hafa áhuga á að gera hluti betur og reyna að gera sína vinnu hreinni“, sagði Þorsteinn. Taldi hann þetta breytta viðhorf vera merki um að svokölluð umhverfishagkvæmni væri að ryðja sér til rúms sem þáttur af stjórnun fyrirtækja í sjávarútvegi.