Fréttasafn



27. sep. 2018 Almennar fréttir

Aðalhagfræðingur SI segir viðvörunarbjöllur á lofti

Samkeppnishæfnin er lykilatriði bæði fyrir iðnaðinn og hagkerfið allt. Segja má að það séu ákveðnar viðvörunarbjöllur á lofti. Það hefur ekki verið mikill vöxtur í gjaldeyristekjum og útflutningi iðnaðar undanfarið sem ber þá merki þess að samkeppnishæfnin sé að einhverju  leyti löskuð gagnvart erlendum keppinautum. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í frétt Ingvars Haraldssonar, blaðamanns, í Viðskiptablaðinu í dag. 

Ingólfur segir að vöxtur hagkerfisins sé að færast yfir í innlenda eftirspurn og það sé áleitin spurning núna hvernig við ætlum að skapa gjaldeyristekjur til þess að byggja undir hagvöxt framtíðarinnar. „Ég held að það verði ekki gert nema með sterkri samkeppnishæfni og vexti fleiri sviða útflutningstekna heldur en hefur verið.“ 

Útflutningstekjur dragast saman um 85%

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins kemur fram að gjaldeyristekjur íslensks iðnaðar hafi dregist saman um 14% á árunum 2013-2017 samkvæmt nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins. Mestu muni þar um samdrátt í byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð og framleiðslutengdri þjónustu sem dregist hefur saman um 85%, en útflutningstekjur geirans lækkuðu úr 59 milljörðum króna í 9 milljarða á tímabilinu. Ingólfur segir að sterkt gengi krónunnar og aukin umsvif í þessari atvinnugrein innanlands kunni að eiga þátt í þessum samdrætti  útflutningstekna greinarinnar.   „Það er áhyggjuefni hvað dregið hefur úr gjaldeyristekjum á þessu sviði hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis. Við viljum að þau séu öflug og með alþjóðlega starfsemi en  þjónusti ekki bara innlendan markað.“ Hann segir vægi iðnaðarins vera talsvert þegar  litið er á gjaldeyristekjur, landsframleiðslu og vinnumarkað. „Þegar maður lítur fram á við held ég að það hljóti að vera mjög stór þáttur í þessum vexti sem við þurfum að byggja upp.“ 

Fjölbreytileiki mikilvægur

Haraldur skrifar að Samtök iðnaðarins hafi bent á í nýlegri skýrslu um samkeppnishæfni Íslands að bæta þurfi starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja með því að efla menntakerfið, styrkja innviði  samfélagsins á borð við vega- og raforkukerfi landsins til að skjóta styrkari stoðum undir áframhaldandi vöxt  hagkerfisins, efla starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja og að efla nýsköpun. Þá sé bent á að fjölbreytileiki sé mikilvægur til þess að styrkja betur  útflutningsatvinnuvegina, bæði hvað varðar fjölda greina og fjölbreytileika innan hverrar greinar og að þar komi fram að fjölbreytileiki á þessu sviði ætti að skila sér í stöðugra starfsumhverfi fyrirtækja þegar litið sé til framtíðar. 

Miklar sveiflur skaða samkeppnishæfni

Í umfjölluninni segir jafnframt að í greiningu  SI  sé bent á að af helstu viðskiptalöndum Íslands hafi raungengi krónunnar sveiflast meira en gjaldmiðill nokkurs annars iðnríkis síðustu áratugi. Raungengið hafi fallið um 34% á árunum 2000-2008 en  styrktist um 51% á árunum 2008 til 2017. Miklar sveiflur í raungengi krónunnar hafi skapað óstöðugt starfsumhverfi og skaðað samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna, og komið niður á uppbyggingu og verðmætasköpun fyrirtækja hér á landi. 

Ál og kísiljárn uppistaða í útflutningstekjum iðngreina

Í Viðskiptablaðinu segir að laun í framleiðsluiðnaði hafi hækkað um 140% frá árinu 2010, mælt í evrum, en 20% í ESB ríkjunum á sama tíma og að í greiningunni segir að við þetta bætist síðan hár innlendur fjármagnskostnaður og óhagstætt skattaumhverfi. Það valdi því að staða íslenskra útflutningsatvinnugreina þrengist en að eftir sem áður sé uppistaða í útflutningstekjum iðngreina í áli og  kísiljárni, en hlutfall þess af heildariðnaði nam ríflega 60% á síðasta ári og útflutningstekjur geirans voru alls um 218 milljarðar króna. Eina iðngreinin sem vaxið hafi á undanförnum fimm árum sé hugverkaiðnaður en útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hafi aukist úr 45 milljörðum króna í 68 milljarða króna 2013-2017. 

Viðskiptablaðið, 27. september 2018

Vidskiptabladid-27-09-2018