Aðdráttarafl í málm- og skipaiðnaði í miðborginni
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs SI, og Guðrún Birna Jörgensen, viðskiptastjóri á framleiðslusviði SI, heimsóttu í dag Stálsmiðjuna Framtak og Héðinn sem eru aðildarfyrirtæki SI og tilheyra Málmi sem eru samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði.
Stálsmiðjan Framtak á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1933. Fyrirtækið rekur nokkrar starfsstöðvar en þekktust þeirra er í Slippnum á hafnarsvæðinu í miðborg Reykjavíkur, þar sem gangandi vegfarendur geta fylgst með iðnaðarmönnum annast viðhald fiskiskipaflotans. Starfsemin í miðborginni er mikið aðdráttarafl fyrir vegfarendur, ekki síst erlenda ferðamenn en eitt af hótelum borgarinnar er staðsett við Slippinn. Bjarni Thoroddsen, framkvæmdastjóri fyrirtækisins tók á móti starfsmönnum SI og sýndi þeim starfsemina í Vesturhrauni í Garðabæ en hjá fyrirtækinu starfa um 170 manns, skrifstofufólk, tæknimenn, vélvirkjar, rennismiðir og trésmiðir á nokkrum starfsstöðvum. Auk mikilla umsvifa í skipaiðnaði hefur fyrirtækið tekið þátt í uppbyggingu og viðhaldi vatns- og gufuaflsvirkjana, álverksmiðja og annarra hliðstæðra verkefna.
Ragnar Sverrisson, forstjóri Héðins, tók á móti starfsmönnum SI í starfsstöðvum fyrirtækisins í Gjáhellu í Hafnarfirði. Starfsemi Héðins fer fram á fjórum meginsviðum; tæknideild, plötudeild, véladeild og renniverkstæði og um 110 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu. Talsverð nýsköpun á sér stað hjá Héðni og hefur íslenskt hugvit þannig orðið að eftirsóttri útflutningsvöru.
Það kom fram hjá fyrirtækjunum að stafræna byltingin hefur náð til málmsins en mikil nýsköpun á sér stað í báðum fyrirtækjunum. Mikil sjálfvirkni er að verða til með fjölbreyttum tæknilausnum. Það kom fram í máli forsvarsmanna fyrirtækjanna að mikill skortur er á iðnmenntuðu starfsfólki.
Á efri myndinni eru Guðrún Birna, Sigurður og Ragnar Sverrisson hjá Héðni.
Guðrún Birna Jörgensen, Bjarni Thoroddsen hjá Stálsmiðjunni Framtak og Sigurður Hannesson.