Fréttasafn



4. jan. 2017 Almennar fréttir Nýsköpun

Aðgengi almennings til þátttöku í nýjum fyrirtækjum er ábótavant

Í Morgunblaðinu í dag er umfjöllun um þátttöku almennings í nýsköpun í atvinnulífinu. Þar kemur fram í máli Davíðs Lúðvíkssonar, forstöðumanns stefnumótunar og nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins, að mjög margir einstaklingar hafi áhuga á að taka þátt í nýsköpun í atvinnulífinu en aðgengi þeirra að þátttöku sé ábótavant. Í frétt Þórodds Bjarnasonar, blaðamanns Morgunblaðsins, segir ennfremur: Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að æskilegt væri að almenningur kæmi í auknum mæli að beinum fjárfestingum í hlutafélögum hér á landi. Vaxtarfyrirtækið Solid Clouds, varð á dögunum fyrsta íslenska félagið til að fá samþykki ríkisskattstjóra fyrir rétti fjárfesta til skattafrádráttar vegna þátttöku í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu samkvæmt nýsamþykktum lögum um tekjuskatt. Lögunum er ætlað að hvetja til fjárfestingar almennings í vaxtarfyrirtækjum. „Við vonumst eftir að fljótlega verði hægt að búa til betri markað og betri vettvang fyrir hlutabréf í minni fyrirtækjum þar sem menn leggja áherslu á tiltölulega einfaldar upplýsingar og skilja vel á milli rauntalna, áætlana og væntinga,“ segir Davíð í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að margir áhugasamir fjárfestar hafi ekki „treyst sér af stað“ vegna takmarkana í nýju lögunum, en í stórum dráttum virkar kerfið þannig að fyrirtæki, að fengnu leyfi ríkisskattstjóra, má bjóða út hlutafé fyrir allt að tvo milljarða. Hver fjárfestir má fjárfesta fyrir tíu milljónir á ári og fær helming af þeirri fjárhæð frádráttarbæra frá skattskyldum tekjum. Á móti þarf að skuldbinda sig til að eiga bréfin í þrjú ár hið minnsta. Lögin miðast við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki með 25 starfsmenn eða færri.

Einn af göllunum við lögin er þó sá, að sögn Davíðs, að ef félagið stækkar umfram 25 starfsmenn, eða fer yfir 650 milljónir í ársveltu, getur þurft að endurgreiða skattaafsláttinn með álögum. Slíkt getur fælt fjárfesta frá. Um fjárfestingar almennt í íslenskum vaxtarfélögum segir Davíð að töluvert vanti upp á úthald íslenskra fagfjárfesta, en ýmis efnileg fyrirtæki hafi færst yfir í erlenda eigu á síðustu 2-3 árum. „Þetta veldur óróa, og auknum líkum á að fyrirtækin verði flutt úr landi ef samkeppnisstaðan veikist. Þessi fyrirtæki eiga mörg miklu meiri vöxt inni og getu til verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag. Maður spyr sig hvort þau hafi verið seld of fljótt. Ef menn bera saman viðhorf til þessara hluta hér og í Þýskalandi þá myndu menn þar í landi liggja á svona fyrirtækjum eins og ormur á gulli.“

Þá segir Davíð að þessi skammtímahugsun sé meira áberandi hjá íslensku fjármagnseigendunum en hjá frumkvöðlunum sjálfum. Hann bendir á að burðarfyrirtæki á íslenskum hlutabréfamarkaði í dag, Marel og Össur, hefðu allt eins getað farið þessa sömu leið, en þau eru þrátt fyrir alþjóðlegan vöxt með öfluga starfsemi hér á landi.

Morgunblaðið, 4. janúar 2017.