Fréttasafn



3. feb. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Aðgerðir til að auka íbúðaframboð hafa áhrif á verðbólguvæntingar

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í Markaðnum á Hringbraut um verðbólguna sem mælist nú 5,7% og hefur ekki verið hærri í 10 ár. Viðmið Seðlabankans er 2,5%. Ingólfur segir að verðbólgan hafi verið drifin áfram af verðhækkunum á húsnæði og skýri um þriðjung verðbólgunnar sem sé talsvert. Það sem fyrst hafi drifið áfram húsæðisverðshækkanir á undanförnum tveimur árum hafi verið aukin eftirspurn sem rekja megi til vaxtalækkanna, aukins kaupmáttar og fleiri þátta. „Þá sáum við strax, árið 2019, að íbúðum í byggingu hafi fækkað.“ Hann segir að það hafi verið sérstakt áhyggjuefni sem fram kom í talningu Samta iðnaðarins að íbúðir á fyrstu byggingarstigum hafi fækkað sem væri fyrirboði um að framboð af húsnæði yrði minna. „Það er það sem er að drífa verðhækkun á húsnæði og verðbólguna í augnablikinu. Við erum að upplifa verulegan skort á framboði á nýju íbúðarhúsnæði og húsnæði almennt.“

Ingólfur segir að á skömmum tíma hafi fjöldi íbúða í sölu á höfuðborgarsvæðinu dregist saman úr ríflega 2.000 niður fyrir 500. „Og er enn lækkandi.“ Í fréttinni kemur fram að hann segir lóðarskort vera flöskuháls byggingaframkvæmda. „Ábyrgðin liggur mikið hjá sveitarstjórnum. Ekki síst sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólksfjölgunin á sér stað að mestu leyti.“ Hann nefnir að allar aðgerðir til að auka framboð af íbúðum litið til næstu mánaða og ára hafi áhrif á verðbólguvæntingar.

Í þættinum er einnig rætt við Daníel Svavarsson, forstöðumann hagfræðideildar Landsbankans.

Markaðurinn/Hringbraut, 2. febrúar 2022.