Fréttasafn27. ágú. 2015 Iðnaður og hugverk

Aðrar þjóðir vilja fá til sín íslensk hugverkafyrirtæki

Tíu áhersluverkefni hafa verið mótuð fyrir tækni- og hugverkageirann í samstarfi Samtaka iðnaðarins, þingflokka og ráðuneyta.

„Eitt af áhersluverkefnum fyrir tækni- og hugverkafyrirtæki er að gera umhverfið á Íslandi betra fyrir erlenda sérfræðinga,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, en ný stefna hefur verið mótuð fyrir atvinnugreinina í samstarfi SI, fulltrúa þingflokka og nokkurra ráðuneyta þar sem tiltekin eru 10 áhersluverkefni. Hann segir að hlutdeild tækni- og hugverkafyrirtækja í útflutningstekjum þjóðarinnar hafi aukist töluvert undanfarið og því sé mikilvægt að umgjörð þeirra sé sem best.

Ísland er í 70. sæti á lista World Economic Forum (WEF) þegar horft er til þess hversu vel lönd standa sig í að laða til sín erlenda sérfræðinga. Almar segir þetta sterka vísbendingu um að hægt sé að gera betur hér á landi. „Við viljum að móttaka erlendra sérfræðinga verði gerð auðveld og skilvirk enda þurfa mörg þessara tækni- og hugverkafyrirtæki á slíku starfsfólki að halda. Þetta snýr bæði að skattalegu umhverfi og menntun. Til dæmis verðum við að geta boðið upp á nægilega góða alþjóðlega skóla á Íslandi til að fjölskyldufólk sjái það sem raunhæfan kost að koma til dvalar í lengri tíma og ala börnin sín upp hér.“

Samkeppni um tæknifyrirtæki

Þegar horft er almennt til samkeppnishæfni er Ísland í 30. sæti af 144 löndum sem WEF mælir. „Við viljum að Ísland verði í topp tíu á þessum lista,“ segir Almar og bætir við að gríðarlega mikil alþjóðleg samkeppni sé um að fá til sín tækni- og hugverkafyrirtæki. „Allar þjóðir leggja mikið upp úr því að fá til sín þessi fyrirtæki því að þau skila miklu til hagkerfisins. Þetta eru oft fyrirtæki sem eru mjög þekkingardrifin og launakostnaður er mjög hátt hlutfall af veltu, en slík fyrirtæki eru verðmæt inn í hvaða hagkerfi sem er því að þau hafa jákvæð áhrif á fjármál ríkissjóða.“ Hann veit dæmi þess að erlendar þjóðir hafi boðið íslenskum tækni- og hugverkafyrirtækjum að færa rekstur sinn frá Íslandi. „Við sjáum það á starfsemi sendiráða Kanada og Bretlands hversu öflug þau eru í að kynna fyrir íslenskum fyrirtækjum hvað lönd þeirra geta boðið upp á. Það er staðreynd að ýmsir sendiherrar á Íslandi eru að vinna vinnuna sína mjög vel fyrir sína þjóð. Því verður Ísland að standa sig betur hvað þetta varðar. Nýta þarf tækifærið og gera rekstrarumhverfið enn betra.“

„Krónufyrirtæki“ verði til

Önnur áhersluverkefni snúa að hækkun framlaga í Tækniþróunarsjóð og Rannsóknarsjóð og hækkun viðmiða við endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Auk þess segir Almar mikilvægt að koma á skattalegum hvötum fyrir viðskiptaengla og aðra einstaklinga til hlutafjárkaupa í nýsköpunarfyrirtækjum. Eitt áhersluverkefnanna nefnist „krónufyrirtæki“ og segir Almar það vera hugmynd sem lúti að því að auðvelda stofnun fyrirtækja með mjög litlu hlutafjárframlagi. „Fyrirmynd af þessu er til í Danmörku, þar sem talið er mikilvægt að auðvelda fyrirtækjum að taka fyrstu skrefin hraðar.“

Birt í Morgunblaðinu 27.8.2015