Fréttasafn21. sep. 2017 Almennar fréttir

Ætti að leggja áherslu á brú milli vísinda og atvinnulífs

„Samtök iðnaðarins leggja áherslu á menntun og nýsköpun í sínum störfum, sem ásamt traustum innviðum og góðu starfsumhverfi fyrirtækja mynda grunn að fjölbreyttu atvinnulífi, samkeppnishæfni Íslands og aukinni framleiðni. Samtökin vilja að Ísland verði í fremstu röð í nýsköpun í heiminum, eða á fimm efstu sætum í alþjóðlegum úttektum þar sem horft er til margra mælikvarða. Ég sakna þess að sjá áherslu lagða á brú á milli vísinda og atvinnulífs, sem kalla má tækniyfirfærslu. Það er mikilvægt skref á milli rannsókna og svo hagnýtingar sem úr verður viðskiptahugmynd, tækifæri og svo vonandi umsvif sem leiða til vaxtar. Án slíkrar yfirfærslu er hætt við því að vísindin einangrist og atvinnulífið vaxi minna en ella. Þar með drögumst við aftur úr í samkeppni þjóða.“ Þetta kom meðal annars fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, á Rannsóknaþingi Rannís sem haldið var á Grand Hótel í morgun þar sem fjallað var um nýja stefnu- og aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs undir yfirskrift þingsins „Heimur örra breytinga“.

Nauðsynlegt að greina samfélagslegar áskoranir

Sigurður sagði Vísinda- og tækniráð gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Í lögum um ráðið segi að markmið laganna sé að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka samkeppnishæfni atvinnulífsins. „Í stefnu og aðgerðaáætlun ráðsins fyrir árin 2017-2019 er farið vítt og breitt yfir sviðið. Boðaðri endurskoðun laga um Vísinda- og tækniráð er fagnað enda hafa lögin ekki tekið efnislegum breytingum frá því þau voru sett árið 2003. Rétt er að staldra við, meta árangurinn og skoða hvað megi betur fara.

Við lifum í heimi örra breytinga. Talsverð vinna hefur verið lögð í gerð stefnunnar. Taka má undir greiningu í inngangi skýrslunnar en þar er m.a. fjallað um þær miklu breytingar sem nú eiga sér stað í heiminum með fjórðu iðnbyltingunni. Sú þróun mun hafa áhrif á daglegt líf okkar allra með einum eða öðrum hætti og fyrirtæki munu þurfa að aðlaga sig þeim breytingum. Ný störf verða til sem krefjast umfram annað hæfni í auknum mæli, það er, að geta dregið ályktanir og leyst verkefni. Áherslu ráðsins á samfélagslegar áskoranir er fagnað. Ekki einungis er það gagnlegt heldur nauðsynlegt að greina þær auk þess sem vísindasamfélagið og atvinnulífið hér hafa heilmikið fram að færa við lausn mála í stærra samhengi.“ 

Hann sagði að markáætlun til að efla stöðu íslenskrar tungu í tölvum og tækni væri einnig tekið fagnandi af atvinnulífinu. „Tæki skilja nú talað mál. Það er morgunljóst að slík áætlun þarf að vera praktísk og skila sér í tölvurnar og símana okkar því annars er hún til lítils.“

Stingur upp á að þátturinn Nýjasta tækni og vísindi verði endurvakinn

Sigurður sagði að miðlun vísinda og tækni til almennings væri þörf. „Ég vil leyfa mér að stinga upp á því að þátturinn Nýjasta tækni og vísindi verði endurvakinn. Það mun hafa mun meiri áhrif en blaðagreinar og auglýsingar  um mikilvægi vísindastarfs. Að þessu sögðu fagna ég framkominni stefnu og bind miklar vonir við þá vinnu sem framundan er. Það er nauðsynlegt að vel takist til því menntun, rannsóknir, nýsköpun og framtakssemi eru drifafl framtíðarvaxtar á Íslandi,“ sagði Sigurður. 

Á Facebook-síðu Rannís má sjá fundinn í heild sinni.