Áfram skortur þrátt fyrir fjölgun íbúða í byggingu
Í nýrri greiningu SI og HMS um talning á íbúðum í byggingu á landinu öllu sem fór fram í febrúar og mars síðastliðnum kemur fram að framkvæmdir eru hafnar við byggingu 7.260 íbúða á landinu öllu. Um er að ræða aukningu frá síðustu talningu SI og HMS sem gerð var í september sl. en þá voru framkvæmdir hafnar við 5.984 íbúðir. Aukningin er 1.276 íbúðir eða um 21%. Aukninguna má fyrst og fremst rekja til fjölgunar íbúða á fyrstu byggingarstigum, þ.e. íbúðum á byggingarstigum fram að fokheldu.
Aðrar helstu niðurstöður talningarinnar:
- Á höfuðborgarsvæðinu eru 5.149 íbúðir í byggingu eða 71% af heildarfjölda íbúða í byggingu á landinu öllu. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins eru 1.456 íbúðir í byggingu eða 20% af heild. Á öðrum landsvæðum eru 655 íbúðir í byggingu eða 9% af heild.
- Út frá talningunni áætla SI og HMS að 2.453 nýjar íbúðir komi á markað á landinu öllu á þessu ári og 3.098 árið 2023. Þá gera SI og HMS ráð fyrir að 1.700 af þeim íbúðum sem nú eru í byggingu verði fullkláraðar árið 2024 eða síðar.
- Á höfuðborgarsvæðinu er áætlað að bygging 1.634 íbúða klárist á þessu ári og 2.243 íbúða á því næsta og í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir 534 nýjum íbúðum í ár og 592 árið 2023. Í öðrum sveitarfélögum á landsbyggðinni er áætlað að lokið verði við byggingu á 285 íbúðum á þessu ári og svipuðum fjölda árið 2023.
- Í ár og á næsta ári er því áætlað að 5.551 íbúð komi nýjar inn á markað á landinu öllu. Til samanburðar má nefna að það er mat HMS að þörf fyrir fullbúnar íbúðir sé um 3.500 til 4.000 á ári þ.e. 7.000 til 8.000 íbúðir þessi tvö ár. Það er því ljóst að áfram verður framboðsskortur á íbúðum þrátt fyrir þann vöxt sem nú sést í fjölda íbúða í byggingu.
- Ofangreindur framboðsskortur íbúða undirstrikar mikilvægi þess að mótuð verði ný húsnæðisstefna fyrir Ísland í þeim anda sem innviðaráðherra hefur boðað. Innviðaráðherra hefur nefnt í því sambandi að setja eigi markið á að það verði byggðar allt að 20.000 íbúðir á næstu fimm árum og þar af 7.000 með aðkomu hins opinbera í formi fjölbreytts húsnæðisstuðnings.
- Talning SI og HMS nær til íbúða í byggingu á öllum byggingarstigum. Áður miðaðist talning SI á íbúðum í byggingu við byggingarstig 2-7. Breytingin er gerð til þess að ná fram stærri mynd af íbúðum í byggingu. 1.156 íbúðir bætast því við talninguna. Hafa verður í huga varðandi íbúðir á fyrsta byggingarstigi að þó það sé komið byggingarleyfi þá er oft óljóst hver framvinda verksins verður. Það er ástæða þess að SI töldu ekki íbúðir á þessu byggingarstigi áður.
- Talning SI og HMS nær nú til allra landsvæða. Áður miðaðist talningin við höfuðborgarsvæðið og nágrannasveitarfélög auk Norðurlands. 219 íbúðir bætast við talninguna. Sýnir þetta að talning SI náði áður til um 97% íbúða á byggingarstigum 2-7 á landinu öllu.
Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.