Fréttasafn



6. júl. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Áherslubreyting á byggingamarkaðnum

Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri Íslenskra aðalverktaka og varaformaður stjórnar SI, segir í viðtali í Viðskiptablaðinu að töluvert framboð á verkefnum hafi komið fram í byggingabransanum síðustu vikur.„Töluverð áherslubreyting er að verða á markaðnum, verktakabransinn er að fara meira yfir í innviðaverkefni, frá íbúðabyggingum yfir í vegagerð og styrkingu á orkuflutningskerfinu, sem við sáum einmitt bresta í síðasta vetur. Hins vegar hafa verkefni í íbúðabyggingum verið að dragast saman og erfiðara að setja ný í gang, þar sem bankastofnanir hafa verið að herða kröfur um eigið fé og draga saman seglin. Þetta bitnar mest á verkefnum á höndum einkaaðila, svo skortur gæti myndast á millidýru og ódýru húsnæði á almennum markaði. Á sama tíma eru íbúðaleigufélög fyrir sértæka hópa eins og Bjarg að byggja á fullu. Síðan fóru verkefni í ferðaþjónustu niður í núll á einu vetfangi, en áður voru fjármálastofnanir byrjaðar að halda að sér höndum í fjármögnun. Með falli Wow var að mestu leyti hætt að lána í ferðaþjónustuverkefni, en með Covid verður síðan bara algert stopp."

Vaxtalækkanir ekki skilað sér nægilega út á markaðinn

Sigurður segir í Viðskiptablaðinu að þarna sé hagkerfið að virka, að ríkið stígi inn í þegar niðursveifla verði til að jafna út hagsveifluna. Spurður hvort það hafi ekki gegnum gandandi frekar ýkt hagsveifluna því ríkið sé svo lengi að stíga inn í svarar hann því játandi. „Jú, ríkið hefur verið of seint að grípa inn í, í gegnum tíðina, en ég er að vonast eftir því að í þetta sinn verði þetta ekki þannig. Að minnsta kosti er búið að setja inn mikið af verkefnum undanfarna mánuði en síðan á eftir að koma í ljós hvað gerist með þessa 50 milljarða til viðbótar sem var lofað í kjölfar Covid. Loforð er eitt, annað er hversu fljótir menn eru að koma verkefnunum út á markaðinn og það er eftir að koma í ljós með efndirnar. Ég varaði við áhættunni af offjárfestingu í ferðaþjónustu fyrir tveimur til þremur árum, þá var ég reyndar ekki með heimsfaraldur í huga, en kannski hryðjuverk eða eldgos sem gæti sett þennan bransa á hliðina einn, tveir og þrír. Við ákváðum að verða ekki mjög stórir í þessu en engu að síður þá er ferðamannabransinn það stór í okkar iðnaði að gátum ekki haldið okkur algerlega fyrir utan. Kosturinn við að vera í jafnfjölbreyttum verkefnum eins og við er að þegar gefur á bátinn á einu sviði, þá getum við fært okkur í annað, úr húsbyggingum í háspennulínur eða vegagerð, sem ekki allir hafa kost á. Verktakafyrirtæki sem hafa sérhæft sig í að byggja og selja íbúðir hafa verið að líða fyrir ástandið í hagkerfinu og vaxtalækkunin undanfarið virðist ekki hafa virkað sem skyldi og skilað sér nægilega út á markaðinn. Fyrirtæki sem hafa kannski óseldar íbúðir fyrir hundruð milljarða gætu því verið í veikari stöðu til að fara aftur af stað í framkvæmdir því eigið fé hefur farið í fjármagnskostnað af þessum óseldu íbúðum."

Viðskiptablaðið, 4. júlí