Fréttasafn



17. mar. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Áhorfendur eða þátttakendur á stóra sviðinu?

Ætlum við að vera áhorfendur eða virkir þátttakendur á stóra sviðinu og tryggja okkur sterka stöðu til framtíðar? spurði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, gesti Iðnþings 2025 í ávarpi sínu. Hann sagði heiminn vera að taka stakkaskiptum þar sem stríð, gervigreindarkapphlaup og breyttir viðskiptahættir hafi mótað nýjan veruleika. 

Sigurður sagði þau sem sækja tækifærin muni blómstra en hin dragast aftur úr. Iðnaðarstefna hafi ratað rækilega aftur á dagskrá, framleiðsla færst nær mörkuðum og spenna ríki á alþjóðavettvangi. Hann sagði að við hér á Íslandi þyrftum að spyrja okkur hvar við stöndum og hvar Ísland er í þessari mynd. Einnig varpaði hann fram þeirri spurningu hvernig tryggt væri að Íslandi væri áfram hugmyndaland þar sem hugvit, kraftur og nýsköpun leiði til aukinna lífsgæða.

Lífskjörin ráðast af því sem við framleiðum og flytjum út

Í máli Sigurðar kom fram að lífskjör okkar ráðist af því sem við framleiðum og flytjum út. „Þannig höfum við frá upphafi byggt upp okkar samfélag, með því að skapa verðmæti og selja þau á erlendum mörkuðum, og farið frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu yfir í að vera ein ríkasta þjóð í heimi.“ Hann nefndi að hringinn í kringum landið væri að finna fyrirtæki sem hafi eflt íslenskan efnahag, atvinnulíf og samfélag en við þurfum að fjölga slíkum dæmum.

Vakið athygli erlendis hvernig tókst að byggja upp fjórðu stoðina

Sigurður sagði einnig að á þessari öld hafi tvær útflutningsstoðir bæst við sem væru ferðaþjónusta og hugverkaiðnaður. „Með óbilandi krafti frumkvöðla og þeirra tæplega 20 þúsund sem starfa í hugverkaiðnaði ásamt skýrri sýn stjórnvalda um að efla hagkerfið með því að skapa hagstæða umgjörð fyrir nýsköpun varð hugverkaiðnaður fjórða útflutningsstoð Íslands. Í samtölum okkar hjá Samtökum iðnaðarins við fólk í nágrannalöndum hefur það vakið mikla athygli hvernig okkur tókst að byggja upp fjórðu stoðina.“

Mikil verðmæti og þekking verður til ef umhverfið er til staðar

Þá kom fram í máli Sigurðar að við höfum sýnt hversu mikil verðmæti og þekking geti orðið til á skömmum tíma ef umhverfið sé til staðar. „Við erum komin í hóp þjóða sem eiga einhyrninga – fyrirtæki sem hafa náð gífurlegum árangri á stóra sviðinu. Alvotech og Kerecis eru enn ein sönnun þess að við getum byggt upp alþjóðlega og öfluga starfsemi héðan frá Íslandi. Við hjá SI hlökkum til að sjá hver næsti einhyrningur verður hér á landi og við erum sannfærð um að við þurfum ekki að bíða lengi eftir því.“

Íslensk stjórnvöld ákveði hvort á að sækja tækifærin eða sitja hjá

Jafnframt kom fram hjá Sigurði að eftir langt skeið stöðugleika einkennist alþjóðlegt efnahagslíf nú af mikilli spennu þar sem stríðsátök hafi áhrif á orkuverð, aðfangakeðjur og breyta mörkuðum. Hann sagði tollastríð á næsta leiti og að helstu stórveldi heims keppist við að tryggja sér forskot í gervigreind og hátækni. „Við þurfum að efla tengsl okkar bæði til vesturs og austurs við þessar aðstæður til að tryggja greiðan aðgang að mörkuðum og styrkja okkar lífskjör.“ Sigurður sagði að efla þurfi viðnámsþrótt við þessar aðstæður, þ.e. getu samfélagsins til að takast á við ólíkar áskoranir í breyttum heimi og að þar þurfi samstarf atvinnulífs og stjórnvalda að vera skýrt og markvisst. „Það mun skilja á milli þeirra landa sem taka virkan þátt í gervigreindarkapphlaupinu og þeirra sem sitja hjá. Stjórnvöld hér á landi þurfa að taka afstöðu og fylgja henni eftir ef við ætlum að vera hugmyndaland áfram.“

Þá varpaði Sigurður fram þeirri spurningu hvort við ætlum að vera þátttakendur í gervigreindarkapphlaupinu eða láta tækifærin fram hjá okkur fara. „Rétt eins og stjórnvöld í öðrum ríkjum taka þátt í að móta þessa framtíð með atvinnulífinu þá þurfa íslensk stjórnvöld að ákveða hvort þau vilji sækja tækifærin eða sitja hjá. Við hjá Samtökum iðnaðarins teljum ljóst að Ísland á að vera virkur þátttakandi.“

Iðnaðarstefna sem hafi það að meginmarkmiði að auka framleiðni

Sigurður sagði jafnframt að Samtök iðnaðarins taki heilshugar undir með ríkisstjórninni sem tali fyrir mótun iðnaðarstefnu, atvinnustefnu, sem ætti að hafa það að meginmarkmiði að auka framleiðni, að skapa verðmæt störf. Hann nefndi nokkur dæmi um það sem slík stefna þurfi að fjalla um; raforku til að sækja tækifærin, einföldun regluverks og ferli leyfisveitinga, traustir innviðir, alþjóðleg hagsmunagæsla, framúrskarandi umgjörð nýsköpunar og tækniþróunar og fagmenntað fólk. 

Höfum hugvit, vilja og kraft til að sækja tækifærin saman

Í lokaorðum Sigurðar kom fram að við værum að missa af tækifærunum og þyrftum að hlaupa ef við eigum ekki að dragast aftur úr. „Þetta væri ekki spurning um hvort við getum heldur hvort við ætlum að gera það sem þarf að gera. Við höfum sýnt það að Ísland getur keppt á stóra sviðinu ef skilyrðin eru rétt. En samkeppnishæfni er eilíft verkefni sem krefst skýrra ákvarðana, skjótra viðbragða og framsýnnar stefnu.“ Hann sagði að Samtök iðnaðarins mundu ekki láta sitt eftir liggja. „Við höfum hugvitið, við höfum viljann og við höfum kraftinn. Nú skulum við sækja tækifærin – saman.“

Si_idnthing_2025-57

Si_idnthing_2025-71_1741778907050

Hér er hægt að nálgast upptöku:

https://vimeo.com/1063511989