Fréttasafn1. júl. 2015 Nýsköpun

Álklasinn formlega stofnaður

 

Yfir 30 fyrirtæki og stofnanir stóðu að vel sóttum stofnfundi Álklasans sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins sl. mánudag.

 

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra flutti ávarp, Björg Ásta Þórðardóttir lögfræðingur Samtaka iðnaðarins ræddi klasasamstarf út frá samkeppnissjónarmiðum, Hannes Ottósson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands fjallaði um klasakenningar og tækifæri sem fylgja klasasamstarfi, þá bar Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir klasastjóri Álklasans, stofnfundargögn undir fundinn til samþykktar og kynnti næstu verkefni klasans.

 

Markmið Álklasans er að efla samkeppnishæfni með virðisauka fyrir þau fyrirtæki sem í Álklasanum eru og auka sýnileika, rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði.

 

Á meðal stofnaðila eru verkfræðistofur, vélsmiðjur, tæknifyrirtæki, málmsteypur, skipafélög, verktakafyrirtæki, fjármálastofnanir, rannsókna- og menntastofnanir, auk allra álveranna á Íslandi.

 

Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir verður klasastjóri Álklasans. Hún er efnaverkfræðingur að mennt og hefur undanfarin átta ár í starfi sínu hjá Nýsköpunarmiðstöð komið að verkefnisstjórn fjölda innlendra og erlendra rannsóknar og nýsköpunarverkefna og setið í fagráði Tækniþróunarsjóðs hjá Rannís.

 

Undanfarin ár og áratugi hefur byggst upp öflugur álklasi á Íslandi, sem samanstendur af orku- og áliðnaði, og nam heildarframlag hans til landsframleiðslu nálægt 6,8% á árunum 2011 og 2012, samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

 

Á þeim grunni er nú stofnað til þessa klasaframtaks, en aðild að því eiga fyrirtæki og stofnanir sem sinna verkefnum svo sem framleiðslu, þjónustu, vinnslu og þróun á sviði sem tengist áliðnaði.

Drög voru lögð að klasaframtakinu í Álklasanum á tveggja daga stefnumótunarfundi í Borgarnesi í apríl árið 2014. Þar var mótuð framtíðarsýn Álklasans og í framhaldi af því var haldinn vinnufundur í haust um nýsköpun og rannsóknir í áliðnaði með þátttöku fjölda fyrirtækja og stofnana.