Fréttasafn7. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Allar plastflöskur Coca-Cola á Íslandi úr endurunnu plasti

Allar plastflöskur sem Coca-Cola á Íslandi framleiðir verða úr 100% endurunnu plasti (rPET) frá og með fyrsta ársfjórðungi 2021. Við þetta mun notkun á nýju plasti minnka um 530 tonn á ári á Íslandi og kolefnisfótspor Coca-Cola á Íslandi vegna plastflaskna minnkar um 44%. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Coca-Cola á Íslandi.

Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi, segir: „Við erum einn stærsti matvælaframleiðandi landsins en því fylgir skylda og ábyrgð. Með því að skipta yfir í rPET fer notkun á nýju plasti niður um 530 tonn (86%) á hverju ári og minnkar kolefnafótspor framleiðslunnar vegna plastflaskna um sem nemur ígildi 400 tonna af koltvísýringi (CO2).“ 

Breytingin á við um allar plastflöskur í öllum vörumerkjum sem fyrirtækið framleiðir á Íslandi. „Það var markmið okkar að ná rPET úr 25% upp í 50% fyrir árið 2025 en við höfum flýtt því markmiði samhliða þátttöku í Net Zero 2040 áætluninni hjá Coca-Cola European Partners (CCEP). Þessi skipti yfir í 100% endurunnið plast er stórt skref fram á við í átt að hringrásarhagkerfinu. rPET sem er hluti af hringrásarhagkerfi getur haft minna kolefnisfótspor en nokkrar aðrar umbúðategundir fyrir drykki.“

Stefnt að kolefnishlutleysi fyrirtækisins árið 2040

Í tilkynningunni kemur fram að net Zero 2040 áætlun CCEP sé metnaðarfull, með skýrum markmiðum og dagsetningum en draga eigi úr heildarlosun gróðuhúsalofttegunda þvert á alla aðfangakeðjuna um 30% fyrir árið 2030. Þá sé stefnt á að fyrirtækið verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2040 í samræmi við Parísarsamkomulagið um að ná að halda hlýnun jarðar undir 1,5 ˚C. Þá kemur fram í tilkynningunni að Coca-Cola á Íslandi sé í samstarfi við sérfræðinga hjá Klöppum sem aðstoði fyrirtækið við gerð nákvæms kolefnisbókhalds.

Jafnframt segir í tilkynningunni að Endurvinnslan ehf. sjái um að senda allar plastumbúðir sem safnast til endurvinnslu erlendis. Hollenska fyrirtækið Morssinkhof kaupi plastið og selji það endurunnið til umbúðabirgja þar sem það verði að flöskum úr endurunnu plasti.