Fréttasafn



30. nóv. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Allt bendir til mikils samdráttar í íbúðauppbyggingu

Staðan á hús­næðismarkaðnum er skrítin og hátt vaxtastig bítur mjög fast um þessar mundir segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Freys Bjarnasonar á  mbl.is. Hann nefnir að sölutími hafi lengst og húsnæðismarkaðurinn kólnað líkt og þegar hafi komið fram. Á sama tíma segir hann byggingamarkaðinn vera að kólna mjög hratt og bendi allt til mikils samdráttar í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þetta sé þvert á þarfir landsmanna sem fjölgi um eitt þúsund á mánuði. „Þörfin er sennilega til staðar en það er bara ekki verið að framleiða nóg vegna þess fyrst og fremst hvað vextir eru háir. Hin skýringin er skortur á tilbúnum lóðum. Þetta fer saman. Þrátt fyrir að það sé samdráttur á byggingamarkaði og húsnæðismarkaðurinn er að kólna er slegist um hverja einustu lóð sem er í boði.”

Færa sig yfir í uppbyggingu annars konar húsnæðis en íbúðarhúsnæðis

Í fréttinni kemur fram að Sigurður bendi á að tilfærsla hafi orðið á íbúðamarkaðnum og fyrirtæki, sem langflest séu lítil eða meðalstór, reyni að færa sig frekar yfir í uppbyggingu atvinnuhúsnæðis eða húsnæðis á vegum hins opinbera. Þá sýni tölur Hagstofu Íslands að gjaldþrotum fyrirtækja hafi fjölgað á þessu ári miðað við síðustu ár, auk þess sem samdráttur hafi verið í veltu hjá arkitekta- og verkfræðistofum á milli ára.

Misráðið að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatts

Þegar blaðamaður spyr Sigurð kveðst hann ekki líta björtum augum á næstu misseri og segist ekki vita hvað geti snúið þróuninni við fyrir utan lækkun vaxta. Staðan sem sé uppi ætti að vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld, sem hljóti að velta fyrir sér öllum möguleikum til að hvetja til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði. Sigurður nefnir sem dæmi endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði sem hafi verið lækkuð fyrr á árinu. „Sú breyting hægði bara á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en hafði ekki áhrif á aðra hluta byggingamarkaðarins. Þetta var þess vegna mjög misráðið í þessari stöðu sem við erum í núna.” 

Hægir enn meira á íbúðauppbyggingu þvert á þörf

Í niðurlagi fréttarinnar kemur fram að Sigurður bendi á að kostnaður við byggingu meðalíbúðar hafi hækkað um ríflega sjö milljónir króna frá miðju síðasta ári fram á mitt þetta ár, eins og komi fram í greiningu SI um uppbyggingu íbúða frá því í ágúst. Þarna sé um samspil nokkurra þátta að ræða, þ.e. hærri vaxta og lengri sölutíma, hækkun virðisaukaskatts, hærra verðs aðfanga og hærri launa. Fyrir vikið eigi menn erfiðara með að ráðast í ný verkefni og slíkt hægi enn meira á íbúðaruppbyggingu, þvert á það sem þörf sé á núna.

mbl.is, 29. nóvember 2023.