Fréttasafn



17. mar. 2021 Almennar fréttir

Alþjóðlegir fjármálamarkaðir hagfelldir fjárfestum 2020

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í samtali við Markaðinn að þrátt fyrir einhvern mesta samdrátt um áratugaskeið, ef frá er talið efnahagsáfallið 2008, hafi alþjóðlegir fjármálamarkaðir verið hagfelldir fjárfestum árið 2020. „Vaxtalækkanir og innspýting fjármuna frá seðlabönkum og hinu opinbera réðu þar mestu. Allir helstu eignaflokkar hækkuðu í verði en eignir Akks eru vel dreifðar í hlutabréfum og skuldabréfum á innlendum og erlendum mörkuðum. Ekki er hægt að búast við slíkri afkomu ár eftir ár.“ 

Í frétt Markaðarins kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi skilað um 687 milljóna króna hagnaði í fyrra og minnkaði hann um rúmlega 150 milljónir frá fyrra ári. Góð afkoma samtakanna, rétt eins og 2019, skýrist af ávöxtun fjáreigna upp á liðlega 15% á síðasta ári en samtals námu fjármunatekjur 942 milljónum. Verðbréfaeign Samtaka iðnaðarins stóð í 6,44 milljörðum króna í árslok 2020 borið saman við um 5,6 milljarða árið áður, en Akkur SI, dótturfélag samtakanna, heldur utan um þær eignir.

Þriðjungs afsláttur af félagsgjöldum

Í fréttinni segir að rekstrartekjur SI, sem samanstandi fyrst og fremst af árgjaldi aðildarfyrirtækja, hafi dregist lítillega saman og voru samtals 384 milljónir. Það skýrist af ákvörðun stjórnar samtakanna í apríl í fyrra að veita þriðjungs afslátt af félagsgjöldum í maí, júlí og september það ár og voru tekjur vegna félagsgjalda því um 60 milljónum lægri en ella. Rekstrargjöld SI voru samtals 619 milljónir og jukust um 9 milljónir. Launakostnaður samtakanna stóð nánast í stað og var 298 milljónir en stöðugildi starfsmanna í lok árs 2020 voru 19.

Framfarasjóður SI úthlutaði 26,3 milljónum

Sigurður segir í samtali við Markaðinn að aðhald í rekstri hafi verið aukið á liðnu ári sem hefði haft jákvæð áhrif á afkomuna en tap var af reglulegri starfsemi. Auk þess að veita afslátt af félagsgjöldum segir hann að Framfarasjóður iðnaðarins hafi meðal annars veitt fjórum verkefnum styrk á síðasta ári fyrir samtals 26,3 milljónir. „Hæsti styrkurinn, eða 14 milljónir, fór til Iðnú bókaútgáfu og Málms, til að klára heildstæða endurskoðun á námsefni í málmiðngreinum sem verður alger bylting fyrir nemendur í þeim greinum. Einnig voru veittir styrkir til að þróa námsefni fyrir Nýsköpunarskóla en það verður innleitt í grunnskóla landsins á næstu árum, til að þróa aðferðafræði við gerð kostnaðaráætlana sem mun auka framleiðni í mannvirkjagerð og svo styrkur til að skrásetja verkferla á gullsmíðaverkstæði“ 

Fréttablaðið / Frettabladid, 17. mars 2021.