Fréttasafn18. sep. 2020 Almennar fréttir

Ályktun Iðnþings

Ályktun Iðnþings 2020 var samþykkt á framhaldsaðalfundi Samtaka iðnaðarins sem fór fram í Norðurljósum í Hörpu í dag:

Skiptum um kúrs – sækjum fram á nýjum grunni og sköpum skilyrði fyrir aukna verðmætasköpun

Íslenskt atvinnulíf stendur á krossgötum. Ljóst er að efnahagslegar afleiðingar af heimsfaraldri kórónuveiru verða miklar og langvarandi. Sú staða, ásamt því að óvissa ríkir um sjálfbæra gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, gerir það að verkum að óumflýjanlegt er að skipta um kúrs. Skapa þarf skilyrði fyrir vöxt nýrra atvinnugreina ásamt því að bæta skilyrði fyrir rótgrónar greinar til frekari vaxtar og verðmætasköpunar. Samtök iðnaðarins skora á stjórnvöld að varða leið vaxtar með nýsköpun sem drifkraft. Þannig má tryggja viðspyrnu og fjölga störfum sem leiðir okkur út úr núverandi efnahagsþrengingum og inn í nýtt, sjálfbært hagvaxtarskeið.

Um langt skeið hefur legið fyrir að renna þarf fjölbreyttari stoðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Ekki er í boði að hika lengur en þetta verður ekki gert nema með stórátaki, hugarfarsbreytingu og skýrri pólitískri leiðsögn. Breyta þarf forgangsröðun. Stöðnun er ekki valmöguleiki og ef stjórnvöld vilja styðja við framtíðarsýn um öflugt, fjölbreytt atvinnulíf sem drifið er áfram af nýsköpun þarf að ganga hreint til verks.

Þetta gera stjórnvöld með atvinnustefnu sem miðar að aukinni samkeppnishæfni Íslands. Slík stefna byggir á umbótum í menntamálum, uppbyggingu innviða, bættri umgjörð nýsköpunar og betri starfsskilyrðum fyrirtækja. Ný störf verða til samfara aukinni verðmætasköpun og vexti fyrirtækja en í því tilliti þarf að virkja hugvitið þar sem nýsköpun leikur lykilhlutverk. Á næstu þremur áratugum þurfa að verða til 60 þúsund ný störf á Íslandi eða um 40 ný störf á hverri viku til að tryggja góð efnahagsleg lífsgæði landsmanna. Bráðavandinn er hið mikla atvinnuleysi sem nú er í sögulegum hæðum. Iðnaður lagði mikið til endurreisnar hagkerfisins á árunum 2011-2019. Eitt af hverjum fimm störfum er í iðnaði og skapar íslenskur iðnaður ríflega fimmtung landsframleiðslunnar með beinum hætti og 40% til útflutnings. Iðnaður getur á enn kröftugri hátt verið drifkraftur endurreisnar hagkerfisins nú en til þess þurfa stjórnvöld og atvinnulíf að taka höndum saman og vinna hratt að uppbyggingu og bættum skilyrðum. Nýjar útflutningsgreinar og aukin verðmæti með nýsköpun í rótgrónum greinum þurfa að knýja vöxtinn til að viðhalda þeim lífskjörum sem við höfum búið við. Nýsköpun er þannig eina leiðin fram á við.

Staða orkusækins iðnaðar er mikið áhyggjuefni en verulega hefur dregið úr samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja sem skapa um 30% gjaldeyristekna þjóðarinnar ásamt fjölda beinna og óbeinna starfa og verðmæta. Ef kostnaður við flutning raforku og það orkuverð sem býðst núna lækkar ekki má búast við afföllum í þessari grein. Það yrði mikið áfall ef tvær stoðir hagkerfisins myndu gefa eftir á sama tíma.

Verja þarf þau störf sem fyrir eru og búa til ný með hvetjandi og skilvirkari starfsskilyrðum og stórátaki í nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Auknar fjárfestingar hins opinbera í efnislegum innviðum landsins ásamt átakinu Allir vinna hafa nú þegar varið fjölmörg störf og stuðlað að tímabærri uppbyggingu innviða sem er fjárfesting í hagvexti framtíðar.

Fjárfesting í menntun, líkt og í innviðum og nýsköpun, er arðbær og skilar sér margfalt til baka. Samtök iðnaðarins fagna tímabærri áherslu stjórnvalda á iðnnám en samhent átak virðist vera að skila sér í aukinni aðsókn í iðnnám. Lágt hlutfall brautskráðra á háskólastigi í STEM greinum dregur úr nýsköpun og þarf að bæta þar úr með markvissum aðgerðum eigi að byggja upp nýja efnahagsstoð.

Þess vegna leggja Samtök iðnaðarins áherslu á eftirfarandi:

· Stjórnvöld móti atvinnustefnu sem miðar að aukinni samkeppnishæfni Íslands. Slík stefna byggir á umbótum í menntamálum, uppbyggingu innviða, bættri umgjörð nýsköpunar og betri starfsskilyrðum fyrirtækja.

· Haldið verði áfram að bæta skilyrði og hvata til nýsköpunar í atvinnulífi, m.a. með frekari eflingu Tækniþróunarsjóðs.

· Framlög hins opinbera til uppbyggingar og viðhalds innviða landsins verði aukin enn meira enda leggur það grunn að hagvexti framtíðar.

· Átakið Allir vinna verði framlengt út árið 2021 að lágmarki.

· Nauðsynlegum umbótum á byggingamarkaði verði hrundið í framkvæmd tafarlaust í takt við tillögur átakshóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem skilað var í byrjun árs 2019.

· Dregið verði úr álögum á fyrirtæki, sér í lagi verði tryggingagjald og fasteignagjöld lækkuð.

· Mikilvægt er að stjórntækjum opinberra fjármála og peningamála sé beitt af fullum þunga til að stýra hagkerfinu út úr núverandi efnahagsþrengingum.

· Umsvif ríkisins á samkeppnismörkuðum hafa aukist og eru að mati samtakanna óásættanleg þar sem þau draga kraft úr atvinnulífinu.

· Ríki og háskólar setji upp hvata til þess að fjölga þeim sem útskrifast úr STEM greinum á háskólastigi.

· Samtökin skora á stjórnvöld – ríki og sveitarfélög – að styðja við áform um nýtt húsnæði fyrir Tækniskólann þannig að þau verði að veruleika sem fyrst.

· Unnið verði að markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum í góðri sátt við atvinnulífið þar sem jákvæðum hvötum verði beitt frekar en að sett verði á boð og bönn.

· Samtökin styðja áform um orkuskipti í samgöngum og benda á þau tækifæri sem þar liggja fyrir íslenskt atvinnulíf við áframhaldandi þróun og nýsköpun á sviði rafmagns, metans, methanóls, vetnis og repjuolíu sem eldsneytisgjafa í samgöngum