Fréttasafn10. mar. 2016

Ályktun Iðnþings 2016

 Ályktun Iðnþings 2016

Kröftugur hagvöxtur, bati á vinnumarkaði og miklar launahækkanir einkennir íslenskt efnahagslíf um þessar mundir. Hagkerfið er enn í skjóli fjármagnshafta sem verða afnumin að stórum hluta. Við þær aðstæður verður hagkerfið berskjaldaðra en áður og mikilvægi skynsamlegrar hagstjórnar meira en nokkru sinni fyrr.

Mikilvæg forsenda stöðugleika í efnahagslífinu er friður á vinnumarkaði. SALEK samkomulagið gefur fyrirheit um slíkt og gæti skapað forsendur fyrir lækkun vaxta ef það tekst að stöðva víxlhækkun launa og verðlags. Það er hins vegar vandasöm áskorun fyrir fyrirtækin að mæta þessum miklu hækkunum og verja um leið stöðugleikann. Íslenskt atvinnulíf getur ekki til lengdar búið við mun hærri fjármagnskostnað en erlendir keppinautar auk þess sem mikill vaxtamunur getur valdið óeðlilegri og óæskilegri styrkingu á gengi krónunnar.   

Á einu ári hefur gengi krónunnar styrkst um 8% auk þess sem laun hækka hér hraðar en í samkeppnislöndunum. Afleiðingin er versnandi samkeppnisstaða útflutnings- og samkeppnisgreina.  Mikilvægt er að meginstoðir hagstjórnar, peningastefnan og ríkisfjármálastefnan,  verði endurbætt enda mun krónan verða gjaldmiðill okkar næstu árin. Óvarlegt er að útiloka aðra valkosti en íslenska krónu til lengri tíma og í því samhengi er eðlilegt að framhald aðildarviðræðna við ESB verði lagt í dóm þjóðarinnar.

Frjáls og óhindruð viðskipti og aðgangur að erlendum mörkuðum er lífæð íslenskra fyrirtækja. EES-samningurinn skiptir þar sköpum. Tryggja þarf tilvist og þróun hans. Verja þarf hagsmuni Íslands vegna TTIP, fríverslunarsamnings milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins komi til hans enda á Ísland enga aðkomu að núverandi viðræðum.

Þrátt fyrir myndarlegan hagvöxt síðustu ár er fjárfesting í landinu enn of lítil, sérstaklega í innviðum og íbúðum. Að óbreyttu munu innviðir í landinu rýrna og þannig draga úr samkeppnishæfni samfélagsins. Átak þarf í innviðafjárfestingu og treysta þarf samstarf opinberra aðila og einkageirans við framkvæmd og fjármögnun slíkra framkvæmda.

Mikilvægt er að áfram verði unnið að einföldun í skattkerfinu. Það stuðlar að betri skattheimtu og dregur úr hættu á svartri atvinnustarfsemi og skattaundanskotum.  Niðurfelling tolla og vörugjalda var mikilvægt skref í þeim efnum en brýnasta hagsmunamálið er að stjórnvöld standi við fyrirheit um lækkun tryggingagjalds og færi í áföngum til sama horfs og var 2008. SI skorar á stjórnvöld að færa endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað aftur upp í 100% enda sýnir reynsla undanfarinna missera að það er góð leið í baráttu gegn svartri atvinnustarfsemi.

Ísland er í harðri samkeppni um að laða til sín og halda í starfsemi sem byggir á mannauði og þekkingu. Þó skilyrði fyrirtækja til rannsóknar og þróunar hér á landi hafi batnað umtalsvert á liðnum árum vantar mikið upp á að við stöndum keppinautum okkar jafnfætis. Í því samhengi skiptir mestu að hækka þak á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, auðvelda fyrirtækjum að ráða til sín erlenda sérfræðinga, efla skattalega hvata til áhættufjárfestinga og lækka kostnað við skráningu á skipulega verðbréfamarkaði.

Aukin framleiðni er mikilvægt skref í átt að bættri samkeppnishæfni og auknum lífsgæðum til framtíðar. Hækkandi meðalaldur og hlutfallsleg fækkun í hópi þeirra sem eru vinnandi kallar á nýjar lausnir. Einfaldara regluverk og skilvirkara eftirlit af hálfu hins opinbera er önnur mjög mikilvæg forsenda aukinnar framleiðni.

Iðn-, verk- og tæknimenntun þarf að vera í forgangi í íslensku skólakerfi til að mæta brýnni þörf atvinnulífsins. Skólakerfið verður í auknum mæli að gagnast nemendum til að ná nauðsynlegri hæfni fyrir framtíðina.  Iðnfyrirtækin í landinu ætla að leggja sitt að mörkum og leggja stóraukna áherslu á vinnustaðanám með sérstökum sáttmála þess efnis.

Loftslagið hlýnar og betri umgengni við umhverfið og aukin orkunýting er ekki krafa heldur verkefni sem við verðum að takast á hendur. Iðnaðurinn er þar í lykilhlutverki – tilbúinn með lausnir og hugmyndir.

Orka er lífæð fyrirtækja og heimila og ekkert land í heiminum framleiðir meira rafmagn á íbúa en Ísland. Brýnt er að eðlilegur vöxtur sé í framboði raforkuframleiðslu og að uppbygginga raforkuflutningskerfisins sé í takt við þarfir. Verja þarf samkeppnishæfni orkunýtingar á Íslandi.

Lækka þarf byggingarkostnað. Þótt íbúðafjárfesting hafi aukist nokkuð dugar það hvergi nærri til að mæta brýnni þörf. Áfram þarf að vinna að einföldun á byggingarreglugerð og breytingum á mannvirkjalögum með það fyrir augum að auka sveigjanleika og lækka byggingarkostnað. Einnig er nauðsynlegt að lækka lóðaverð og fjármagnskostnað. Átak þarf í byggingu íbúða.

Nýir búvörusamningar fela í sér skýr skilaboð um að stjórnvöld ætli að standa vörð um hagsmuni landbúnaðarins með talsverðum tilkostnaði. Ekki má missa sjónar af því að öflug landbúnaðarframleiðsla er þjóðinni mikilvæg og að einstakar greinar þurfa eðlilegt ráðrúm til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Slíkir samningar verða engu að síður að fela í sér skýra hvata til nýsköpunar og virkrar samkeppni og að gætt sé að jafnræði atvinnugreina. Samningar sem þessir verða að búa í haginn fyrir og fela í sér minnkandi vernd og jöfnun starfsskilyrða.

Markverður árangur hefur náðst í efnahagslífinu síðustu misserin, ekki síst vegna aðkomu stjórnvalda að niðurfellingu tolla, einföldun á skattkerfinu og SALEK-samkomulaginu. Mikilvægt er að þétta enn frekar samstarf og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs með það fyrir augum að bæta starfsskilyrði og samkeppnishæfni.

Lagt fram á aðalfundi SI 10. mars 2016

Stjórn SI