Fréttasafn



7. mar. 2019 Almennar fréttir

Ályktun Iðnþings 2019

Hér fyrir neðan er ályktun Iðnþings 2019 sem samþykkt var á aðalfundi Samtaka iðnaðarins í morgun:

Íslenskur iðnaður í fremstu röð – treystum stoðirnar

Þáttaskil eru að verða í íslenskum efnahagsmálum þar sem hagkerfið kólnar eftir uppsveiflu síðustu ára. Við þær aðstæður verður að leita allra leiða til að halda hagkerfinu í jafnvægi, tryggja mjúka lendingu og styrkja stoðir efnahagslegrar velsældar almennings og atvinnulífs í landinu til lengri tíma. Samspil mikilla launahækkana og sterkari krónu hefur dregið verulega úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Niðurstöður kjarasamninga munu því hafa mikil áhrif á efnahagslega velsæld á Íslandi næstu árin. Verði launahækkanir umfram framleiðnivöxt verður lending hagkerfisins harkaleg og Ísland dregst afturúr í samkeppni við önnur ríki. Á því töpum við öll þar sem minna verður til skiptanna.

Iðnaður mótar samfélagið og hagkerfið allt enda er umfang iðnaðar á Íslandi mjög mikið. Iðnaðurinn skapar um eitt af hverjum fimm störfum í landinu, 30% gjaldeyristekna og 23% landsframleiðslunnar, þriðjung af veltu fyrirtækja og stóran hluta skatttekna hins opinbera. Áhrif af starfsemi iðnfyrirtækja eru einnig mikil á aðra starfsemi í landinu en fjöldi fyrirtækja í öðrum greinum starfa með iðnfyrirtækjum í verðmætasköpun sinni.

Þeir þættir sem mestu skipta varðandi framleiðni og efnahagslega velsæld þjóða eru menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Með umbótum í þessum fjórum málaflokkum eflist samkeppnishæfni landsins, verðmætasköpun eykst og farsæld þjóðarinnar vex. Samtök iðnaðarins hafa greint helstu áskoranir, mótað framtíðarsýn, sett markmið og gert um 70 tillögur til úrbóta til að efla samkeppnishæfni Íslands. Rauði þráðurinn er atvinnustefna sem samhæfir stefnumótun í ólíkum málaflokkum.

Um þessar mundir móta stjórnvöld stefnu í mörgum mikilvægum málum og mun niðurstaða þess ásamt eftirfylgni stjórnvalda móta efnahagslega velsæld okkar næstu árin. Við þá vinnu má ekki missa sjónar af því takmarki að efla samkeppnishæfni Íslands. Þess vegna leggja Samtök iðnaðarins áherslu á eftirfarandi:

· Stöðugleiki: Tryggja verður aukinn stöðugleika í starfsumhverfi fyrirtækja. Auka verður aga í hagstjórn hins opinbera og vinna gegn sveiflum í efnahagslífinu.

· Hagkvæmni: Tryggja verður aukna hagkvæmni í starfsumhverfi fyrirtækja og jafnframt draga úr skattheimtu og gjaldtöku. Draga verður úr raunvaxtamun milli landa og lækka á tryggingagjald enn frekar.

· Skilvirkni: Auka þarf skilvirkni í opinberum rekstri með gæði opinberrar þjónustu í huga. Stytta verður málsmeðferðartíma eftirlits- og úrskurðaraðila. Draga verður úr umsvifum ríkisins á samkeppnismarkaði.

· Nýsköpun: Auka verður fjárfestingu í rannsóknum og þróun í íslensku atvinnulífi m.a. með auknu framboði áhættufjármagns til vaxtar og innleiðingu hvata í skattkerfinu. Afnema skal þök á endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarverkefna tafarlaust.

· Menntun: Menntakerfið verður að styðja betur við hugvit og verkþekkingu. Þess vegna þarf að fjölga iðn- og tæknimenntuðum og leggja jafnframt enn frekari áherslu á menntun í raunvísindum. Áhersla á forritun og raungreinar skal aukin frá yngstu stigum.

· Byggingamál: Strax þarf að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum úrbótum á stjórnsýslu byggingamála og þurfa ríki og sveitarfélög að sýna þann vilja sem fram kom í átakshópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í verki.

· Umhverfismál: Iðnaður hefur á undanförnum árum fjárfest til að vernda umhverfið og metnaður er til að gera enn betur. Stjórnvöld og atvinnulíf þurfa að vinna saman svo metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum verði náð.

· Orkustefna: Raforkuverð hér á landi þarf að vera samkeppnishæft við önnur ríki og uppbygging raforkukerfisins á að vera eins hagkvæm og kostur er til að lágmarka kostnað. Tryggja þarf að samkeppnislögum sé fylgt á meðan opinberir aðilar eiga og reka helstu fyrirtæki á þessu sviði og eru í markaðsráðandi stöðu.

· Innviðir: Stórátak þarf í innviðauppbyggingu hér á landi. Nýta skal slaka sem myndast þegar hægir á gangi hagkerfisins til nauðsynlegrar uppbyggingar á innviðum.