Fréttasafn



4. mar. 2021 Almennar fréttir

Ályktun Iðnþings 2021

Ályktun Iðnþings 2021 fer hér fyrir neðan:

Hlaupum hraðar – slítum fjötrana og sækjum tækifærin

Á næstu 12 mánuðum verða teknar ákvarðanir sem munu ráða miklu um efnahagslega framtíð á Íslandi næstu ár og áratugi. Samtök iðnaðarins leggja til að stjórnvöld slíti fjötrana með markvissum hætti á næstu mánuðum svo hægt verði að hlaupa hraðar og skapa eftirsótt störf og aukin verðmæti. Leið vaxtar – að veita atvinnulífinu svigrúm til að skapa aukin verðmæti og ný og eftirsótt störf – er farsælasta leiðin. Leið aukinnar skattlagningar mun hins vegar hefta vöxt atvinnulífs og tefja endurreisnina.

Atvinnustefna er sú samhæfing sem þarf til að efla samkeppnishæfnina á sem skilvirkastan hátt. Með atvinnustefnu er átt við að stefnumótun sé samhæfð í þeim málaflokkum sem helst hafa áhrif á framleiðni og samkeppnishæfni. Málaflokkarnir sem einkum þarf að samhæfa og gera þannig úr garði að þeir styðji hver við annan eru menntun, innviðir, nýsköpun, starfsumhverfi og orka og umhverfi. Með atvinnustefnu er lagður grunnur að uppbyggingu til að styðja við efnahagslega velsæld en slík stefna getur ekki síður verið rauður þráður í stefnumótun hins opinbera. Þannig er hægt að ná samræmi í ólíkum málaflokkum svo opinberir fjármunir nýtist á sem hagkvæmastan hátt og dregið sé úr sóun.

Verkefni hagstjórnar er að skapa nægan hagvöxt til að vinna bug á atvinnuleysi og auka efnahagsleg lífsgæði þjóðarinnar. Svo það megi verða að veruleika þarf að ráðast í markvissar aðgerðir strax. Afar brýnt er að auka gjaldeyristekjur, verðmætasköpun og fjölga störfum í einkageiranum. Hagræða þarf í ríkisrekstri og má benda á vel heppnaða sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem skilvirkni hefur aukist og hundruð milljóna sparast árlega. Minnka þarf umfang ríkisrekstrar með það að markmiði að ríkið sinni almannahagsmunum en ekki því sem betur er komið í einkarekstri.

Til þess að skapa góð efnahagsleg lífsgæði þarf að auka landsframleiðsluna um 545 milljarða króna á næstu fjórum árum. Auka þarf gjaldeyristekjur um 300 milljarða króna yfir tímabilið eða sem nemur ríflega 1,4 milljarði á viku. Fjölga þarf störfum um 29 þúsund til að ná atvinnuleysinu niður og mæta væntri fólksfjölgun. Takist þetta munu efnahagsleg lífsgæði landsmanna aukast á tímabilinu og landsframleiðsla á mann verða meiri en hún var fyrir núverandi efnahagsniðursveiflu.

Markmið á sviði umhverfis- og loftslagsmála skapa tækifæri til þess að nýta hugvit til að þróa nýja tækni og aðferðir til að gera hluti öðruvísi og betur. Atvinnulífið er best til þess fallið að stuðla að breytingum á framleiðsluferlum, starfsemi sinni eða öðrum þáttum til að lágmarka áhrif á umhverfið. Þessi aukna áhersla hefur, og mun áfram, leiða til þróunar í grænni tækni, umhverfisvænni framleiðsluferlum, rafrænum lausnum og orkuskiptum í samgöngum svo dæmi séu tekin.

Tvær af fjórum útflutningsstoðum hagkerfisins tilheyra iðnaði, hugverkaiðnaður og orkusækinn iðnaður. Til að bæta við þeim 300 milljörðum króna í gjaldeyristekjur sem þarf á næstu fjórum árum er nauðsynlegt að sækja tækifæri til frekari gjaldeyrissköpunar. Samtök iðnaðarins hvetja til þess að tækifærin verði sótt með frekari umbótum og markaðssókn til að laða að fjárfestingu í nýjum og rótgrónum fyrirtækjum þannig að útflutningstekjur aukist, fleiri störf skapist sem og aukin verðmæti.

Til þess að þetta verði að veruleika þurfum við að slíta fjötra og sækja verðmætin. Þess vegna leggja Samtök iðnaðarins áherslu á eftirfarandi:

Starfsumhverfi:

· Beita af fullum þunga fjármálum ríkis og sveitarfélaga til þess að skapa kröftuga viðspyrnu fyrir hagkerfið inn í nýtt hagvaxtarskeið. Gæta að því að forgangsröðun sé rétt.

· Létta álögum af fyrirtækjum eins og kostur er, m.a. lækkun tryggingagjalds og fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði.

· Beita tækjum peningastjórnunnar enn frekar til þess að skapa skilyrði fyrir auknar fjárfestingar og vöxt í innlendri eftirspurn. Lækka vexti frekar og auka aðgengi fyrirtækja að fjármagni.

· Bætt eftirlit með lögum um handiðnað með áherslu á aukna skilvirkni og meðalhóf. Vinna áfram að markvissri endurskoðun á gildandi regluverki með það að markmiði að einfalda regluverk og draga úr óþarfa reglubyrði.

· Tryggja að raforku- og flutningsverð raforku á Íslandi sé alþjóðlega samkeppnishæft.

Innviðir:

· Sameina byggingar-, húsnæðis-, skipulags-, sveitarstjórnar- og samgöngumál undir eitt ráðuneyti innviða.

· Auka nýfjárfestingar og viðhald í innviðakerfinu. Nýta samvinnuleið hins opinbera og einkaaðila við uppbyggingu innviða.

· Framlengja átakið „Allir vinna“, a.m.k. út árið 2022. SI munu áfram beita sér fyrir því að neikvæð fjárhagsleg áhrif á verksamninga vegna vísitölubreytinga í tengslum við átakið verði leiðrétt.

· Tryggja stöðuga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis með því að auka framboð á nýju byggingarsvæði, bæta rafræna stjórnsýslu, tryggja aðgengi að gögnum og stytta tímafresti.

Nýsköpun:

· Gera breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, hækkun þaks og endurgreiðsluhlutfall vegna rannsókna- og þróunar, ótímabundnar.

· Hækka skattafrádrátt vegna fjárfestinga einstaklinga í sprotafyrirtækjum úr 75% í 100% til að virkja einkafjármagn í fjárfestingar í frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun.

· Auka enn frekar framlög til Tækniþróunarsjóðs og taka mið af mælanlegum markmiðum um úthlutunarhlutfall þannig að framlög taki mið af eftirspurn.

Menntun:

· Opna aðgengi starfsmenntaðra að háskólanámi og vinna gegn kerfislægum vanda starfsmenntunar er varðar námsframvindu, námslok og tækifæri nemenda til framgangs að námi loknu. Ljúka innleiðingu rafrænna ferilbóka í öllum greinum á árinu 2021.

· Greiða götu þess að framkvæmdir við byggingu nýs Tækniskóla verði hafnar á árinu 2022.

· Innleiða hvata þannig að háskólar útskrifi fleiri nemendur í STEM greinum.

· Setja aukna áherslu á að bregðast við fjölbreyttum vanda í menntakerfinu, með því að huga að stöðu drengja, styrkja stöðu kennara og bregðast við fjárskorti hjá skólum sem bjóða upp á iðnnám og jafna stöðu þess gagnvart hefðbundnu bóknámi.