Fréttasafn10. mar. 2022 Almennar fréttir

Ályktun Iðnþings 2022

Ályktun Iðnþings 2022 var samþykkt á aðalfundi sem fram fór í Húsi atvinnulífsins. Ályktunin fer hér:

Tími aðgerða er runninn upp

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar lofar góðu fyrir samkeppnishæfni Íslands. Orð eru til alls fyrst en tími aðgerða er runninn upp í þágu samfélagsins alls.

Undanfarin tvö ár hefur ríkt mikil óvissa og ekki sér fyrir endann á því ástandi nú í lok heimsfaraldurs og byrjun stríðsátaka í Evrópu. Röskun aðfangakeðju með tilheyrandi töfum á afhendingu og verðhækkunum ofan á miklar launahækkanir þrengja að iðnaði. Við þessar krefjandi aðstæður er ánægjulegt að þau ríflega 40 þúsund sem starfa í iðnaði hafa unnið þrekvirki við að halda uppi starfsemi við mjög erfiðar aðstæður og séð landsmönnum fyrir matvælum og öðrum nauðsynjum, annast framkvæmdir og skapað verðmæti til útflutnings.

Öflugur iðnaður tryggir góð lífsgæði landsmanna og helstu vaxtartækifæri í atvinnulífinu eru í iðnaði, sérstaklega í grænum iðnaði sem nýtir orku til verðmætasköpunar og hugverkaiðnaði sem hefur fest sig í sessi sem útflutningsstoð. En tækifærin þarf að sækja og er það sameiginlegt verkefni atvinnulífs og stjórnvalda þar sem hlutverk stjórnvalda er að efla samkeppnishæfni Íslands, setja skýr markmið, taka afstöðu með uppbyggingu og slíta fjötra sem hamla vexti. Starfsumhverfi fyrirtækja þarf að vera samkeppnishæft. Létta þarf álögum af fyrirtækjum með m.a. lækkun tryggingagjalds, auka stöðugleika í umhverfi þeirra og gera umhverfið skilvirkara með því að draga úr reglubyrði.

Lítið sem ekkert svigrúm til launahækkana

Það styttist í gerð nýrra kjarasamninga. Rekstrarumhverfi fyrirtækja er krefjandi eftir samdrátt síðustu missera, hækkandi hráefniskostnað, miklar launahækkanir undanfarin ár og aukna verðbólgu. Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum er erfið. Vegna þessa þarf samtal aðila vinnumarkaðarins að taka mið af því að svigrúm til launahækkana er lítið sem ekkert og því þarf fremur að líta til tækifæra til að auka hagvöxt og stuðla að lækkun vaxta með samhentu átaki. Kjarasamningar þurfa að taka mið af síbreytilegri samsetningu atvinnulífs og vexti nýrra iðngreina á undanförnum árum.

Græn iðnbylting

Metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum verður einungis náð með samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda og með viðhorfsbreytingu varðandi orkunotkun og -öflun. Lausnirnar verða til í atvinnulífinu og iðnaðurinn mun ekki láta sitt eftir liggja. Sum fyrirtæki hafa þegar náð kolefnishlutleysi og önnur hafa sett sér skýr markmið og gripið til aðgerða. Með orkuskiptum skapast mikil tækifæri til að virkja hugvit og skapa þekkingu sem nýtist hér á landi og í öðrum ríkjum til að ná markmiðum í loftslagsmálum. Þannig verður hugverkaiðnaður enn öflugri. Stjórnvöld þurfa að hvetja enn frekar til nýsköpunar og fjárfestinga á þessu sviði, greiða götu orkuskipta og stuðla að fjárfestingum til að ná settu marki. Tími aðgerða er runninn upp.

Aðgerða er þörf í orkumálum

Um þessar mundir verður þjóðarbúið af miklum útflutningstekjum vegna þess að það er ekki næg raforka til að skapa verðmæti í fjölbreyttum iðnaði. Auk þess er flutnings- og dreifikerfi raforku úr sér gengið að hluta til sem leiðir til óásættanlegrar sóunar verðmæta. Þetta kallar á fumlaus viðbrögð stjórnvalda og orkufyrirtækja til að bæta úr með aukinni orkuöflun og öflugra flutningskerfi þannig að samfélagið í heild sinni njóti ávinnings af auðlindum landsins og markmiðum stjórnvalda um orkuskipti og jarðefnaeldsneytislaust Ísland verði náð. Tími aðgerða er runninn upp.

Hugverkaiðnaður verði stærsta útflutningsstoðin

Mestu vaxtartækifærin fyrir íslenskt samfélag liggja á sviði hugverkaiðnaðar sem hefur alla burði til þess að verða stærsta útflutningsstoðin í lok þessa áratugar ef rétt er á málum haldið. Festa þarf núverandi fyrirkomulag endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar í sessi án tafar og liðka þarf fyrir komu erlendra sérfræðinga til að ná metnaðarfullum markmiðum um vöxt. Stjórnvöld gáfu skýr skilaboð í nýjum stjórnarsáttmála um eflingu hugverkaiðnaðar. Tími aðgerða er runninn upp.

Íbúðir fyrir alla landsmenn og traustir innviðir

Um nokkurra ára skeið hafa Samtök iðnaðarins varað við því að það stefndi í óefni á íbúðamarkaði þar sem of lítið væri byggt. Auka þarf framboð á byggingalóðum og einfalda þarf regluverk til að höggva á hnútinn. Það er í höndum ríkis og sveitarfélaga að gera það og er skorað á hlutaðeigandi að bregðast við án tafar þannig að íbúðauppbyggingu verði flýtt. Skortur á nýjum íbúðum hamlar meðal annars vexti atvinnulífs víða um land og leiðir til hækkunar íbúðaverðs sem hefur áhrif á verðbólgu og vexti til hækkunar.

Þó innviðauppbygging hafi fengið aukið vægi undanfarin ár er enn langt í land og ráðast þarf í miklar fjárfestingar til að koma innviðum landsins í ásættanlegt horf. Tími aðgerða er runninn upp.

Gott starfsumhverfi fyrirtækja í heimabyggð

Íslenskur iðnaður hefur átt stóran þátt í uppbyggingu íslensks samfélags síðustu áratugina og mikilvægt er að huga að starfsumhverfi hans, ekki síst í heimabyggð. Sveitarfélög þurfa að taka markviss skref til að styðja og styrkja íslenskan iðnað og skapa honum gott starfsumhverfi sem tryggir samkeppnishæfni hans bæði innanlands og í alþjóðlegri samkeppni. Hér ber að líta til þess að lækka álögur, með lækkun fasteignaskatta, og auka skilvirkni í stjórnsýslu sveitarfélaga og draga þannig úr óþarfa kostnaði í eftirliti og þjónustu. Jafnframt þarf huga að því að tryggja virka og heilbrigða samkeppni í sveitarfélögum með áherslu á útvistun verkefna og vandaða útboðsferla.

Mannauður til vaxtar

Einhverjar stærstu umbætur í þágu iðnnáms urðu á síðustu árum þegar kerfislægum hindrunum var rutt úr vegi og möguleikar námsins voru kynntir. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og hefur aðsókn aukist verulega þannig að í fyrra þurfti að vísa hundruðum áhugasamra nemenda frá námi sökum plássleysis. Til að fylgja eftir þessum ánægjulega árangri þarf að bæta innviði menntunar, auka fjármagn til verknáms og búa náminu og nemendum viðunandi aðstöðu. Tækniskólinn er nú eftirsóttasti framhaldsskóli landsins. Samtök iðnaðarins fagna viljayfirlýsingu stjórnvalda, Hafnarfjarðarbæjar og Tækniskólans um byggingu nýs Tækniskóla. Tryggja þarf framgang verkefnisins þannig að framkvæmdir geti hafist á árinu.

Fjölga þarf þeim sem útskrifast úr raunvísinda- og tæknigreinum á háskólastigi (STEM) og slíta kerfislæga fjötra sem tefja komu erlendra sérfræðinga til landsins. Samtökin vilja einnig benda á vanda drengja í skólakerfinu og hvetja eindregið til aðgerða til að bæta úr.


Aðalfundur SI í Húsi atvinnulífsins

Hér fyrir neðan eru myndir sem teknar voru á aðalfundi SI að morgni 10. mars í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35. Myndir/Birgir Ísleifur.

Si_adalfundur_2022-1Árni Sigurjónsson, formaður SI.

Si_adalfundur_2022-12Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Si_adalfundur_2022-5Guðbjörg Helga Hjartardóttir, lögmaður hjá Logos.

Si_adalfundur_2022-16Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI.

Si_adalfundur_2022-9Þórður Höskuldsson, framkvæmdstjóri Outcome.

Si_adalfundur_2022-2Egill Jónsson hjá Össuri, Magnús Hilmar Helgason hjá Launafli og Jónína Guðmundsdóttir hjá Coripharma.

Si_adalfundur_2022-3Lilja Björk Guðmundsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, og Árni Sigurjónsson, formaður SI.

Si_adalfundur_2022-4_1648736350306Guðrún Halla Finnsdóttir hjá Norðuráli og Arna Arnardóttir gullsmiður.

Si_adalfundur_2022-6Halldór Halldórsson hjá Íslenska kalkþörungarfélaginu.

Si_adalfundur_2022-7

Si_adalfundur_2022-8Kristján Sveinbjörnsson hjá Rafmagnsþjónustunni og Stefán Sigurvinsson hjá Skipasmíðastöðinni í Njarðvík.

Si_adalfundur_2022-10Hjörleifur Stefánsson hjá Nesrafi, formaður Samtaka rafverktaka, Jón Sigurðsson, formaður Meistarafélags húsasmiða, og Már Guðmundsson, formaður Málarameistarafélagsins.

Si_adalfundur_2022-11

Si_adalfundur_2022-13

Si_adalfundur_2022-14

Si_adalfundur_2022-15Egill Viðarsson hjá Verkís og Halldór Halldórsson hjá Íslenska kalkþörungafélaginu.

Si_adalfundur_2022-17Vignir Steinþór Halldórsson hjá Öxar.

Si_adalfundur_2022-18Kristján Sveinbjörnsson hjá Rafmagnsþjónustunni.

Si_adalfundur_2022-19