Fréttasafn



6. mar. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Ályktun Iðnþings 2025

Ályktun Iðnþings 2025:

Ísland á stóra sviðinu – við veljum framtíðina

Heimsmyndin hefur breyst mikið undanfarin ár. Blikur eru á lofti í alþjóðamálum, stríðsátök geysa og gervigreindarkapphlaup er hafið sem mun hafa veruleg áhrif á stöðu þjóða þegar fram í sækir. Við þessar aðstæður þurfa stjórnvöld að huga sérstaklega að hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi, efla tengsl og horfa bæði til vesturs og austurs.

Lífskjör okkar byggja á sköpun verðmæta – vöru og þjónustu – og öflugum útflutningi. Forsenda þeirra er greiður aðgangur að mörkuðum. Útflutningur iðnaðar nam um 750 milljörðum króna árið 2024 og óx um 6% milli ára. Iðnaður er stærsta útflutningsgrein hagkerfisins. Stjórnvöld þurfa að róa öllum árum að því að tryggja samkeppnishæfni íslensks iðnaðar og atvinnulífs, þannig að verðmætasköpun hér á landi geti eflst og vaxið í alþjóðlegri samkeppni. Það krefst markvissra aðgerða og það þarf að ryðja heimatilbúnum hindrunum úr vegi, einfalda regluverk og skapa hagstæð skilyrði fyrir áframhaldandi fjárfestingu í nýsköpun og uppbyggingu innviða.

Gervigreindarkapphlaup stendur nú yfir þar sem ríki heims keppast við að byggja upp tækni-, gagna- og fjarskiptainnviði, tryggja sér aðgang að nauðsynlegum búnaði og efla getu til að taka þátt í yfirstandandi iðnbyltingu. Ísland þarf að móta skýra sýn og stefnu þegar kemur að gervigreindarbyltingunni og fylgja henni eftir með markvissum aðgerðum. Íslensk stjórnvöld hafa mikið um það að segja hvort tækifæri verða sótt á sviði gervigreindar eða Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir öryggis- og varnarhagsmuni landsins. Samtök iðnaðarins hvetja stjórnvöld til þess að sækja tækifærin sem felast í stærstu iðnbyltingu síðari tíma í nánu samráði við atvinnulífið.

Í breyttri heimsmynd þarf að efla styrk samfélagsins til þess að mæta fjölbreyttari ógnum, af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara. Með öðrum orðum þarf að efla viðnámsþrótt samfélagsins. Íslenskur iðnaður hefur sannarlega sýnt styrk og viðbragð í krefjandi aðstæðum undanfarin ár í glímu við náttúruöflin og heimsfaraldur. Samtök iðnaðarins hvetja til samstarfs stjórnvalda og atvinnulífs um eflingu viðnámsþrótts.

Það krefst atorku að stofna og reka fyrirtæki og hrinda hugmyndum í framkvæmd. Um allt land er kraftur og vilji til verka. Hindranir af ýmsu tagi hefta uppbyggingu og vöxt og þeim hindrunum þarf að ryðja úr vegi. Ný ríkisstjórn hefur boðað mótun atvinnustefnu með aukna framleiðni að markmiði og eru þau áform í samræmi við áherslur Samtaka iðnaðarins undanfarin ár um umbætur í þágu aukinnar samkeppnishæfni. Skýr atvinnustefna mun einnig auka fyrirsjáanleika í atvinnulífi öllum til góðs.

Það hefur dregið úr verðbólgu og vaxtalækkunarferli er hafið. Samtök iðnaðarins fagna áherslum stjórnvalda á efnahagslegan stöðugleika og hagræðingu í rekstri hins opinbera.

Engin verðmæti verða til án orku og hingað til hefur samkeppnishæfni Íslands endurspeglast að miklu leyti í alþjóðlega samkeppnishæfu raforkuverði. Þessi misserin er skortur á raforku þar sem kyrrstaða ríkti í raforkuöflun um árabil og flókið regluverk hamlar uppbyggingu. Skortur á raforku er raunveruleg ógn við orkuskiptin, framtíðarhagvöxt, og þar með lífskjör hér á landi. Raforkuverð hækkaði um ríflega 15% árið 2024 og meira hjá mörgum fyrirtækjum, sem dregur úr samkeppnishæfni og kemur mjög illa við rekstur iðnfyrirtækja. Flýta þarf fyrir uppbyggingu nýrra virkjana og skerpa þarf á hlutverki ríkisins á raforkumarkaði. Tryggja þarf markaðsaðgengi nýrra lausna óháð eignarhaldi virkjunaraðila, en óeðlilegt er að áætla að fjárfestingarþörfin í raforkukerfinu sé mætt án aðkomu einkaframtaksins.

Uppsöfnuð viðhaldsskuld innviða nemur nú tæplega 700 milljörðum króna og vex ár frá ári. Hröð fólksfjölgun og aukin umsvif í atvinnulífinu kalla jafnframt á enn frekari uppbyggingu. Innviðaskuldin er dýrkeypt þar sem innviðir eru lífæðar samfélagsins og leggja grunn að verðmætasköpun í atvinnulífinu. Leita þarf fjölbreyttari leiða til þess að bæta úr, meðal annars með því að virkja einkaframtakið í nýfjárfestingu samhliða því að tryggja nægt fjármagn til viðhalds. Auka þarf uppbyggingu íbúða um land allt en skipulagsmál, takmarkað lóðaframboð og aukin gjaldtaka vegna uppbyggingar heftir uppbyggingu.

Samtökin fagna því að hugverkaiðnaði hafi verið tryggður fyrirsjáanleiki í þrjú ár hvað varðar skattahvata vegna rannsókna og þróunar. Hugverkaiðnaður getur orðið verðmætasta útflutningsstoðin við lok þessa áratugar en til þess þarf fyrirsjáanleika og mannauð.

Það er óásættanlegt að 600-1.000 umsóknum um iðnnám hafi verið synjað á hverju ári, undanfarin ár en helstu flöskuhálsar eru aðstaða og fjármagn. Samtök iðnaðarins fagna því að ríki, Hafnarfjarðarbær og Tækniskólinn hafi gert samkomulag um uppbyggingu skólans í Hafnarfirði. Að sama skapi er brýnt að fylgja eftir samningum um uppbyggingu verknámsskóla um land allt þannig að iðnnám fái þann sess sem samfélagið kallar eftir. Mikilvægt er að nemendaígildum fjölgi í takt við fjölgun landsmanna. Hlúa þarf að iðnmenntun og löggildingu iðngreina enda er það forsenda þess að fagþekking viðhaldist. Níu þúsund manns vantar á næstu fimm árum með hæfni á sviði STEAM greina og gervigreindar. Kallað er eftir því að stjórnvöld og háskólar landsins vinni að því fjölga þeim sem útskrifast með menntun á þessum sviðum.