Fréttasafn9. mar. 2023 Almennar fréttir

Ályktun Iðnþings SI

Ályktun Iðnþings SI var samþykkt á aðalfundi sem fram fór í Norðurljósum í Hörpu í morgun:

Ályktun Iðnþings 2023

Stærstu vaxtartækifærin liggja í iðnaði

Öflugur iðnaður er undirstaða góðra lífskjara á Íslandi. Iðnaður stendur að baki stórum hluta verðmætasköpunar í hagkerfinu og útflutningstekna Íslands. Iðnaður skapar 44% útflutningstekna, veltir hátt í 2 þúsund milljörðum og í iðnaði starfa 47 þúsund manns og er þannig umfangsmesta útflutningsgreinin á þessa mælikvarða.

Undanfarin ár hefur ríkt mikil óvissa sem ekki sér fyrir endann á. Eftir heimsfaraldur og innrás Rússa í Úkraínu hafa flestir kostnaðarþættir hækkað og horfur til skamms tíma eru því ekki jákvæðar. Horfur til meðallangs tíma eru hins vegar bjartar. Grunnur aukinnar verðmætasköpunar felst í auknum útflutningi á vörum og þjónustu. Tvær af fjórum stoðum útflutnings íslenska hagkerfisins heyra til iðnaðar, þ.e. hugverkaiðnaður og orkusækinn iðnaður. Horfur eru á enn meiri vexti í útflutningi iðnaðar á næstu árum. Ef rétt er að málum staðið gæti hagvöxtur orðið meiri en opinberar spár gera nú ráð fyrir vegna þessa. Stærstu tækifærin til vaxtar íslenska hagkerfisins til framtíðar liggja í iðnaði.

Samtök iðnaðarins hafa um árabil hvatt stjórnvöld til að efla samkeppnishæfni Íslands. Það er gert með umbótum í menntamálum, hvötum til fjárfestinga í nýsköpun, innviðauppbyggingu, og einföldu og skilvirku regluverki og starfsumhverfi fyrirtækja. Tryggja þarf aukið framboð af grænni orku til fullra orkuskipta og uppbyggingar í iðnaði um land allt, fjölga þarf iðn-, tækni- og verkmenntuðu starfsfólki, greiða götu framkvæmda og setja kraft í innviðafjárfestingu, ekki síst í samgöngum, húsnæði og orkuskiptum.

Orku- og loftslagsmál

· Iðnþing skorar á stjórnvöld að greiða götu framkvæmda í þágu orkuskipta. Rjúfa þarf áralanga kyrrstöðu í orkuöflun til að mæta raforkuþörf vegna orkuskipta á Íslandi og nýrra tækifæra í iðnaði. Skortur á raforku hefur þegar leitt til tapaðra tækifæra í iðnaði og atvinnuuppbyggingu um land allt á síðustu árum. Bæta þarf flutningskerfi raforku í þágu orkuöryggis, bættrar orkunýtingar og aðgengis að raforku um land allt. Við þessu þarf að bregðast hratt.

· Endurskoða þarf aðgerðir í loftslagsmálum og forgangsraða fjármagni ríkisins í hvata og styrki til orkuskipta og tækniinnleiðingar til þess að ná markmiðum stjórnvalda og draga úr losun á Íslandi í grænni iðnbyltingu. Verði það ekki gert með afgerandi hætti mun Ísland verða eftirbátur annarra ríkja í þessum efnum og mun það koma niður á samkeppnishæfni til framtíðar.

Mannauðsmál

· Kallað er eftir auknu samstarfi við stjórnvöld og skólasamfélagið um að hvetja fleiri til náms í iðngreinum og í STEM greinum auk þess að sameinast um aðgerðir til að draga úr brottfalli þannig að fleiri útskrifist úr þessum greinum. Stjórnvöld þurfa samhliða að stórauka fjárframlög til þessara greina og bæta aðgengi um allt land til að tryggja að öll sem vilja hefja nám eigi þess kost.

Nýsköpun

· Iðnþing skorar á stjórnvöld að festa skattahvata vegna rannsókna og þróunar í sessi til frambúðar en það mun skapa aukinn fyrirsjáanleika og stuðla að því að fyrirtæki geri langtímaáætlanir um fjárfestingu í rannsóknum og þróun hér á landi.

· Greiða þarf götu erlendra sérfræðinga til Íslands. Aðgerðum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um einföldun ferla er fagnað en huga þarf að alþjóðlegum skólum og öðru sem einfaldar aðgang fólks að íslensku samfélagi.

Húsnæðismál og innviðir

· Yfirlýsingu innviðaráðherra um uppbyggingu 35 þúsund íbúða á næsta áratug er fagnað sem og samkomulagi við Reykjavíkurborg. Iðnþing skorar á önnur sveitarfélög að gera sambærilega samninga en slíkt leggur grunn að stöðugleika á húsnæðismarkaði en á sama tíma þarf að grípa til markvissra aðgerða til að bæta starfsumhverfi húsbyggjenda.

· Stórauka þarf framlög til rannsókna í mannvirkjagerð til að undirbyggja aukin gæði, draga úr tjóni og stuðla að framþróun til að mæta áskorunum tengdum umhverfismálum og aukinni tæknivæðingu í iðnaði.

· Iðnþing minnir á að uppsöfnuð viðhaldsþörf í innviðum landsins er mjög mikil og skorar á stjórnvöld – ríki og sveitarfélög – að vinna á uppsafnaðri þörf, eftir atvikum með samvinnu við einkamarkaðinn, á næstu árum samhliða nýfjárfestingum.

Starfsumhverfi

· Flækjustig í regluverki er óþarflega mikið og stendur það uppbyggingu í iðnaði fyrir þrifum. Iðnþing skorar á stjórnvöld að setja einföldun regluverks og eftirlits með starfsemi fyrirtækja í forgang og stuðla þannig að auknum stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi.