Fréttasafn



3. júl. 2025 Almennar fréttir Félag hársnyrtimeistara á Norðurlandi Menntun

Ánægja með endurskoðun á rafrænum ferilbókum í hársnyrtiiðn

Fulltrúi SI, Hulda Birna Kjærnested, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, heimsótti nýverið Akureyri þar sem hún fundaði með Sigríði Valdísi Bergvinsdóttur, formanni Félags hársnyrtimeistara á Norðurlandi. Á fundinum var rætt um menntamál í hársnyrtiiðn og kom fram ánægja með hversu margir sækja um námið árlega. Einnig var fjallað um fyrirhugaða endurskoðun á rafrænum ferilbókum í greininni sem hafa þegar markað tímamót í hæfni- og færnimati nema í vinnustaðanámi.

Breytingar á lögum styðja rétt nemenda

Eitt af meginumræðuefnum fundarins voru breytingar á lögum um framhaldsskóla sem nú eru til meðferðar á Alþingi. Breytingarnar miða að því að samræma námsbrautir betur til að auðvelda nemendum að skipta milli skóla og ljúka námi. Samkvæmt nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar leggur meirihluti nefndarinnar áherslu á að breytingarnar feli ekki í sér grundvallarbreytingar á vinnustaðanámi heldur tryggi rétt nemenda til skýringa og úrlausnar ágreinings vegna mats á hæfni þeirra. Tilsjónarmenn með vinnustaðanámi halda áfram að meta hæfni nemenda samkvæmt hæfnikröfum starfsins, og vinnustaðanámi lýkur þegar nemandi hefur náð öllum nauðsynlegum hæfniþáttum. Skólameistarar munu ekki hafa aukin afskipti af störfum iðnmeistara eða viðkomandi fyrirtækja eða stofnana, en geta stutt nemendur ef ágreiningur rís um námsmat. 

Eftirlit með ólöglegri starfsemi

Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi eftirlits með ólöglegri starfsemi í greininni og starfsleyfi sem veitt hafa verið á grundvelli náms erlendis án löggildingar eða meistararéttinda. Á fundinum kom fram að Félag hársnyrtimeistara á Norðurlandi hafi áhyggjur af því að slík starfsemi geti grafið undan faglegum stöðlum og trausti neytenda.

Gróska og bjartsýni

Mikil gróska er í starfi Félags hársnyrtimeistara á Norðurlandi og ríkir þar vilji til að efla greinina enn frekar á komandi árum. Hulda Birna segir að Samtök iðnaðarins leggi áherslu á að hársnyrtiiðnaðurinn byggi á traustum menntagrundvelli, skýrum reglum og fagmennsku, sem séu lykilforsendur heilbrigðs samkeppnisumhverfis og hagsældar í greininni.

Hulda Birna Kjærnested og Sigríður Valdís Bergvinsdóttir.