Angústúra, Edda, Loftpúðinn og Pítsustund fá hönnunarverðlaun
Hönnunarverðlaun Íslands 2023 voru afhent í Grósku í gær. Viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun hlaut Angústúra bókaforlag. Verðlaun hlutu Edda, hús íslenskunnar eftir Hornsteina arkitekta í flokknum Staður, Loftpúðinn eftir Fléttu fyrir Fólk Reykjavík í flokknum Vara og Pítsustund eftir Fléttu og Ýrúrarí í flokknum Verk. Heiðursverðlaun hlaut Sigrún Guðjónsdóttir fyrir framlag sitt til leirlistar og brautryðjendastarf á sviði.
Myndir/Elísabet Blöndal.
Angústúra
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, afhenti Maríu Rán Guðjónsdóttur viðurkenninguna fyrir bestu fjárfestingu í hönnun. Sigurður sagði þegar hann afhenti viðurkenninguna að þessi viðurkenning hefði verið veitt í fyrsta sinn 2015 og væri þetta því í 9. sinn sem hún væri veitt. Viðurkenninguna hljóti fyrirtæki sem hafi hönnun að leiðarljósi í starfsemi sinni til að auka gæði, verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Við valið sé horft til þess að hönnunin sé einstök og framúrskarandi.
Rökstuðningur dómnefndar:
Á skömmum tíma hefur Angústúra sett sterkan svip á bókaútgáfu á Íslandi með fjölbreyttri útgáfu bæði hvað varðar innihald og hönnun. Angústúra gefur út vandaðar íslenskar bókmenntir og þýðingar, þar sem rík áhersla er lögð á hönnun; skrásetningu íslenskrar hönnunarsögu, hönnunarrýni og þýðingar á erlendu efni tengdu hönnun.
Metnaður er lagður í umgjörð verkanna og upplifun lesenda. Þar má nefna bókaflokka í áskrift, þar sem áskrifendum berast bókmenntir, frá öllum heimshornum í íslenskri þýðingu og hönnun.
Bókaforlagið Angústúra var stofnað árið 2016 og hefur frá upphafi átt í samstarfi við leiðandi hönnuði, sem fá fullt frelsi til að túlka innihald á sjónrænan máta í myndlýsingum, kápuhönnun og umbroti. Þannig verða til fallegir prentgripir ætlaðir breiðum hópi lesenda.
Að mati dómnefndar hefur fjárfesting Angústúru sýnt hvernig hönnunin sjálf getur vakið athygli og áhuga lesenda á verkunum. Bókaforlagið hefur þannig sett fordæmi um það hvernig hægt er að standa vel að fjölbreytilegri útgáfu og á hrós skilið fyrir þátt sinn í útgáfu skrásetningar á hönnunarsögu á Íslandi.
Edda, hús íslenskunnar
Edda, hús íslenskunnar eftir Hornsteina arkitekta er sigurvegari í flokknum Staður á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 fyrir einkennandi og áhrifamikil bygging sem sameinar varðveislu og aðgengi almennings að íslenskum menningarverðmætum til framtíðar.Rökstuðningur dómnefndar:
Edda, nýtt hús íslenskunnar, er einkennandi og áhrifamikil bygging. Vandað er til verka af fagmennsku, listfengi og hugað að hverju smáatriði að innan sem utan. Sporöskjulaga formið og einstök áferð hið ytra gefur til kynna dýrmætt innihald. Byggingin stendur í grunnri spegiltjörn og að utan er hún klædd koparhjúp með stílfærðum afritum texta úr handritum, sem í senn skreytir veggina og vekur forvitni um það sem býr innan þeirra. Edda er bjart og opið hús þar sem fallegir inngarðar gefa innri rýmum andrúm og birtu.
Edda skapar alveg nýja umgjörð um íslenskan þjóðararf, byggingin myndar sterkt kennileiti sem fellur vel að umhverfi. Vinnuumhverfi innanhúss er vel útfært, bjart, vistvænt og þjónar fjölþættri starfsemi. Hornsteinum arkitektum hefur tekist að skapa einkennandi og áhrifamikla byggingu sem hæfir viðfangsefninu í formi og haganleik.
Edda er lykilbygging sem geymir handrit Íslendinga, merkustu menningarverðmæti þjóðarinnar. Í húsinu er starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands sameinuð ásamt því að varðveisla og aðgengi almennings að íslenskum menningarverðmætum er tryggð til langrar framtíðar.
Loftpúðinn
Loftpúðinn eftir Fléttu fyrir FÓLK Reykjavík er sigurvegari í flokknum Vara á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 fyrir að vera nútímalegir, einstakit og fallegir auk þess að vera frábært dæmi um nýskapandi hönnun með áherslu á hringrás.
Rökstuðningur dómnefndar
Loftpúðinn frá Stúdíó Fléttu er frábært dæmi um nýskapandi hönnun með megin áherslu á hringrás. Iðnaðarrusli sem áður var hvorki selt né nýtt er breytt í fjölnota púða sem eru 96% endurunnir. Hugað er að öllu ferli endurvinnslu, lítið átt við efniviðinn og auðvelt að skilja hráefnin í sundur þegar líftíma vörunnar lýkur.
Stúdíó Flétta eru vöruhönnuðurnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir sem vinna að hringrásavænni hönnun á einstaklega skapandi hátt.
Loftpúðinn er hannaður í samstarfi við og fyrir FÓLK Reykjavík, gerðir úr notuðum loftpúðum bíla sem að öðrum kosti hefðu verið urðaðir. Púðarnir eru frá Netpörtum, umhverfisvottaðri bílapartasölu. Fyllingarefnið fellur til við dýnugerð og framleiðslu útivistarfatnaðar 66° Norður. Púðarnir eru saumaðir hjá danskri saumastofu þar sem starfar fólk sem á erfitt með að fóta sig í venjulegu starfsumhverfi.
Útlit púðanna er nútímalegt, einstakt og fallegt. Einstakt samstarf Fléttu og FÓLKS, gleður ekki bara augað heldur felst í því hvatning til að hugsa lengra og leita dýpra að möguleikum til endurnýtingar í heimi þar sem kallið eftir hringrásarvænni hönnun verður sífellt háværara.
Pítsustund
Pítsustund eftir Fléttu og Ýrúrarí er sigurvegari í flokknum Verk á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 fyrir að vera frumlegt og gott dæmi um hvernig hönnun getur vakið fólk til umhugsunar með eftirminnilegri upplifun og áhugaverðri félagslegri tilraun.
Rökstuðningur dómnefndar:
Pítsustund, verk Fléttu og Ýrúrarí er frumlegt og gott dæmi um það hvernig hönnun getur vakið fólk til umhugsunar um ábyrgð þess á umhverfinu með skemmtilegu og áhugaverðum hætti.
Pítsustund var fimm daga gjörningur haldinn á HönnunarMars 2023, þar sem hönnuðirnir þæfðu ullarpítsur úr afgöngum frá íslenskum ullariðnaði og seldu viðskiptavinum eins og venjulegar pítsur. Sviðsmynd verksins var byggð í kringum nálaþæfingarvél sem var í hlutverki pítsuofns en hönnuðirnir brugðu sér í hlutverk bakara og afgreiðslufólks. Leikgleðin var allsráðandi í verkinu; grafískri hönnun matseðla, klæðnaði, sviðsetningu og vörunni sjálfri. Sýningarrýmið var með stórum aðgengilegum gluggum sem gerði gestum kleift að fylgjast með ferlinu.
Hönnuðunum, Birtu Rós Brynjólfsdóttur, Hrefnu Sigurðardóttur og Ýr Jóhannsdóttur, tókst að skapa eftirminnilega upplifun og um leið áhugaverða félagslega tilraun, sem vakti mikinn áhuga og ánægju hjá gestum og um leið sýna fram á þá miklu möguleika verðmætasköpunar sem felast í betri nýtingu afgangsafurða og vekja máls á þeirri sóun sem á sér stað í textíliðnaði.
Ullarpítsurnar slógu í gegn, ruku út og langar biðraðir mynduðust. Allt hráefni kláraðist og hönnuðirnir náðu ekki að anna eftirspurn á meðan á þessari fimm daga pítsustund stóð.
Heiðursverðlaunhafi
Heiðursverðlaunahafi Hönnunarverðlauna Íslands 2023 er Sigrún Guðjónsdóttir „Rúna” fyrir framlag sitt til leirlistar og brautryðjendastarf á því sviði hér á landi.
Rökstuðningur dómnefndar:
Lífsstarf Rúnu hverfist um hönnun, myndlist, handverk, kennslu og frumkvöðlastarf ásamt samstarfi við aðra listamenn, fyrirtæki og almenning. Í verkum hennar endurspeglast leikgleði og aðferðir Rúnu, sérkenni og auðþekkjanlegur stíll, hafa vakið forvitni og verið innblástur þeim sem á eftir henni komu í listsköpun og hönnun í leir. Segja má að myndheimur Rúnu hafi haft mótandi áhrif á nokkrar kynslóðir Íslendinga, barna sem fullorðinna, enda mátti finna verk hennar víða á heimilum og stofnunum um og eftir miðbik síðustu aldar. Starf hennar var frumkvöðlastarf á sínum tíma og hún var óhrædd við að prófa sig áfram með leirblöndur og glerunga og öll framleiðsla var að mestu unnin úr íslenskum leir. Henni var mjög umhugað um að verkin stæðu jafnfætis málverkum og annarri myndlist. Verkum Rúnu er gjarnan lýst sem ljóðrænum, þar sem unnið er með dulúð minninga og sagna sem sameinast náttúru og fegurð landsins með mildri litapallettu.
Rúna fæddist árið 1926 og ólst upp í Hafnarfirði. Á táningsaldri sótti hún nám í Myndlista- og handíðaskólanum og þar lauk hún kennaraprófi 18 ára gömul.
Árið 1946 fór hún, ásamt eiginmanni sínum Gesti Þorgrímssyni, til Kaupmannahafnar þar sem hún lagði stund á málaralist og hann höggmyndalist við Listaakademíuna. Þegar heim var komið stofnuðu hjónin Laugarnesleir þar sem Gestur sá um að móta hlutina og Rúna hannaði og málaði form og mynstur.
Upp úr 1970 hóf Rúna að gera tilraunir með postulínsliti og brenndan glerung og þróaði tækni sem fól í sér þrykkingu á litum gegnum skapalón. Í aðdraganda þjóðhátíðar á Þingvöllum árið 1974 voru tillögur hennar í samkeppni að veggdiskum valdar til útfærslu en á þeim má sjá prófíla af andlitum, fiska og fugla. Þau mótíf urðu algeng í verkum Rúnu og jafnframt ein af þekktari minnum íslenskra heimila á tímabilinu.
Rúna átti í farsælu samstarfi við aðila á borð við Bing & Gröndal og Villeroy & Boch við gerð nytjagripa og myndskreyttra flísa.
Víðsvegar á opinberum stöðum má sjá stærri verk Rúnu, svo sem í höfuðstöðvum ÁTVR á Stuðlahálsi í Reykjavík Ártúnsholti og í anddyri Seljakirkju í Breiðholti. Þá er vel þekkt verk Rúnu og Gests fyrir ofan inngang Laugardalshallar, lágmynd af líflegum íþróttagörpum úr grófum hábrenndum steinleir, sem fyrst var hannað fyrir gömlu stúku Laugardalsvallar.
Rúna hefur verið virk í íslensku listalífi frá því um miðja síðustu öld. Eftir hana liggur fjöldi listaverka, bóka, bókaskreytinga sem og ýmis hönnun. Verk eftir Rúnu má finna víða á söfnum, í opinberu rými sem og á fjölda íslenskra heimila, Rúna kenndi við keramikdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1973-1987 og var vinsæll kennari.
„Á meðan maður getur unnið er tilveran skemmtileg“ er haft eftir Rúnu sem segist lifa fyrir því að vinna. Það endurspeglast í verkum Rúnu sem er brautryðjandi á sviði leirlistar hér á landi og það er með mikilli gleði sem dómnefnd veitir henni heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2023.
Dómnefnd
Í dómnefnd sátu Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður dómnefndar, Þorleifur Gunnar Gíslason, Eva María Árnadóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Halldór Eiríksson, Erling Jóhannesson, Margrét Kristín Sigurðardóttir og Tor Inge Hjemdal. Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.
Viðskiptablaðið, 10. nóvember 2023.