Fréttasafn28. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Annmarkar á opnun tilboða með rafrænum aðferðum

Samtök iðnaðarins hafa sent erindi á stóra opinbera verkkaupa vegna opnunar á tilboðum með rafrænum aðferðum þar sem borið hefur á annmörkum. Samtökin lýsa yfir áhyggjum og benda á mikilvægi þess að enginn vafi leiki á því að verðtilboð séu ekki opnuð áður en lausn verkefnis hefur verið metin til stiga, líkt og gert er í svokölluðum tveggja umslaga útboðum.

Í erindinu segir að verkkaupar hafi undanfarið í auknum mæli opnað tilboð með rafrænum aðferðum og borið hafi á því að framkvæmdin, í tengslum við slíkar opnanir, hafi verið annmörkum háð. Þegar tilboð séu lögð fram með rafrænum aðferðum skuli tilkynna bjóðendum eftir lok tilboðsfrests um a) nafn bjóðanda, b) heildartilboðsupphæð og c) hvort tilboð sé sett fram sem frávikstilboð sbr. 1. mgr. 65. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016. Þegar ekki sé um rafrænar aðferðir að ræða skal bjóðendum vera heimilt að vera við opnun tilboða þar sem ofangreind atriði eru lesin upp.

Jafnframt kemur fram í erindinu að félagsmenn samtakanna telji að ekki sé hafið yfir vafa, þegar opnun tilboða fari fram með rafrænum hætti, án þess að bjóðendur séu viðstaddir, að verðtilboð séu ekki opnuð áður en lausn á verkefni sé metin út frá valforsendum og henni gefin einkunn. Þá óska samtökin eftir skýringum á hvernig framangreint sé tryggt. Samtökin beina því til verkkaupa að grípa til aðgerða til að tryggja að þessar reglur séu virtar þrátt fyrir að opnun tilboða fari fram með rafrænum hætti. 

Þá kemur fram í erindinu að það sé óviðunandi að upp komi tæknilegir örðugleikar eða annað sem valdi því að tilboðsgjafar fái ekki upplýsingar um innihald tilboða við opnun. Komi slíkt upp þá sé brýnt að til
séu verkferlar, sem bjóðendur séu upplýstir um, til að bregðast við þeirri stöðu og þess ávallt gætt
að meginreglum útboðsréttar um jafnræði bjóðenda og gagnsæi sé fylgt.

Hér er hægt að nálgast erindi Samtaka iðnaðarins sem sent hefur verið á stóra opinbera verkkaupa.