Fréttasafn7. jan. 2015 Almennar fréttir

Áramót eru tímamót

Áramót marka upphafið að einhverju nýju og óþekktu. Við gerum upp árið sem er liðið og höldum keik inn í framtíðina. Það er gott að staldra við og fara yfir það sem vel tókst, hvað hefði betur mátt fara og setja sér ný markmið. Það gerum við flest hvert og eitt, það gera flest fyrirtæki og stofnanir og það gera einnig Samtök iðnaðarins.

Árið 2014 hefur verið viðburðaríkt. Mikið og gott starf hefur verið unnið af starfsfólki SI íslenskum iðnaði til heilla. Má þar nefna ótal frumvörp sem samtökin hafa gert athugasemdir við. Stærst og fyrirferðarmest var fjárlagafrumvarpið þar sem við fögnum niðurfellingu vörugjalda. Mál sem barist hefur verið fyrir í áratugi. Það er ekki vafi í okkar huga að þessar breytingar verða til batnaðar fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Annað stórt mál sem vert er að nefna er breyting á byggingarreglugerð en frá og með 1. janúar 2015 verða hönnunarstjórar, byggingastjórar og iðnmeistarar að hafa gæðastjórnunarkerfi.  Við trúum því að með breytingunni aukist gæði bygginga á Íslandi. Fagmennska hefur ávallt einkennt íslenska iðnaðarmenn. Til að halda því góða orðspori  verða vinnubrögð að vera öguð og skilvirk. Virk gæðastjórnun í allri starfsemi stuðlar að því.

Í desember kynntu SI skýrslu sem unnin var í samstarfi við Íslenska sjávarklasann og miðaði að því að kortleggja og greina tækifæri sem felast í samstarfi matvælaframleiðenda og fyrirtækja sem veita margvíslega tækniþjónustu. Í skýrslunni kemur fram að áætluð velta matvælatæknifyrirtækja innanlands er á bilinu 70-80 milljarðar og fjöldi starfsmanna í greininni er á bilinu 1.500 til 1.800. Íslensk fyrirtæki í matvælaframleiðslu eru flest smá og þarfnast því oft og tíðum annarra lausna en fyrirtæki sem starfa á stærri markaði. Það hefur leitt af sér fjölda tæknifyrirtækja sem sinna sérhæfðum lausnum matvælafyrirtækjanna. Sum þessara fyrirtækja hafa náð að dafna vel og starfa nú á alþjóðlegum markaði eins og til dæmis Marel. Þessi úttekt sýnir glöggt að með því að tengja ólíkar greinar má ná árangri í samstarfi og úrlausnum verkefna. Möguleikarnir eru endalausir.

Menntamál eru fyrirferðamikil í starfsemi SI. Það er skortur á iðn- verk- og tæknimenntuðu fólki á Íslandi en samt er það svo að við námsval velur unga fólkið okkar hefðbundið bóknám fram yfir verk- eða tæknimenntun. Í haust kynnti menntamálaráðuneytið hugmyndir um breytingar í menntamálum. Meðal þess sem boðað er í nýrri stefnu er stytting náms til stúdentsprófs en ekki er enn ljóst hver tillagan varðandi starfsmenntakerfið verður. Samtök iðnaðarins hafa fylgst grannt með vinnu menntamálaráðuneytisins og hafa lagt fram sínar tillögur þar sem megináhersla er lögð á iðn- og starfsnám.

Á Íslandi innritast hlutfallslega fáir nemendur í starfsnám og margir ljúka ekki námi á tilsettum tíma. Einungis 12% grunnskólanema völdu starfsnám að loknu grunnskólaprófi síðastliðið haust. Það er markmið SI að þetta hlutfall hækki verulega á næstu árum og verði 25% árið 2025. Gera þarf starfsnámið meira aðlaðandi fyrir ungt fólk og auka möguleika þeirra með því að bjóða upp á stúdentspróf samhliða starfsnáminu.

Innan Samtaka iðnaðarins eru um 1300 fyrirtæki af margvíslegum toga. Styrkur samtakanna liggur í þessum fyrirtækjum því að þau hafa tekið ákvörðun um að sameina krafta og vinna sameiginlega að málum er styrkja íslenskan iðnað. Við deilum reynslu og styðjum við bak hvors annars. Íslenskur iðnaður tók á sig mikið högg við efnahagsþrengingarnar 2008. Á árunum sem fóru í hönd tók atvinnulífið á sig margvíslegar byrðar sem voru íþyngjandi fyrir fyrirtækin þannig að rekstur var með þeim hætti að hvorki var möguleiki til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar, ráða fólk né hækka laun. Á síðustu misserum höfum við séð mikil batamerki. Verðbólga er í sögulegu lágmarki, vextir hafa lækkað, vöruskipti við útlönd eru jákvæð og atvinnuleysi hefur minnkað. Byggingageirinn sem varð sérstaklega illa úti er að taka við sér og útlit fyrir að skortur verði á iðnaðarmönnum. Góðar horfur eru á að framkvæmdir hefjist á nýju ári við byggingu kísilmálmverksmiðja á Bakka og í Helguvík og sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Ef af því verður veitir það fjölda iðnaðarmanna atvinnu og skapar nokkur hundruð varanleg störf til framtíðar.

Á síðustu árum hefur íslenska þjóðin gengið í gegnum mikla erfiðleika. Margir hafa misst fyrirtæki sín og heimili og mörg þúsund manns hafa frekar séð framtíð sína annars staðar en á Íslandi. Nú eru teikn á lofti að mestu erfiðleikarnir séu að baki. Við þær aðstæður er mikilvægt að vita hvert skuli stefna. Við viljum búa í réttlátu og frjálsu samfélagi þar sem atorka hvers manns fær notið sín. Við viljum eiga framúrskarandi mennta- og heilbrigðiskerfi og við viljum að hvert og eitt okkar geti lifað hér í sátt og samlyndi við menn og náttúru. Við megum ekki gefast upp þó á móti hafi blásið heldur halda ótrauð áfram. Trúa á mátt hvers annars og sýna samstöðu. Þannig náum við árangri. Þannig byggjum við gott samfélag.

Gleðilegt ár!

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI

Birt í Morgunblaðinu 7. janúar 2015