Fréttasafn



  • Hringtorg Reykjanesbraut/Arnarnesvegur

9. maí 2016 Mannvirki Starfsumhverfi

Árangursríkt samstarf um samgöngur

Það blasir við öllum þeim sem vilja vita að samgöngur víða um landið eru komnar að fótum fram. Viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi og staðan því orðin verulega slæm á mörgum stöðum. Það þarf ekki annað en að keyra helstu vegi landsins til að verða þess áþreifanlega var. Samtök iðnaðarins hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna skorts á viðhaldi í samgöngukerfum landsmanna enda sýna útreikningar að hátt í 500 milljarða krónur vantar í innviðafjárfestingar síðustu 7 ár. Þar af eru 60 milljarðar króna sem vantar í vegakerfið eitt og sér. Vegafjárfestingar hins opinbera hafa farið minnkandi sem hlutfall af landsframleiðslu og farið undir 1% síðustu ár en voru að jafnaði 2%.  

Það skiptir verulegu máli fyrir iðnaðinn í landinu að aðföng komist klakklaust á milli landssvæða auk þess sem fólksflutningar um vegi landsins hafa stóraukist. Með gríðarlegri aukningu ferðamanna sem margir hverjir vilja komast í snertingu við náttúru landsins fylgir tilheyrandi akstur á milli staða hvort heldur er í einkabílum eða hópferðabílum. Það dregur óhjákvæmilega úr umferðaröryggi þegar viðhaldi er ekki sinnt og ný mannvirki eru ekki reist í takt við þarfir nútímans.

Þar sem þörfin fyrir úrbætur er mikil og brýn ætti að skoða með opnum hug samstarf ríkis og einkareksturs um fjármögnun og uppbyggingu samgöngumannvirkja og jafnvel annarra innviða. Slíkar innviðafjárfestingar geta orðið til góðs líkt og dæmin sanna. Samvinna ríkis og einkaaðila hefur skilað  góðum árangri í Noregi þar sem samstarf um vegaframkvæmdir hefur leitt til aukinnar skilvirkni, hraðari uppbyggingar og meiri gæða. Það hefur sýnt sig að fjárfestingar í innviðum eykur samkeppnishæfni og styður við aukinn hagvöxt.

Við getum lært af góðri reynslu annarra þjóða í þessum efnum þar sem slíkt samstarf ríkis og einkarekstur er talið eðlilegt og heilbrigt. En við getum líka litið okkur nær og horft til framkvæmda Hvalfjarðarganganna sem tókust vel. Málið er aðkallandi enda öryggi landsmanna og ferðamanna í húfi. Samtök iðnaðarins hvetja því til þess að þeir sem koma að þessum málaflokki sýni víðsýni og þor við að kanna möguleg úrræði. Það má engan tíma missa!

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

Morgunblaðið, 7. maí 2016