Fréttasafn



4. maí 2015 Iðnaður og hugverk

Ársfundur Samáls – Stoð í áli

Á ársfundi Samáls var fjallað var um stöðu og framtíð áliðnaðarins með áherslu á hringrásina frá framleiðslu til fjölbreyttrar notkunar og endurvinnslu. Samhliða var sýning á stoðtækjum Össurar þar sem ál gegnir mikilvægu hlutverki.

Ragnar Guðmundsson, formaður Samáls sagði í ávarpi styrkleika íslensks samfélags til auk­innar atvinnu­sókn­ar og upp­bygg­ing­ar einkum liggja á þrem­ur sviðum; sjáv­ar­út­vegi, ferðamennsku og grænum orkuiðnaði. „Þetta eru meg­in­stoðirn­ir og upp­bygg­ing þeirra get­ur og á að fara sam­an. Þetta eru styrk­ar stoðir sem framþróun, ný­sköp­un og sprot­astarf bygg­ir á. Grunn­for­send­an er alltaf öfl­ug­ir grunn­atvinnu­veg­ir.“

Benti hann á að upp­bygg­ing raf­orku­fram­leiðslu á Íslandi hefði skapað verðmæti upp á hundruð milljarða. Þessi verðmæti ætti ís­lenska þjóðin. Mik­ill meiri­hluti orku Landsvirkjun­ar væri keypt af álfyr­ir­tækj­um og sam­starfið hafi verið gott og far­sælt í fimm ára­tugi. Þeir sam­ing­ar sem gerðir hefðu verið væru þjóðinni hag­stæðir, skiluðu gríðarlega góðri af­komu og þúsund­um traustra og vel launaðra starfa.

Tækifæri til framfara

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sagði áliðnaðinn eina þeirra meg­in­stoða sem efnahagslífið þyrfti við. Áður hafi sjáv­ar­út­veg­ur­inn nær einn staðið und­ir af­komu þjóðar­inn­ar en nú búum við við grósku­mik­inn orkuiðnað, ferðaþjón­ust­an sé í örum vexti og fjöl­breytni at­vinnu­starf­sem­inn­ar fari vaxandi á fleiri sviðum. Sagði hann ál- og orkuiðnaðinn í land­inu hafa á tæpri hálfri öld treyst grundvöll ís­lensks efna­hags­lífs svo um munaði, gert verðmæta­sköp­un­ina fjöl­breytt­ari, gert sveifl­ur í hag­kerf­inu viðráðan­legri og opnað á fleiri tæki­færi til fram­fara á sviði tækni, vís­inda og ný­sköp­un­ar al­mennt.

Stoð í áli

Á fundinum ræddu vöruhönnuðirnir María G. Sveinbjörnsdóttir og Bjarni Andrésson notkun áls í stoðtækjum Össurar, en þar gegnir álið veigamiklu hlutverki vegna léttleika síns og styrkleika. Össur rekur eitt fullkomnasta renniverkstæði á Norðurlöndum og notar um 80 tonn af áli í framleiðsluna en það svarar til um 13,5 kílómetra af stöngum. Þar hafa risastór tæki verið smíðuð utan um framleiðslu á einum bolta eða íhlutum úr áli – nákvæmnin slík að engu má skeika. Enda hafa stoðfæturnir verið notaðir við krefjandi aðstæður, svo sem við að klífa Kilimanjaro, göngu á Suðurskautinu og brimbrettaiðkun á Havaí.

Íslenskt ál dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda

Þröstur Guðmundsson, PhD og framkvæmdastjóri álsviðs HRV kynnti útreikninga sem sýndu að heildarlosun frá íslenskum álverum væri sexfalt minni en sambærilegra álvera sem reist hefðu verið í Mið-Austurlöndum og knúin væru af gasorku. Þá væri hún tífalt minni á Íslandi en frá álverum sem knúin væru með kolaorku í Kína.

Þröstur benti á að yfir 50% af öllu áli sem framleitt væri á Íslandi færi í bílaframleiðslu í Evrópu. Þar sem ál væri léttur málmur, þá drægi það mikið úr orkuþörf bílanna og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Sparnaðurinn væri tvöfalt meiri en sem næmi losuninni við frumframleiðslu álsins hér á landi. Ef tekið væri með í myndina að ál má endurvinna nær endalaust og að ál sem færi í samgöngutæki væri nýtt aftur og aftur, þá mætti reikna með að sparnaðurinn í losun væri sextánfaldur á við losunina sem yrði við frumframleiðslu álsins hér á landi.

  Vöruþróun og rannsóknir í flugvélaframleiðslu

Daniel Goodman markaðsstjóri Alcoa í flugsamgöngum flutti líflegt erindi, sem bar yfirskriftina „Aerospace Aluminium: The Empire Strikes Back“ þar sem hann ræddi framtíð áls í flugi. Fyrir fáeinum árum kynnti flugvélaframleiðandinn Boeing þotuna Dreamliner til sögunnar, en einungis 20% hennar eru úr áli og var hún engu að síður sögð 20% léttari en fyrirrennarar hennar. Töldu sumir að það markaði endalok áls í farþegaflugi.

Þær spár hafa ekki gengið eftir og sagði Goodman ástæðuna tvíþætta, annarsvegar hefðu önnur efni ekki staðið undir væntingum og hinsvegar hefðu álframleiðendur brugðist við með vöruþróun, rannsóknum og nýsköpun, sem ylli því að þotur sem væru að uppistöðu til úr áli væru enn þær léttustu á markaðnum, auk þess sem umsjónar- og rekstrarkostnaður væri lægstur á þeim vélum. Ál yrði því að minnsta kosti um fyrirsjáanlega framtíð sá efniviður sem flugvélaframleiðendur byggðu á.