Fréttasafn1. feb. 2016 Orka og umhverfi

Áskoranir í loftslagsmálum – Atvinnulífið með lausnirnar

Mánudaginn 27. janúar stóðu Samtök iðnaðarins fyrir opnum morgunverðarfundi undir yfirskriftinni Áskoranir í loftslagsmálum – Atvinnulífið með lausnirnar þar sem sex sérfræðingar höfðu framsögu.

Umhverfismál eru ekki aðeins hugsjónir heldur einfaldlega góður business
Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs Samtaka iðnaðarins, fjallaði um tækifæri til atvinnusköpunar út frá þeim áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir hvað varðar loftslagsmál. Bryndís sagði frá því að í lögum um loftslagsmál er ákvæði um stofnun loftslagssjóð en sjóðurinn hefur ekki verið settur á laggirnar. Bryndís sagði að nýta mætti sjóðinn í það mikilvæga verkefni að styrkja Græna tækni sem atvinnugrein og slá þannig tvær flugur í einu höggi, styrkja atvinnuuppbyggingu og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Á Íslandi er losun lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum hlutfallslega mest vegna iðnaðar og efnanotkunar en í Evrópu allri vegur losun vegna húshitunar þyngst. Samstarf fyrirtækja  CleanTech Iceland er samstarfsvettvangur fyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins sem starfa í grænni tækni með það að markmiði að auka vöxt fyrirtækja sem vinna að umhverfisvænum tæknilausnum.  Á þeim vettvangi hafa verið kortlögð þau svið sem unnið er að á Íslandi, en á þeim sviðum hafa skapast mikil þekkingarverðmæti á undanförnum árum.

Þörf fyrir breyttar áherslur í forgangsröðun fjárfestinga vegna loftslagsbreytinga
KC Tran, framkvæmdastjóri Carbon Recycing International, útskýrði hvaða lærdóm mætti draga af COP 21, síðustu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem fram fór í París í desember 2015. Undir lok ráðstefnunar samþykktu öll 195 þátttökuríki svonefndan Parísarsáttmála og lögð var áhersla á þá aðferðafræði sem beita skyldi til að þátttakendur gætu sammælst um sáttmálann. KC nefndi einnig að einungis séu tvær leiðir færar til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda en þær eru aukin endurvinnsla og aukin nýting. Einnig tók hann fram að ekki mætti vanmeta mikilvægi mælinga og gagnasöfnunar því án þeirra sé ómögulegt að fylgjast með áhrifum stefnubreytinga.

Fjárfesting í rannsóknum og þróun á grænni tækni getur haldist í hendur við olíuverð
– „gulrót nauðsynleg“ til  að viðhalda fjárfestingu á tímum lágs olíuverðs
Högni Bergþórsson, tæknilegur framkvæmdastjóri hjá Trefjum, ræddi nýjungar á smábátaiðnaði á Íslandi. Á árunum 2003 til 2008 hækkaði heimsmarkaðsverð olíu meira en þrefalt, sem olli því að framþróun smíðaefna urðu bæði léttari og sterkari til þess að smíða mætti sparneytnari báta. Lágt olíuverð dregur hins vegar úr notkun vistvænni orkugjafa og þar með þróun á því sviði, en þetta virðist vera raunin um þessar mundir. Trefjar hafa unnið að þróun vistvæns fiskibáts sem gengur fyrir raforku. Helsti kostur við rafknúinn bát er sá að kostnaður raforku er aðeins um 5% af þeim kostnaði sem eldsneyti myndi kosta á sambærilegan bát með díselvél. Aðrir kostir eru minni losun gróðurhúsalofttegunda og þar af leiðandi vistvænni afurð. Green Marine Technology er markaðsverkefni tíu íslenskra tæknifyrirtækja innan sjávarklasans sem bjóða umhverfisvænar og orkusparandi tæknilausnir fyrir sjávarútveg. Til þess að komast yfir hindranir í þróun og markaðssetningu umhverfisvænnar tækni á tímum lágs olíuverðs þarf aðra hvata fyrir nýtingu hennar, svo sem hærra verð á mengun, lægra raforkuverð og „grænar veiðiheimildir“.

Minni sóun og aukin nýting með snjöllum lausnum í umhverfismálum
Þorsteinn Svanur Jónsson kynnti lausnir fyrirtækisins ARK Technology í umhverfismálum skipaútgerða. Í skipum eru nú til dags upplýsingakerfi sem viðstöðulaust safna gögnum um virkni skipsins í ýmsum tilgangi, en misjafnt er hversu vel þær upplýsingar eru nýttar. Skráning, miðlun og geymsla upplýsinga er oft óskilvirk en með hjálp upplýsingatækni má  auka skilvirkni í þágu umhverfsins fyrir rekstur útgerða. Upplýsingum er safnað úr sjálfvirkum innri kerfum skipa, ytri upplýsingaveitum (s.s. veðurupplýsingar og stjórnstöð siglinga) og úr rafrænum skráningarkerfum. Ávinningur þess er þríþættur. Í fyrsta lagi eru mælingar á afköstum skipsins forsenda fyrir bættum rekstri út frá umhverfissjónarmiðum, í öðru lagi krefst umhverfislöggjöf skráningar og miðlunar upplýsinga, en með hjálp upplýsingatækni eru ferli einfölduð og í þriðja lagi felst markaðsforskot í aukinni umhverfisvitund.

Vistvæn hönnun húsa eykur umhverfisgæði 
Nanna Karólína Pétursdóttir, byggingartæknifræðingur hjá Verkís, ræddi um vistvænar byggingar, þar sem notagildi er hámarkað og neikvæð umhverfisáhrif lágmörkuð. Vistvænum byggingum er skipt í þrjá flokka eftir orkunýtni. Passívhús eru verulega orkunýtin, núllhús eru orkuhlutlaus og plúshús eru hús þar sem orkunotkun er minni en sú orka sem þar er framleidd. Á Íslandi er 90% húsa tengd hitaveitu og hér á landi eru tækifæri til að minnka orkuþörf og nýta fleiri orkugjafa, líkt og sólarorku og vindorku. Verkís hefur notast við vistvottunarkerfið BREEAM til þess að greina og draga úr umhverfisáhrifum bygginga, allt frá hönnun þeirra til rekstrar. Aðferðin byggir á einkunnagjöf í níu flokkum sem hafa mismikið vægi, en veigmestu flokkarnir eru orkunýting, heilsa og vellíðan, byggingarefni og umhverfisstjórnun.

Aukin umhverfisvitund
Helgi Lárusson, framkvæmdarstjóri endurvinnslunnar, talaði um aukna umhverfisvitund landsmanna og þau tímamót sem urðu þegar Umhverfisráðuneytið var stofnað 1990. Fyrirtæki telja í vaxandi mæli  það bæta ímynd sína að vera framarlega í umhverfismálum og sækja í vottanir samkvæmt ISO 14001 staðli og Svansvottun. Að sögn Helga þá stendur íslensk stóriðja sig vel í umhverfismálum þar sem um og yfir 90% útkasts er fangað. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa einnig sýnt viðleitni í umhverfismálum, með bættri nýtingu hráefnis, endurvinnslu stáls úr skipsskrokkum, endurvinnslu á netum og rafvæðingu fiskbræðslna. Í landbúnaði hafa verið framfarir með endurheimt votlendis auk framleiðslu og nýtingu lífdísels, moltu og lífræns áburðar. Ýmis ný fyrirtæki hafa orðið til á undanförnum árum sem þjóni umhverfinu með ýmsum hætti, svo sem endurvinnslu á heyrúlluplasti eða timbri, framleiði lífeldsneyti eða moltu, eða selji notuð föt.