Ástæða til að hafa áhyggjur af horfum í efnahagslífinu
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í Morgunblaðinu ástæðu til þess að hafa áhyggjur af niðurstöðum könnunar Gallup þar sem fyrirtækjastjórnendur eru spurðir um stöðu og horfur í efnahagslífinu. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Ingólfur bendi á að mun færri telja nú að efnahagsástand muni batna næstu sex mánuði en í síðustu tveim könnunum og að sama skapi telji nú fleiri að aðstæður verði verri. Það séu því talsverð umskipti miðað síðustu kannanir.
Stöðnun í iðnaði hefur mikil áhrif á hagkerfið
Ingólfur segir í Morgunblaðinu að einnig megi greina stöðnun í fjölda starfsmanna í iðnaðargreinum eftir talsvert mikinn vöxt frá miðju ári 2021. Svipaða þróun megi sjá í veltutölum greinarinnar. Hann segir að stöðnun í iðnaði hafi mikil áhrif á hagkerfið þar sem iðnaður sé umfangsmikill. Iðnaðurinn skapi um fjórðung landsframleiðslunnar og innan hans starfi um einn af hverjum fjórum á íslenskum vinnumarkaði.
Mikil verðbólga og enginn hagvöxtur gæti gert viðsnúning úr stöðnun í vöxt erfiðan
Þá segir Ingólfur í Morgunblaðinu að það sé áhyggjuefni að hér sé mikil verðbólga og lítill sem enginn hagvöxtur. Seðlabankinn berjist við verðbólgu með háum vöxtum sem dragi úr hagvexti. Þessi barátta gæti dregið hagkerfið niður og gert viðsnúning úr stöðnun í vöxt erfiðan. Hann segir þetta kalla á aðgerðir af hálfu stjórnvalda. „Mikilvægt er að stjórnvöld skapi skilyrði vaxtar fyrir iðnaðinn og atvinnulífið allt til þess að bæta efnahagsleg lífskjör hér á landi.“ Að hans mati þarf að draga úr takmörkunum á framboðshlið hagkerfisins sem dragi úr framleiðni og veiki samkeppnisstöðu efnahagslífsins.
Morgunblaðið, 24. júní 2025.