Fréttasafn



13. feb. 2025 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Ástand innviða á Íslandi hefur versnað

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Bítinu á Bylgjunni um nýja skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um ástand og horfur innviða á Íslandi. Sigurður segir að staðan á innviðunum hafi versnað við hverja útgáfu skýrslunnar, staðan hafi verið slæm 2017, ennþá verri 2021 og enn verri núna. Hann segir að innviðaskuldin, uppsöfnuð viðhaldsskuld, sem þurfi að fjárfesta til að koma innviðum sem er fjallað um skýrslunni í gott lag séu 680 milljarðar. „Það eru engar smá tölur.“ Hann segir að þegar skýrslan 2021 hafi komið út hafi innviðaskuldin verið 420 milljarðar í heildina og af þeim tæpu 700 milljörðum sem mælist nú séu 300 bara í vegakerfinu.

Áhugi og vilji að gera betur en fjármunir fylgja ekki

Sigurður segir að það sé mikill áhugi og vilji á að gera betur en það fylgi ekki fjármunir. „Viljinn er sannarlega til staðar en þegar kemur að innviðum þá virðist vera svo einfalt að fresta framkvæmdum, fresta endurbótum og viðhaldi og nota peningana þá í önnur verkefni hjá ríkinu. Það er áhugavert þetta eru margir þættir innviða.“ Hann segir að flestir innviðanna séu reknir í einhverskonar félögum, til dæmis raforkufyrirtækin, hafnarsamlögin og flugvellirnir. „Þarna er þá innheimt einhverskonar gjöld, þeir eru notaðir að halda þessum innviðum í horfinu og þar koma einhverjir einkaaðilar að með lánveitingum og svo framvegis. Þarna er ekki nema 1/3 af innviðaskuldinni. Síðan erum við með vegakerfið og fasteignir, þeir þættir innviða eru beint á A-hluta ríkisins, beint af fjárlögum, þar er langmesta innviðaskuldin, 2/3 af innviðaskuldinni er þar.“ Hann segir að við séum að borga kílómetragjöld og olíugjöld en þau renni ekki í málaflokkinn. Þá kemur fram hjá Sigurði að innviðaskuldin sé mögulega á óhagstæðustu kjörunum fyrir hið opinbera. 

Verður kostnaðarsamara að koma innviðunum í samt horf

Í viðtalinu kemur fram hjá Sigurði að ástandið versni og versni. „Það verður alltaf kostnaðarsamar að koma þessu í samt horf.“

Sigurður segir að uppsöfnuð innviðaskuld fasteigna ríkis og sveitarfélaga sé um 150 milljarðar og þar af tæplega 100 hjá sveitarfélögunum. „Það kemur ekki á óvart. Við höfum öll heyrt fréttir af því undanfarin ár að skólum, leikskólum og allskonar byggingum hefur þurft að loka til að ráðast í endurbætur, bara bráðaendurbætur vegna allskonar hluta vegna þess að viðhaldi hefur einfaldlega ekki verið sinnt almennilega í gegnum tíðina. Auðvitað er þetta kostnaðarsamt, það þarf að finna annað húsnæði og raskar lífi fjölda fólks.“

Ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá þinginu

Þá kemur fram hjá Sigurði að raforkuframleiðslu sé í ágætismálum nema það sé bara skortur á raforku og það þurfi að virkja meira. Sama sé með flutningskerfið sem sé í ágætismálum, það sé Landsnet sem sé að reka það og sé með mikla uppbyggingaráætlun. „Fasteignirnar ekki í nógu góðu horfi. Við sjáum eins og með Keflavíkurflugvöll þar eru horfur góðar og þar er útlitið gott. En aðrir flugvellir, þar er staðan slæm, þeir fá einkunnina 2,5 og horfurnar eru neikvæðar. Við sjáum að fá síðustu skýrslu hefur viðhaldskuldin aukist um 10 milljarða.“ Hann segir að fjármunir sem séu innheimtir renni í uppbyggingu.

Þá kemur fram hjá Sigurði að horfa þurfi yfir lengra tímabil og stærsti hluti þessarar innviðaskuldar eigi rætur að rekja til áranna 2010 til 2015, eftir hrun. „Þá var framkvæmdum slegið á frest og fjármunirnir settir í annað og svo vorum við alltof lengi að fara í gang.“

Þegar Sigurður er spurður hver beri ábyrgð segir hann að það liggi hjá þinginu fyrst og fremst. „Það er ekki nóg að tala um þetta, það þarf að sýna það í verki þegar fjármálaáætlun kemur núna í mars/apríl og þegar fjárlögin verða kynnt í september.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Vísir, 13. febrúar 2025.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.