Fréttasafn



6. ágú. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Ástand vegakerfisins versnar með tímanum

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Bítinu á Bylgjunni um samgöngumál sem segir það slæmt að samgönguáætlun hafi ekki verið samþykkt því það sé útlit fyrir að engar stórframkvæmdir fari af stað í ár. „Á Útboðsþingi sem Samtök iðnaðarins hafa haldið ásamt félagsmönnum í janúar á hverju ári þar sem stórir verkkaupar koma og kynna sín áform þá kynnti Vegagerðin áform um útboð upp á 32 milljarða. Það er útlit fyrir að engin stórframkvæmd á þeirra vegum fari af stað á þessu ári.“

Sigurður segir að það þýði að með tímanum þá bara versni vegirnir. „Þannig að ástandið vegakerfisins versnar þá bara frekar en hitt því miður. Við höfum öll heyrt fréttir af því í sumar hvernig ástand veganna er þegar fólk er á ferðinni og það er ekki sérstaklega glæsilegt. Það er búið að fletta til dæmis klæðningu af vegaköflum af því hún er ónýt þannig að það er verið að breyta vegunum aftur í malarvegi. Við höfum heyrt af blæðingum frá klæðningum sem er stórhættulegt.“

Sigurður segir að einhverra hluta vegna hafi þetta ekki gengið nógu vel síðustu árin. „Eitt dæmi um það er að núna til dæmis eru engin jarðgöng í vinnslu. Það voru áform um það að á hverjum tímapunkti væru að minnsta kosti ein jarðgöng í byggingu. Það er ekki núna.“

Snýst um forgangsröðun 

Sigurður segir að þetta snúist um forgangsröðun. „Við sjáum það til dæmis varðandi viðhald á vegakerfinu og þetta eru tölur frá Vegagerðinni. Þeirra mat er að það þurfi 18 milljarða af fjármunum til að framkvæma á hverju ári til þess að halda í horfinu. Fjárveitingin er 13 og það vantar 5.“ Hann segir að þetta þýði að það er ekki gert það sem þarf. „Ástand veganna versnar með tímanum.“ Hann segir að gjaldheimtan dugi fyrir framkvæmdum en peningarnar séu bara notaðir í annað. Þeir fari ekki í það sem þeir eigi að fara í. Hann segir að það sé verið að innheimta há gjöld en fjármunirnir fari ekki þangað sem þeir eigi að fara. „Við höfum átt samtöl við bæði ráðherra og þingmenn og það er mikill skilningur á þessu en þegar á reynir þá bara kemur fjármagnið ekki. Það er ekki nægum fjármunum varið í þennan málaflokk. Ég held að hluta til sé það vegna þess að það er auðvelt að spara fjármuni þarna til skamms tíma. En kostnaðurinn vex og vex til lengri tíma litið.“ 

Enn að súpa seyðið af niðurskurði 2009-13

Sigurður segir að það hafi verið þannig í tíð vinstri stjórnarinnar 2009-13 að þá var mjög sparað og skorið niður í þessum málaflokki og auðvitað mörgum öðrum í ljósi aðstæðna. „Við erum ennþá að súpa seyðið af því.“

Þá segir Sigurður að það sé ekki verið að taka tillit til aukinnar notkunar ferðamanna á vegum. „Ferðaþjónustan er eitt en svo erum við með flutninga á vegum eins og sjávarútveg og fleira. Innviðir, samgönguinnviðir og aðrir innviðir, leggja grunninn að verðmætasköpun. ef að þeir eru ekki í lagi þá hefur það áhrif á velsæld.“

Í viðtalinu kemur fram að vegakerfið sé forsenda þess að halda úti blómlegri byggð um allt land. 

Innviðaskuldin er himinhá

Sigurður segir jafnframt í viðtalinu: „Ég held það verði áhugavert að heyra umræðuna fyrir næstu kosningar sem verða væntanlega á næsta ári um þennan málaflokk. Ég held að það sé komið að ákveðnum vatnaskilum þarna. Fólk hefur vitað af þessari stöðu í mörg ár. 2017 og 21 gáfum við og Félag ráðgjafarverkfræðinga út skýrslu um ástand innviða á Íslandi og framtíðarhorfur. Við erum að fara að gefa út aðra svona skýrslu í byrjun næsta árs.“ Hann segir að niðurstaðan sé sú sama. „Innviðaskuldin er himinhá. Í heildina litið þegar við tökum alla þætti inní sem snúa að hinu opinbera þá eru þetta 420 milljarðar, þar af eru tæplega 200 í vegakerfinu.“

Þegar þáttastjórandi spyr Sigurður hvort þetta sé allt saman trassaskapur svarar Sigurður: „Að miklu leyti já. Trassaskapur en að sumu leyti snýr þetta að löggjöf og kröfum sem er verið að setja þar sem er ekki verið að uppfylla. Fráveitur til dæmis. Þar er verið að innleiða Evrópu-löggjöf sem setur mjög miklar kröfur á sveitarfélögin.“

Dýrt að bæta úr þegar í óefni er komið

Þá kemur fram í viðtalinu við Sigurð að um 70 skólabyggingar, leikskólar og skólabyggingar í Reykjavík, voru lokaðar vegna endurbóta. „Væntanlega er það vegna þess að viðhaldi hafði ekki verið sinnt í fleiri fleiri ár.“ Hann segir það vera mjög dýrt að bæta úr þegar komið sé í óefni. 

Þá segir Sigurður að það þurfi að taka ríkisreksturinn alveg í gegn. „Ég held að það verði viðfangsefni næstu ríkisstjórnar hver sem hún verður. Forgangsröðun fjármuna er eitt en síðan er líka bara reksturinn.“

Gæti orðið þungur vetur framundan

Í viðtalinu kemur fram að vaxtagreiðslur ríkissjóðs séu hátt í 200 milljarðar. „Vextir á Íslandi eru mjög háir og þó að skuldahlutfallið hjá ríkissjóði sé lágt í alþjóðlegum samanburði og ríkissjóður standi þannig vel að þá eru vextirnir svo háir að það vinnur á móti.“ Þá segir Sigurður það vera áhugavert að nú sé að verða breyting á peningastefnunefndinni. „Þetta er fimm manna nefnd sem ákveður vextina og núna á stuttum tíma eru tveir nefndarmenn búnir að fara út og tveir nýir að koma inn.“

Sigurður: „Ég hef áhyggjur af vetrinum ef ég á að segja eins og er af ýmsum sökum.“ Hann segir að jafnvel geti orðið samdráttur á þessu ári. „Þetta er ekki góð staða.“ Hann telur að vanskil gætu aukist. „Ég held að veturinn gæti orðið soldið þungur.“ 

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Bylgjan, 24. júlí 2024.