Fréttasafn



11. des. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Ástandsskýrslur nýrra fasteigna óþarfar

Samtök iðnaðarins gera alvarlegar athugasemdir við að gerð sé krafa um ástandsskýrslur vegna nýrra fasteigna í umsögn um tillögu til þingsályktunar um ástandsskýrslur fasteigna sem send hefur verið efnahags- og viðskiptanefnd. Samtökin telja að vægari úrræði dugi til að ná sama markmiði. Miklu frekar ætti að einblína á að koma því regluverki sem nú er til staðar í þá virkni sem því var ætlað. Þannig væri t.d. nær að nýta og bæta öryggis- og lokaúttektir sem kveðið er á um í lögum um mannvirki og byggingarreglugerð til að ganga úr skugga um að fasteignin sé í samræmi við gerðar kröfur.

Kannað verði hvað gert er á hinum Norðurlöndunum

Í umsögninni segir einnig að mikilvægt sé, áður en hafist sé handa við slíka endurskoðun á lögum, að kanna hvernig sambærilegum málum sé háttað á hinum Norðurlöndunum og hvernig tekist hefur til, megi þarf t.d. nefna Danmörk. Sé ætlunin að taka upp sambærilegar reglur þá sé lykilatriði að undirbúningur sé vandaður svo áhrifin séu jákvæð, bæði fyrir neytendur og byggingarmarkaðinn. Í því samhengi þurfi jafnframt að huga að aðlögunartíma og tryggja að hlutaðeigandi hagaðilar séu tilbúnir til að bregðast við umræddri lagabreytingu.

Skilgreina hæfnikröfur fyrir fram

Samtökin vilja benda á að mikilvægt sé að staðlað form verði útbúið um það hvað skuli skoða og hvernig, með það fyrir augum að tryggja skýrleika og samræmingu. Í greinargerð með tillögunni komi fram að lagt sé til að ástandsskýrsla komi frá óháðum fagaðila sem hafi víðtæka þekkingu á mannvirkjagerð, að framkvæmd matsins fylgi samræmdum matsaðferðum og að innihald ástandsskýrslna sé samræmt. Samtökin taka undir þetta en benda á mikilvægi þess að skilgreina hæfnikröfur fyrir fram.

Jákvætt að eigendur haldi viðhaldsdagbók fasteigna 

Í umsögninni kemur fram að samtökin taki undir það markmið sem fram komi í tillögunni þar sem kveðið er á um að stuðla eigi að því, án þess þó að gera að beinni lagaskyldu, að eigendur fasteigna haldi viðhaldsdagbók. Samtökin telja að koma eigi fram hvaða fyrirtæki framkvæmdi viðkomandi viðhald, hvaða réttindi aðilar höfðu sem stóðu að verkinu og auk þess hvaða efni var notað til framkvæmdanna. Þetta væri jákvæð breyting til að upplýsa væntanlega kaupendur betur um það viðhald sem framkvæmt hefði verið og eftir atvikum og gæði þess.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.