Fréttasafn



9. feb. 2017 Almennar fréttir Menntun

Átakið #kvennastarf keyrt af stað

Markmiðið með nýju átaki sem nefnist #kvennastarf er að vekja athygli á því að kynferði á ekki að hafa áhrif á námsval eða starfsvettvang þar sem hefðbundin verkaskipting kynjanna er orðin úrelt og á ekki lengur við í nútímasamfélagi. Ekkert starf er kvennastarf heldur geta konur starfað við það sem þeim sýnist og það sama gildir um karlmenn. Iðn- og verkmenntaskólar á Íslandi stefna á að fjölga fagmenntuðu fólki þannig að 20% grunnskólanema velji starfsmenntun árið 2025 og 30% árið 2030. Átakinu fylgir vefsíðan Kvennastarf.is.

Ætlunin með átakinu er að vekja athygli á að konur eru starfandi í ýmsum karllægum starfsgreinum í dag þó að í sumum greinum séu þær örfáar. Ef hins vegar fleiri stelpur sjá tækifæri í starfsmenntun verður auðveldara að fjölga nemendum í iðn- og verkmenntagreinum og fleira fagmenntað fólk verður til fyrir íslenskt atvinnulíf en skortur er í mörgum iðngreinum. Með átakinu eru kvenkyns fyrirmyndir í námi og starfi gerðar sýnilegri ungu kynslóðinni til að sanna að allir geta starfað við það sem þá langar til.
Á vefsíðunni Kvennastarf er hægt að skoða athyglisverða tölfræði þar sem segir meðal annars að árið 1990 hafi fyrsta konan lokið sveinsprófi í pípuplögnum en 1.159 manns hafa tekið prófið frá upphafi, þar af eru 4 konur. 2.258 hafa lokið sveinsprófi í bifvélavirkjun frá upphafi, þar af eru 15 konur. Konur eru í minnihluta þeirra sem læra og vinna við forritun í dag en á tölvubraut Tækniskólans eru 260 við nám þar af 8 stelpur. 2.536 karlmenn hafa útskrifast af lokastigi vélstjórnar og 6 konur hafa útskrifast með sama próf. 452 karlar hafa lokið sveinsprófi í blikksmíði og 7 konur. 543 karlar hafa lokið prófi í rennismíði og 10 konur. Í stálsmíði hafa engar konur útskrifast en 463 karlar. 4.407 karlar hafa útskrifast í vélvirkjun og 22 konur. 51 nemandi er skráður í nám á skipstjórnarbraut, þar af eru 3 konur. 807 flugmenn og flugstjórar eru starfandi og þar af 57 konur. 4.026 hafa lokið sveinsprófi í rafvirkjun, þar af 40 konur. 1.090 manns hafa útskrifast í rafeindavirkjun, þar af 23 konur. 1.406 karlmenn hafa útskrifast með sveinspróf í matreiðslu og 194 konur. 7.236 karlar hafa lokið sveinsprófi í húsasmíði, þar af 39 konur og 652 karlar hafa lokið námi í húsgagnasmíði, þar af 43 konur. 

Það eru Tækniskólinn og Samtök iðnaðarins í samstarfi við alla iðn- og verkmenntaskóla á landinu sem standa að baki herferðinni; Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólinn Ármúla, Fjölbrautaskólinn Breiðholti, Fjölbrautaskóli Norðurlands Vestra, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn Ísafirði, Verk- og tækninám - nema hvað!, Verkmenntaskólinn Akureyri og Verkmenntaskóli Austurlands.