Fréttasafn



5. feb. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Athugasemdir við heimild til að skrásetja nöfn seljenda

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónustu og Samtaka fjármálafyrirtækja sem send var í Samráðsgáttina í gær um frumvarp til laga um úrskurðarnefndir á sviði neytendamála kemur fram að samtökin gera athugasemdir við fyrirhugaða reglugerðarheimild en með frumvarpinu er verið að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB frá 2013 um lausn deilumála neytenda utan dómstóla.

Samtökin gera meðal annars athugasemdir við það að ráðherra geti með reglugerð heimilað kærunefnd að skrásetja nöfn seljenda sem tilkynnt hafa að þeir uni ekki úrskurðum nefndarinnar og að nefndinni sé heimilt að gera skrána aðgengilega almenningi en í lagatexta sé ekki kveðið á um með hvaða hætti sé unnt að fá fyrirtæki afskráð af umræddum lista. 

Í umsögninni segir að þetta geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir seljendur og hættan sé sú að neytendur muni líta á listann sem eins konar lista yfir fyrirtæki sem fara ekki að lögum og afleiðingin gæti orðið sú að þeir kjósi að eiga ekki viðskipti við þau. Þá segir að staðreyndin sé hins vegar sú að eðli máls samkvæmt sé oft ágreiningur um lögfræðilega niðurstöðu kærunefnda og því mikilvægt að aðilum sé tryggður réttur til þess að bera mál sitt undir dómstóla. Eigi þeir ekki að þurfa að sæta því að nöfn þeirra birtist á lista stjórnvalds sem eins konar refsing fyrir það að fara ekki að úrskurðum nefndar, sem þeir eru ósammála.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.