Fréttasafn16. sep. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Atvinnulífið með lausnir í loftslagsmálum

Í mínum huga er tómt mál um það að tala af hendi stjórnmálamanna að þeir geti endalaust komið með fögur loforð og talað um framtíðarsýn því lausnirnar hljóta að liggja í atvinnulífinu þar sem framleiðslan á sér stað. Það þarf að eiga sér stað mjög gott samstarf stjórnvalda allra ríkja og atvinnulífs um hvernig við ætlum að breyta lífsháttum okkar, hvernig við ætlum að breyta framleiðslu okkar og neyslumynstri í lífinu. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í viðtali Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi á Bylgjunni um helgina þar sem rætt var um loftslagsmál. 

Óhjákvæmilegt að gripið verði til aðgerða

Guðrún segir að við verðum að grípa til aðgerða, það sé óhjákæmilegt því loftslagsbreytingar séu farnar að hafa veruleg áhrif á líf okkar og muni halda því áfram. „Það er líka óumdeilt úr heimi vísindanna að allt frá iðnvæðingu hefur iðnaður borið mjög stóra ábyrgð á útblæstri og nýtingu auðlinda jarðar. Ég hef nú stundum sagt það að ég hef í rauninni engar áhyggjur af jörðinni, jörðin mun alltaf lifa en það er aftur á móti spurning hvort við munum lifa með jörðinni. Það er aftur á móti annað mál og getur vel verið að við séum á einhverri vegferð að að útrýma okkur sjálfum, það þætti okkur nú öllum frekar mikið miður.“ Hún segir að öll fyrirtæki og atvinnulífið, heimilin og við sem einstaklingar þurfum að fjárfesta í einhverskonar aðlögun og breytingu á lífstíl. „Ef við gerum það ekki þá verður kostnaðurinn okkar bara miklu meiri heldur en hitt.“

Guðrún segir að við Íslendingar höfum heilmikið fram að færa í loftslagsmálum sem geti verið samkeppnisforskot til lengri tíma litið. „Við erum svo heppin af náttúrunnar hendi að við gátum til dæmis farið í orkuskipti hér fyrir einhverjum áratugum þar sem við hættum að brenna kol til húshitunar og hér er langstærsti hluti heimila landsins hitaður upp með jarðvarma og raforkan okkar er sjálfbær. Þannig að við búum yfir gríðarlegri þekkingu.“

Neytandinn beinir viðskiptum sínum til ábyrgra aðila

Guðrún telur að loftlagsbreytingarnar komi til með að breyta öllu okkar lífi. „Ég er þeirrar gerðar að mér finnst betra að vera skipstjóri á minni skútu heldur en farþegi. Við atvinnurekendur eigum að vera fremst í flokki að tala fyrir því að við viljum gera vel, við viljum skilja við betur heldur en við tókum við og ef við gerum það ekki, ef við ætlum að vera skussar í okkar daglega lífi eða okkar starfsemi þá munu neytendur í fyllingu tímans hafna okkur. Þau fyrirtæki sem ekki ætla að taka þessa hugsun um borð og starfa eftir henni þau munu enda sem risaeðlur, verða eftir og deyja út vegna þess að neytandinn mun beina viðskiptum sínum til ábyrgra aðila.“ 

Umhverfismálin hvíla á fyrirtækjum í meira mæli

Í viðtalinu segir Guðrún frá því að hún hafi verið formaður Samtaka iðnaðarins í fimm ár og árlega séu gerðar kannanir meðal félagsmanna þar sem leitað sé eftir því hvað brenni helst á þeim á hverjum tíma. „Það getur nú verið margt, peningamálin og vaxtamálin, en það sem hefur skorað hæst öll mín ár eru menntamálin. Að iðnaðurinn þarf fleiri og fleiri iðnmenntaða til starfa heldur en við erum að mennta og það er áhyggjuefni en svo hefur það gerst núna á síðustu 2-3 árum að umhverfismálin eru að stíga hærra og hærra. Nú er ég að tala um það sem atvinnurekendur segja okkur í skoðanakönnunum. Við finnum það að þessi málaflokkur hvílir þyngra og þyngra á fyrirtækjum.“

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Guðrúnu í heild sinni. 

Á Vísi er vitnað í orð Guðrúnar í viðtalinu um innflutning og innlenda framleiðslu þar sem hún segir meðal annars: „Við getum vitaskuld ræktað miklu meira grænmeti en við erum að gera og mér þykir sorglegt til þess að vita að innflutningur á grænmeti er að aukast stórkostlega þegar við ættum í rauninni að vera auka innlenda framleiðslu.“