Fréttasafn



13. maí 2019 Almennar fréttir Menntun

Atvinnulífið vill róttækari endurskoðun námskrár

Það eru einkum tvö viðfangsefni í menntamálum sem Samtök iðnaðarins hafa látið sig varða á undanförnum misserum. Annars vegar er um að ræða stóreflt átak í iðn- og verknámi og hins vegar er um að ræða tækninám í víðtækri merkingu þar sem forritun og viðfangsefni stafræns hagkerfis eru höfð að leiðarljósi. Forsvarsmenn atvinnulífsins leggja einnig ríka áherslu á róttækari endurskoðun námskrár en verið hefur. Þróun í menntamálum endurspeglar ekki þann hraða sem er á þróun og þörfum atvinnulífsins. Bent hefur verið á að vandinn snúi ekki aðeins að námskránni heldur sé hann djúpstæðari og snúi að því hvernig efla megi kennarastéttina, efla námsefnisgerð og bregðast við þeim skýru vísbendingum sem þegar hafa komið fram um stöðu í íslensku menntakerfi, t.d. í niðurstöðum PISA. Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í erindi sínu á málþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Háskólafélags Suðurlands síðastliðinn föstudag þar sem fjallað var um stöðu og framtíð iðn-, verk- og tæknimenntunar á Suðurlandi. Hún sagði að Fjölbrautaskóli Suðurlands sem og Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu og í Vestmannaeyjum hafi sýnt mikinn metnað við að sinna iðnmenntun og væri kennsla í þessum skólum sem og aðstaðan öll til mikillar fyrirmyndar. Fyrirtækin á svæðinu hafi einnig sýnt skólunum stuðning í verki.

Starfsvettvangur unga fólksins er heimurinn allur

Guðrún sagði það skipta miklu máli að skapa tækifæri fyrir ungt fólk að sækja sér menntun í sinni heimabyggð. Það sé ávallt sú hætta fyrir hendi að unga fólkið sem neyðist til að fara burt til að mennta sig skili sér ekki aftur til baka í heimahagana. Hún sagði að fyrir atvinnulífið væri kjölfesta í mannauði nauðsyn og eins þurfi að vera nægilegt aðdráttarafl til að draga að nýtt og vel menntað fólk. „Við kvörtum yfir því að erfitt sé að fá fólk út á land sem er vissulega rétt en við verðum einnig að hafa í huga að Ísland í heild á í varnarbaráttu við umheiminn sem verður sífellt minni. Í dag er starfsvettvangur unga fólksins heimurinn allur, þau horfa ekki eingöngu til Íslands þegar þau velja sér starf eða samastað. Á sama hátt er tæknin að breyta því að fólk getur nánast starfað hvar sem er í heiminum svo framarlega sem gagnatengingar eru góðar.“

Gríðarlegar gnægtir Sunnlendinga

Þá sagðist Guðrún hafa síðustu daga leitt hugann að því hver sérstaða Suðurlands væri og hvar tækifærin liggja. Hún sagði sjávarútveg, þjónustu, landbúnað og ferðaþjónustu vera aðalsmerki fjórðungsins en einnig væri mikil iðnaðarhefð sem væri inngróinn í sunnlenskt atvinnulíf. „Finnur maður það glöggt að Suðurlandið er sömuleiðis matarkista Íslands og hér er mikil hefð fyrir ýmsa matvælaframleiðslu. Á öllum þessum sviðum hefur orðið til gríðarleg þekking og reynsla til að byggja enn frekar á til framtíðar. Hér í héraði búum við svo vel að samgöngur eru góðar, nema ef vera skyldi til Vestmannaeyja. Á Suðurlandi verður lunginn af allri raforku í landinu til og nálægðin við höfuðborgina veitir okkur gríðarleg tækifæri. Við búum við gríðarlega gnægtir Sunnlendingar.“

Frumkvöðlasetur matvæla ætti að vera staðsett á Suðurlandi

Guðrún sagðist vera þeirrar skoðunar að efla þurfi enn frekar nýsköpunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum og einnig að kenna frumkvöðlafræði. „Hvað er því til fyrirstöðu að fyrirtæki eins og CCP eða Orf líftækni verði til og starfi hér á svæðinu? Hér gæti risið lyfjafyrirtæki sem framleiddi lífræn náttúrulyf. Hér í matarkistu Suðurlands ætti frumkvöðlasetur matvæla að vera staðsett. Ég vil því fagna því að á síðasta ári skyldi takast með grettistaki góðra manna og kvenna að setja á laggirnar FABLABsetur við Fjölbrautaskólann sem án efa á eftir að ýta undir nýsköpun á svæðinu. Sambærileg FABLAB setur er einnig að finna í Fjölbrautaskóla Austur Skaftfellinga og Fjölbrautaskólanum í Vestmannaeyjum.“

Hún sagði að á Íslandi væri mikil eftirspurn eftir starfskröftum með iðn-, verk- og tækninám og því miklir möguleikar að fá skemmtilegt og vel launað starf að námi loknu. Starfsnám opni dyr því námið veiti ekki eingöngu möguleika á að fá gott starf hér á landi heldur veiti það möguleika á að starfa í öðrum löndum, hægt sé að taka stúdentspróf samhliða starfsnámi og starfsnám gefi tækifæri til að stofna til eigin reksturs. Guðrún sagði allar greinar iðnaðar vera mikilvægar fyrir Ísland og þeir sem starfi við iðnað skapi mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið.

Efla þarf nýsköpunar- og frumkvöðlamenntun

Guðrún sagði kröftugt nýsköpunar- og þróunarstarf vera forsendu framfara í iðnaði. Með eflingu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntunar komum við til með að stuðla að aukinni verðmætasköpun á Suðurlandi sem og landinu öllu. „Velsæld okkar Íslendinga hefur hingað til byggst á auðlindanýtingu. Nú er svo komið að við verðum að fjölga stoðunum í atvinnulífi okkar og færa okkur frá auðlindum jarðar yfir í auðlindir hugans. Svo framarlega sem höldum áfram að leggja áherslu á menntun, nýsköpun og innviði eru okkur allar leiðir færar. Nýsköpun er talin einkar mikilvæg fyrir efnahagslífið á því svæði sem hún á sér stað. Nýsköpun getur ýtt undir hagvöxt vegna þess að í henni felst framleiðsluaukning eða hagræðing sem leiðir af sér meiri framleiðni hjá þeim sem að nýsköpuninni standa. Nýsköpun er eins og orðið gefur til kynna undirstaða framþróunar á öllum sviðum mannlegs samfélags og grundvöllur nýrrar þekkingar.“