Fréttasafn



3. jan. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Auka þarf lóðaframboð fyrir hagkvæmt húsnæði

Í Morgunblaðinu fyrir áramót var fjallað um húsnæðismarkaðinn þar sem meðal annars var rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, sem rifjar upp þá spá Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að íbúum á höfuðborgarsvæðinu muni fjölga um 30-38 þúsund til 2025. Búið sé að skipuleggja um 7.300 íbúðir en það sé hvergi nærri nóg og því þurfi að auka lóðaframboð. „Burtséð frá stöðunni núna þarf að byggja íbúðir til að mæta aukinni eftirspurn frá nýjum íbúum.“ Aðspurður telur Sigurður að fyrir vikið verði mikil umsvif í íbúðabyggingum á næstu árum. Í fréttinni er hann spurður hvers vegna ekki hafi meira áunnist í því að stuðla að meira framboði á hagkvæmu húsnæði á síðustu árum og svarar hann því að skýringin sé fyrst og fremst mikil áhersla borgaryfirvalda í Reykjavík á þéttingu byggðar. Þéttingin sé sem slík góðra gjalda verð en með hliðsjón af íbúðaskortinum hefði hins vegar mátt fara hægar í sakirnar í þéttingu byggðar og takmarkað lóðaframboð hafi ýtt undir fasteignaverð.

Í fréttinni segir að á samráðsfundi ríkisstjórnarinnar, aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa launþega fyrir jól að byggja þyrfti 5-8 þúsund íbúðir til að anna eftirspurn tekjulægri hópa og að verkefnið sé á hugmyndastigi.

Félagslegar íbúðir á ódýru landi 

Annars staðar í Morgunblaðinu þennan sama dag er rætt við Pétur Ármannsson, arkitekt, en hann hefur flutt erindi vegna húsnæðismála á fundum hjá Eflingu og Samtökum iðnaðarins. Í fréttinni segir Pétur að þjóðin hafi áður staðið frammi fyrir skorti á hagkvæmu íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og lausnir á þeim vanda hafi komið fram allt frá 1930. Bygging félagslegra íbúða í Borgahverfi í Grafarvogi á 10. áratugnum sé síðasta verkefnið á vegum húsnæðisnefndar borgarinnar. Nefndin hafi síðan verið lögð niður. 

Þarf ónumið land til að leysa vandann hratt og vel

„Fyrst þarf að skoða fjármögnunarhliðina. Þetta er ekki aðeins byggingartæknifræðilegt mál. Íbúðarbyggingar eru nú öðrum þræði fjárfestingarvara. Húsnæði er byggt til að tryggja örugga fjárfestingu. Þegar lögin um verkamannabústaði voru sett fólu þau í sér hagstæð lánakjör. Sú varð líka raunin árið 1965 þegar samkomulag náðist um byggingu íbúða í Breiðholti. Hér þurfa að fara saman nokkrir samverkandi þættir; fjármálahliðin, lánakjör og skipulagsmál. Nánast öll skipulagsverkefnin hafa verið byggð á ódýru landi.“ Pétur bendir á að uppbygging á minni þéttingarreitum í eldri byggð sé dýrari. „Það getur vel verið að það sé dýrt fyrir sveitarfélögin að byggja ný hverfi, en til að leysa þessi mál hratt og vel þarf í rauninni að fá ónumið land. Það er líka mikilvægt að gera mjög vandað skipulag og beita ýtrustu hagkvæmni við húsbyggingar. Að láta vinna vandaða hönnun sem hægt er að endurtaka. Það þarf að gæta þess að húsin séu einföld og stöðluð og hafi öll grunngæði án þess að bruðlað sé með óþarfa.“ 

Þá kemur fram í fréttinni að Pétur rifji upp að þegar Bústaðahverfið hafi verið byggt upp á haftaárunum hafi það verið langt frá miðbænum. „Þar var hægt að fá ódýrt og mjög gott byggingarland. Þar voru gerðar ákveðnar tilraunir. Fólk fékk til dæmis húsin afhent fokheld og innréttaði þau sjálft.“

Morgunblaðið, 28. desember 2018.