Fréttasafn19. sep. 2019 Almennar fréttir Menntun

Auka þarf vægi iðngreina í grunnskólum

Við verðum að gera gríðarlegar breytingar í grunnskólunum, auka þar vægi iðngreina, bæði með hæfum kennurum en síðan en ekki síst að börnin okkar fái að kynnast mismunandi handverki. Með fullri virðingu fyrir þeirri handverkskennslu sem á sér stað í grunnskólunum þá held ég að ansi mörg börn séu að koma heim með brauðbretti og smjörhnífa ár eftir ár. Auðvitað ættu grunnskólar að sýna nemendum inn í heim rafmagnsins, múrverksins, flísalagna o.s.frv. Ég vil minna á að starfsnámsbrautirnar eru hátt í hundrað en flóra verknámsfaga í grunnskólum má telja á fingrum annarrar handar. Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í erindi sínu á málþingi í Háskólanum á Akureyri þar sem fjallað var um nýja skýrsla Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri um hvernig menntunarþörf atvinnulífsins í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum verði mætt. 

Þá sagði Guðrún að Samtök iðnaðarins ætli á næstu misserum að beita sér sérstaklega fyrir umbótum í grunnskólum landsins. „Við höfum t.d. unnið að því undanfarið í samstarfi við Menntamálastofnun að greina sérstaklega hvaða grunnskólar koma verst út m.t.t. hlutdeildar starfsnáms í vali á framhaldsskóla síðustu ár. Þannig sjáum við svart á hvítu hvernig allir grunnskólar landsins eru að standa sig og hvar umbóta er líklega þörf í námsráðgjöf og fleiri þáttum. Þetta er nýlunda en mér er ekki kunnugt um að þær upplýsingar hafi legið fyrir áður.“

30% stunda starfsnám á Íslandi í samanburði við 50% á hinum Norðurlöndunum

Guðrún sagði að vandi starfsnámsins hér á landi væri mikill en til að gefa hugmynd um þá erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir þá leggja um 30% nemenda á framhaldsskólastigi stund á starfsnám á Íslandi meðan meðaltal hinna Norðurlandanna sé nálægt 50%. „Við hljótum að spyrja okkur, hvað er að á Íslandi þegar hugað er að þessum samanburði? Erfitt er að kenna áhugaleysi nemenda um en í nýlegri könnun kemur fram að um helmingur nýnema í framhaldsskólum hefur meiri áhuga á verklegum fögum en bóklegum. Aðeins um 15% nemenda grunnskólanemenda völdu þó starfsnámið í framhaldsskóla nú vorið 2019. Þetta þýðir að um 35% eða um 1.400 umsækjendur fundu sig knúna til að velja bóknám í stað starfsnámsins, gegn eigin sannfæringu. Þetta er sorgleg staða.“ Þá sagði hún að þessir nemendur hafi orðið fyrir fjölmörgum hindrunum gegnum mótunarár grunnskólans og fram að þeim tíma þegar valið á sér stað í framhaldsskóla. Því næst tiltók hún nokkrar þeirra hindrana og sagði verkefni okkar allra vera að ryðja þeim úr vegi. Guðrún sagði fyrstu og stærstu hindrunina vera rótgróin samfélagsviðhorf og sleggjudómar sem finnist alls staðar t.a.m. hjá foreldrum, vinum, kennurum og námsráðgjöfum. En einnig væru það kerfisbrestir í grunnskóla og í framhaldsskólakerfinu. 

Þarf samstillt þjóðarátak

Í erindi sínu sagði Guðrún það vera stöðugt verkefni og áskorun hjá Samtökum iðnaðarins að fjölga starfsnámsnemum. „Við erum með þessa vinnu í sífelldri endurskoðun. Ég hef þó oft sagt að okkar átak eitt og sér dugi ekki til því vandinn er djúpstæður. Við þurfum samstillt þjóðarátak til að lyfta þessu grettistaki í eitt skipti fyrir öll. Slíkt átak þarf að eiga sér stað í samvinnu skólastofnana, forsvarsmanna atvinnulífs og stjórnvalda. Samtök iðnaðarins eru tilbúin til verksins.“  

Hættum að draga fólk í dilka eftir námi

Í niðurlagi erindi síns sagði Guðrún að undirstaða íslensks efnahagslífs byggist á vel menntuðu og hæfu starfsfólki með fjölbreytta verklega og fræðilega færni og um það séu allir sammála. „Þess vegna verðum við að segja skilið við gamla færibandaskólakerfið, sem samanstendur af hefðbundnum skólastofum þar sem krakkar sitja oft og tíðum aðgerðarlausir við borð og meðtaka „réttar“ upplýsingar og læra stöðluð bóknámsfög eingöngu. Við í atvinnulífinu erum ekki að biðja um fólk sem getur setið kyrrt tímunum saman og hlustað og svarað eftir uppskrift. Við viljum heldur ekki fólk sem getur bara fylgt leiðbeiningum og munað. Við viljum fólk með frumkvæði, fólk sem er skapandi í hugsun, fólk sem getur leitað sér upplýsinga og fólk sem hefur fjölbreytta verklega og bóklega færni. Þá er líka kominn tími til þess að við hættum að draga fólk í dilka. Nám er nám og allt nám felur í sér fræðilega og verklega hlið sem saman mynda órjúfanlega heild.“

RÚV, 19. september 2019.

Kjarninn, 20. september 2019.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, flutti erindi á málþingi í Háskólanum á Akureyri.

Nordurland-18-09-2019-2-