Fréttasafn



17. apr. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Auka verður fjárfestingu í innviðum landsins

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í sérblaði Viðskiptablaðsins um Verk og vit að sýningin skipti miklu máli fyrir byggingar- og mannvirkjagerð. Mikill kraftur búi í iðnaðinum og störf þeirra sem hafa unnið þrekvirki í baráttunni við náttúruöflin á Reykjanesi sanni það. Hann segir að auka verði fjárfestingu í innviðum landsins, bæði nýfjárfestingu sem og endurbætur. 

Í höndum iðnaðarins að byggja upp flestalla innviði

Sigurður segir í viðtalinu að á sýningunni komi saman fyrirtæki tengd greininni og kynni það sem þau hafi upp á að bjóða. Hann segir að það eigi sér stað mikil framþróun innan greinarinnar og megi búast við að ýmsar nýjungar verði kynntar til sögunnar á sýningunni. „Það er í höndum iðnaðarins að byggja upp flestalla innviði sem fólk notar á hverjum einasta degi og því skiptir svona sýning, sem veitir innsýn inn í geirann, mjög miklu máli. SI hafa stutt við bakið á þessu framtaki og komið að sýningunni frá upphafi ásamt fleiri góðum aðilum.“

Byggingariðnaðurinn skapar 8% af landsframleiðslu 

Sigurður segir í viðtalinu að byggingariðnaðurinn hafi skapað rúmlega 8% af landsframleiðslu árið 2023 og í greininni hafi starfað um 18.500 manns það ár, auk þess sem ársvelta iðnaðarins var þá í kringum 600 milljarðar króna. „Líkt og framangreindar tölur gefa til kynna er umfang iðnaðarins hér á landi mjög mikið og er hann samfélaginu mikilvægur – ekki einungis með umfangi sínu í landsframleiðslu og vinnumarkaði heldur einnig sem uppbyggingaraðili innviða sem eru stoðir annarra greina hagkerfisins. Í því samhengi má nefna uppbyggingu húsnæðis fyrir iðnað, ferðaþjónustu, sjávarútveg og aðrar greinar. Því til viðbótar má nefna innviði landsins, meðal annars í samgöngum og veitukerfi sem leggja grunn að daglegu lífi landsmanna og verðmætasköpun hagkerfisins. Á síðasta ári nam fjárfesting í íbúðarhúsnæði tæpum 200 milljörðum, fjárfesting atvinnuveganna tæplega 250 milljörðum og opinber fjárfesting um 120 milljörðum. Þessu til viðbótar eru viðhaldsverkefni greinarinnar umtalsverð.“

Alrangt að iðnaðurinn dragi lappirnar í framkvæmdum

Þá segir Sigurður í blaðinu mikinn kraft búa í iðnaðinum og fólkinu sem þar starfar. „Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hetjunum í iðnaði að störfum á Reykjanesi undanfarna mánuði við hreint út sagt ótrúlegar aðstæður í baráttu við óblíð náttúruöfl og í kappi við tímann. Varnargarðarnir hafa svo sannarlega sannað gildi sitt og beint glóandi hraunstraumnum frá byggð og snör handtök við að koma heitu vatni til tugþúsunda íbúa svæðisins komu í veg fyrir mikið tjón. Við heyrum stundum að iðnaðurinn dragi lappirnar í framkvæmdum, sem er alrangt. Viðbragðið á Reykjanesi sýnir vel að málin stranda ekki á iðnaðinum heldur annars staðar. Tugir manna og öflugar vinnuvélar voru komnar á verkstað og einungis var beðið eftir grænu ljósi frá Alþingi og ráðherra svo hægt væri að hefjast handa. Um leið og það kom þá hófust framkvæmdir og hundruð manna hafa unnið myrkranna á milli síðan þá.“ 

Stórátak þarf til að bæta úr uppsafnaðri viðhaldsþörf

Sigurður segir jafnframt að auka verði fjárfestingu í innviðum landsins, bæði nýfjárfestingu sem og endurbætur. „Í skýrslu sem SI gaf út árið 2021, ásamt Félagi ráðgjafarverkfræðinga, kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða á vegum hins opinbera nemi rúmlega 400 milljörðum króna, það er því svo sannarlega þörf á að ráðast í stórátak til að bæta úr þessu. Fjölgun landsmanna og vöxtur atvinnuvega kallar einnig á auknar fjárfestingar í vegakerfinu. Þó að ráðherra hafi aukið fé til viðhalds vegakerfisins undanfarin ár þá hefur það ekki dugað til og það þyrfti nokkra milljarða á ári til viðbótar bara til þess að halda kerfinu í horfinu. Sveitarfélögin bera svo ábyrgð á um helmingi vegakerfisins í kílómetrum talið og þar þarf einnig að auka fjárfestingu til að tryggja ásættanlegt ástand vega. Samvinnuverkefni (PPP) eru ein leið til þess að byggja upp nýja vegi þar sem ríki og einkaaðilar sameinast um verkefni. Innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur verið ötull talsmaður slíkrar leiðar við uppbyggingu vega og þurfum við að sjá slík verkefni verða að veruleika. Þetta var hægt fyrir um þremur áratugum þegar eldhugar stofnuðu félagið Spöl sem síðan fékk byggingarverktaka til að grafa göng undir Hvalfjörð. Þetta er að sjálfsögðu hægt í dag. Slík verkefni myndu flýta nauðsynlegri uppbyggingu innviða. Samtök iðnaðarins halda ráðstefnu í tengslum við sýninguna Verk og vit þar sem sjónum verður beint að fjármögnun í vegaframkvæmdum, bæði hvað hið opinbera varðar en einnig verður rætt um samvinnuverkefni.“

Hér er hægt að lesa viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Viðskiptablaðið, sérblað um Verk og vit, 17. apríl 2024.

Vidskiptabladid_-_Serblad_torf_a_aukinni_innvidafjarfestingu