Fréttasafn



17. apr. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Auka vernd fyrir viðskiptaleyndarmál

Samtök iðnaðarins fagna því að verið sé að auka vernd gegn ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála. Skýr réttarstaða í þessum málefnum eykur trú og eflir samkeppnishæfni íslensks markaðar á sviði nýsköpunar, rannsókna og hugverka. Samtökin gera ekki athugasemdir við einstaka lagagreinar frumvarpsins en vilja aftur á móti að með frumvarpinu verði tryggt að trúnaðarupplýsingar sem eru lagðar fram í opinberum innkaupum öðlist sömu vernd og viðskiptaleyndarmál. Þetta kemur fram í umsögn SI um drög að frumvarpi til laga um viðskiptaleyndarmál nr. 75/2020.  

Lög um viðskiptaleyndamál gildi um opinber innkaup

Í umsögninni segir að þrátt fyrir skýrt ákvæði þá sé hætta á að hið opinbera veiti öðrum en þeim sem ráða yfir upplýsingum með lögmætum hætti aðgang að viðkvæmum trúnaðarupplýsingum, sbr. 17. gr. laganna. Það geti m.a. gerst ef almenningur fær aðgang að útboðsgögnum á grundvelli upplýsingalaga, þar sem viðkvæmar upplýsingar eins og einingarverð eða sértækar tæknilausnir séu aðgengilegar. Til að tryggja aukna vernd trúnaðarupplýsinganna leggja samtökin til viðbætur á lögum um opinber innkaup með nýjum málslið sem áréttar að við öflun, notkun og afhjúpun á fyrrgreindum trúnaðarupplýsingum gildi lög um viðskiptaleyndarmál. Viðbótin við frumvarpið tryggi bjóðendum í opinberum innkaupum þau úrræði sem frumvarpið hafi að geyma, t.a.m. heimild til að leggja lögbann, bætur fyrir fjártjón og/eða bætur fyrir ófjárhagslegt tjón. Samtöki iðnaðarins hvetja stjórnvöld til að endurskoða frumvarpsdrögin með hliðsjón af þessu.

Viðskiptaleyndarmál undanskilin birtingum

Þá kemur fram í umsögninni að samtökin leggja áherslu á, verði frumvarpið að lögum, að þagnarskylda hins opinbera sé höfð í öndvegi þegar einstaklingar og lögaðilar afhenda því viðskiptaleyndarmál. Komi til þess að eftirlitsskýrslur eða aðrar upplýsingar séu birtar, skulu stjórnvöld ávallt sjá til þess að viðskiptaleyndarmál séu undanskilin þeim birtingum. Ennfremur leggja samtökin áherslu á að eftirlitsaðilar gæti meðalhófs í eftirliti sínu og taki ekki afrit af viðskiptaleyndarmálum, t.d. uppskriftum, nema brýn þörf sé á.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.