Fréttasafn



  • Borgartún 35

16. des. 2014

Aukið jafnræði á upplýsingatæknimarkaði

Ríkisskattstjóri hyggst skýra samkeppnisstöðu fyrirtækja sem keppa við RB um að þjónusta bankana

  • Barátta SI og SUT ber árangur: Fundir með RSK og SKE leiða til skýrara samkeppnisumhverfis upplýsingatæknifyrirtækja 

  • Embætti ríkisskattstjóra boðar að birtar verði leiðbeiningar um hvernig meðhöndla á virðisaukaskatt á upplýsingatækniþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki

  • Skilyrði SKE frá 2012: Bankar þurfa að skilgreina meðferð VSK í tengslum við útboð og verðkannanir

Embætti Ríkisskattstjóra hefur boðað að birtar verði leiðbeiningar um hvernig meðhöndla eigi virðisaukaskatt á upplýsingatækniþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki. Um er að ræða kaflaskil í áralangri baráttu Samtaka iðnaðarins og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja fyrir auknu jafnræði á upplýsingatæknimarkaði. Í bréfi sem samtökin sendu Samkeppniseftirlitinu í síðasta mánuði kom fram sú skoðun að upplýsingatæknifyrirtæki stæðu höllum fæti í samkeppni við Reiknistofu bankanna um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Fyrir lá að fjármálafyrirtækin sem eru eigendur Reiknistofu bankanna höfðu ekki skilgreint hvernig meðferð VSK af upplýsingatækniþjónustu skyldi háttað líkt og þeim er skylt að gera skv. skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið setti þeim. Því töldu upplýsingatæknifyrirtæki að þeim væri ekki kleift að bjóða bönkunum þjónustu án VSK líkt og Reiknistofa bankanna hefur gert.

Skýrar leiðbeiningar frá Ríkisskattstjóra (RSK) munu tryggja aukið jafnræði á íslenskum upplýsingatæknimarkaði. Þessi niðurstaða, sem fékkst eftir þrýsting og mikla vinnu Samtaka iðnaðarins (SI) og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja (SUT), er mikill sigur fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki sem starfa á þessum markaði.

Nokkur óvissa hafði ríkt um þær leikreglur sem giltu fyrir þjónustu við fjármálafyrirtæki. Í yfirlýsingu Reiknistofu bankanna, sem send var fjölmiðlum í kjölfar erindis SI til Samkeppniseftirlitsins vegna þess sem samtökin töldu óeðlilega samkeppnisstöðu RB á upplýsingatæknimarkaði, var vísað til álits og túlkunar RSK á ákvæðum laga um VSK. Hvorki SI né aðildarfyrirtækjum þeirra á upplýsingatæknimarkaði hafði verið kynnt þetta álit RSK um meðferð á VSK og óskuðu samtökin því eftir fundi með Ríkisskattstjóra.

Þar bentu þau embættinu meðal annars á að upplýsingatæknifyrirtæki innan samtakanna hafi ávallt talið sér skylt að innheimta VSK af þjónustu sinni við fjármálafyrirtækin og hafa ekki fengið frá þeim skilaboð um annað. Það væri afar brýnt að sömu reglur um meðferð VSK giltu um öll upplýsingafyrirtæki sem þjónusta bankanna og önnur fjármálafyrirtæki. Gera verði þá kröfu að fyllsta jafnræðis sé gætt við skattameðferð á þessum viðkvæma samkeppnismarkaði.

Ennfremur vöktu SI athygli RSK á að fjármálafyrirtækin hafa ekki skilgreint hvernig meðferð VSK af þjónustu skuli háttað líkt og þeim er skylt að gera samkvæmt skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið setti þeim árið 2012 vegna breytinga á rekstarformi RB yfir í hlutafélag og kaupa þeirra á upplýsingatæknifyrirtækinu Teris.

Það kom skýrt fram hjá fulltrúum RSK að þóknun aðila fyrir vinnu, sem unnin er fyrir fjármálafyrirtæki, sé undanþegin virðisaukaskatti þegar telja má vinnuna eðlilegan og nauðsynlegan þátt í starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækja og sé unnin  í tengslum við fjármálagjörninga.

SI hafa einnig átt fund með Samkeppniseftirlitinu þar sem fjallað var um þau skilyrði sem Samkeppniseftirlitið setti bönkunum árið 2012 í tengslum við kaup RB á Teris. þá sérstaklega skyldu þeirra að framkvæma ávallt útboð eða verðkönnun og að skilgreina strax í upphafi hvernig meðferð VSK af þjónustunni skuli háttað, óháð því hver verkseljandinn er.