Aukið samstarf nauðsynlegt fyrir stöðugleika á húsnæðismarkaði
Aukið samstarf byggingariðnaðar, ríkis og sveitarfélaga er nauðsynlegt til þess að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði, sem næst aðeins fram með því að stuðla að stöðugri uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Árna Sigurjónssonar í upphafi fundar SI og HMS, Íbúðamarkaður á krossgötum, þar sem niðurstöður nýrrar talningar á íbúðum í byggingu voru kynntar.
Hér fer ávarp Árna í heild sinni:
Húsnæðismál verið mikið í deiglunni síðustu ár og sjaldan meira en það sem af er þessu ári. Verðhækkanir á húsnæði hafa verið meiri og skarpari en við höfum áður séð, sem stafar einkum af ójafnvægi framboðs og eftirspurnar á þeim markaði um margra ára skeið. Stór þáttur í því er að of fáar íbúðir hafa verið byggðar undanfarin 15 ár eða svo. Þetta er ekki einkamál höfuðborgarsvæðisins, því íbúðamarkaður í þéttbýli í öðrum landshlutum hefur ekki farið varhluta af þessari stöðu. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif þessa á verðbólgu og hafa nú stýrivextir verið hækkaðir myndarlega sem mótsvar við þeirri stöðu sem komin er upp. Verðbólga og hærri vextir bitna á fyrirtækjum og heimilum landsins. Sú staðreynd að stýrivextir eru hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við endurspeglar að einhverju leyti að Seðlabankinn hefur farið hraðar í hækkun stýrivaxta en flestir erlendir seðlabankar og hefur réttilega vakið upp spurningar um hvort bankinn sé að stíga of hart á bremsuna. Vafalítið fáum við innlegg í þær vangaveltur hér í dag.
Átakshópar hafa verið skipaðir til að stuðla að lausn þess vanda sem við glímum við á húsnæðismarkaði, en sannast sagna á uppbygging húsnæðis ekki að vera átaksverkefni. Þær endalausu upp- og niðursveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn hérlendis um langa hríð eru einfaldlega ekki boðlegar og hafa meðal annars mikil áhrif á stöðuna á vinnumarkaði, eins og blasir við okkur nú í aðdraganda kjarasamningsviðræðna. Það er því forgangsmál að grípa til aðgerða. Stjórnvöld þurfa að ráðast að rótum þess vanda með aðgerðum sem draga úr takmörkunum og töfum, svo sem með auknu lóðaframboði. Skref í þá átt er rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu 35 þúsund íbúða á næstu tíu árum. Sammælast þessir aðilar þar með í fyrsta sinn um stefnu og aðgerðir til að tryggja húsnæðisuppbyggingu í samræmi við þörf. Markmið stjórnvalda um uppbyggingu 35.000 íbúða næsta áratug eru metnaðarfull, nauðsynleg og raunhæf. Aukið samstarf byggingariðnaðar, ríkis og sveitarfélaga er nauðsynlegt til þess að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði, sem næst aðeins fram með því að stuðla að stöðugri uppbyggingu íbúðahúsnæðis.
Talandi um stöðugleika, þá gáfum við hjá Samtökum iðnaðarins út skýrslu í liðinni viku sem ber heitið „Stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi“, þar sem lagðar eru fram 26 fjölbreyttar og markvissar umbótatillögur, sem er öllum ætlað að efla samkeppnishæfni í grænni iðnbyltingu og stuðla að áframhaldandi framförum á Íslandi. Eins og fram kemur í skýrslunni er stöðugur húsnæðismarkaður einn af lykilþáttunum til að skapa stöðugleika, svo atvinnu- og efnahagslíf verði blómlegt til lengri tíma litið. Til að skapa stöðugleika á húsnæðismarkaði skiptir mestu máli að sveitarfélögin öll, hringinn í kringum landið, fylgi rammasamningnum eftir og verði þannig hluti af lausn vandans. Því fylgir að breyta skipulagi í þágu aukinnar uppbyggingar, taka stjórnsýslu húsnæðisuppbyggingar til gagngerrar endurskoðunar í þágu skilvirkni, gera lóðir tilbúnar og aðgengilegar og byggja nauðsynlega innviði.
Samtök iðnaðarins hafa staðið fyrir talningu á íbúðum í byggingu á landinu öllu í fjöldamörg ár undir einbeittri stjórn Friðriks Á. Ólafssonar, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI. Hann ætlar hér á eftir að stikla á stóru í þessari merkilegu sögu, allt frá því að fyrstu tölur komu úr Hafnarfirði árið 2007, yfir í talningu í fjölmennustu sveitarfélögum landsins árið 2010 og allt til dagsins í dag þegar fyrir liggur ný talning á íbúðum í byggingu á landinu öllu. Ótrúlegt en satt hafa þessar talningar verið, hingað til, einu áreiðanlegu upplýsingarnar um hversu mikið íbúðarhúsnæði er í byggingu hérlendis hverju sinni. Gott og árangursríkt samstarf okkar við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun síðustu ár er liður í því að afhenda nú keflið varðandi stöðu þessara mála yfir til stjórnvalda og á tækniöld ætti það í raun að vera sjálfsagt mál að tölur um íbúðabyggingar séu aðgengilegar í rauntíma hverju sinni. Þróun mannvirkjaskrár og gagnagrunns í kringum húsnæðisáætlanir sveitarfélaga hjá HMS munu þar spila stórt hlutverk. Þá mun sameining málaflokka innan stjórnsýslunnar sem snerta húsnæðis- og byggingamál vafalítið losa um ýmsa flöskuhálsa, ryðja burt hindranir og einfalda regluverk, sem eru lykilskref í átt að skilvirkari og stöðugri markaði.
Við breytum ekki stöðunni í húsnæðismálum yfir nótt en markviss skref í rétta átt munu stuðla að eins skjótum breytingum og unnt er að vænta. Það stöðugleikaskeið sem einkenndi íslenskt efnahagslíf á liðnum áratug sýndi okkur að það er raunhæft að skapa slíkar aðstæður hérlendis að nýju ef saman fara stöðugur húsnæðismarkaður, lág verðbólga, jafnvægi á vinnumarkaði og stöðugt gengi gjaldmiðilsins. Þangað viljum við komast aftur, en réttar ákvarðanir auka stöðugleika á meðan rangar ákvarðanir ýta undir óstöðugleika. Nú sem endranær munu Samtök iðnaðarins leggja sín lóð á vogarskálarnar í þessum efnum. Ég þakka Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fyrir gott samstarf og að standa að þessum fundi með okkur í dag og ég óska þeim velfarnaðar í sínum störfum, nú þegar þessi vaski hópur tekur formlega við kyndlinum úr okkar höndum. Þá þakka ég þátttakendum öllum fyrir að gefa sér tíma til að vera með okkur og ræða þessi mikilvægu mál frá öllum hliðum. Ég hlakka til að hlýða á erindi dagsins og umræðurnar sem bíða okkar að þeim loknum.
Árni Sigurjónsson, formaður SI.