Auknir skattahvatar lykilatriði til að efla nýsköpun á Íslandi
„Þessi niðurstaða kemur okkur ekki á óvart enda höfum við lengi staðið í þeirri trú að auknir skattahvatar vegna rannsókna og þróunar séu lykilatriði til þess að efla nýsköpun á Íslandi,“ segir Sigríður Mogensen sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í frétt Morgunblaðsins um nýja úttekt OECD þar sem kemur fram að aukning skattahvata vegna rannsókna og þróunar hafi haft jákvæð áhrif á fjárfestingu fyrirtækja í rannsóknum og þróun hérlendis. Í fréttinni kemur fram að í úttektinni segi að hvatarnir hafi haft jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækjanna, sölutekjur og launakjör starfsfólks. „Þetta kerfi er mjög skilvirkt og ekki eingöngu það heldur er það að skila og mun skila þjóðarbúinu margfalt til baka því sem ríkið er að setja inn í kerfið.“
Verið að fjárfesta í framtíðarverðmætasköpun
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að í kerfinu felist að nýsköpunarverkefni sem hlotið hafa staðfestingu frá Rannís eigi rétt á sérstökum skattfrádrætti. Endurgreiðsluhlutfallið fyrir stærri fyrirtæki sé 25%, en þó sé þak á því hve mikið hægt sé að fá endurgreitt sem miðast við 1 milljarð, en fyrir minni og meðalstór fyrirtæki sé endurgreiðsluhlutfallið 35%. „Með þessu er verið að fjárfesta í framtíðarverðmætasköpun í íslensku atvinnulífi, og byggja undir sterkari og fjölbreyttari útflutning,“ segir Sigríður í fréttinni auk þess að þessi niðurstaða ætti að hvetja stjórnvöld til að festa fyrirkomulagið í sessi til framtíðar.
Talað fyrir því að festa endurgreiðslurnar í sessi
„Lögin gilda til fimm ára í senn en við í Samtökum iðnaðarins höfum talað fyrir því að festa þetta í sessi,“ segir Sigríður í fréttinni og að það auki fyrirsjáanleika og stöðugleika fyrir fyrirtæki. „Mér finnst þessi niðurstaða OECD benda til þess að kerfið sé mjög sterkt hér heima og að við séum jafnvel komin framar öðrum þjóðum hvað þetta kerfi varðar. Það er eitthvað sem við eigum að halda í og keppast um að viðhalda.“
Morgunblaðið, 23. júní 2023.