Ávarp formanns Samtaka iðnaðarins á Iðnþingi 2025
Hér á eftir fer ávarp formanns SI á Iðnþingi 2025:
Forsætisráðherra, félagsmenn Samtaka iðnaðarins og aðrir góðir gestir,
Það er ekki hægt að segja annað en að við lifum á áhugaverðum tímum. Dagurinn í dag færir okkur nýjar áskoranir og tækifæri sem við áttum ekki endilega von á í gær eða fyrradag. Hlutum, sem við höfum lengi tekið sem gefnum, er kollvarpað.
Velgengni íslensks iðnaðar veltur einkum á tvennu; annars vegar starfsumhverfinu hér heima, hvernig við gerum fyrirtækjum kleift að blómstra og nýjum verkefnum að komast af stað. Og hins vegar samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum og hvernig við stöndumst hana.
Í austri og vestri eru blikur á lofti. Blómaskeiði friðar og frjálsra alþjóðlegra viðskipta sem hefur spannað síðustu þrjá áratugi virðist lokið. Skyldu nú taka við áratugir spennu, óvissu og ófriðar? Þrátt fyrir að vera eyland erum við ekki ónæm fyrir hinum þungu og ólgandi straumum allt í kringum okkur, því hagsæld okkar og blómleg framtíð byggir nefnilega á framleiðslu verðmæta og öflugum útflutningi.
Evrópa, okkar stærsti einstaki útflutningsmarkaður, stendur á krossgötum þar sem samkeppnishæfni álfunnar, í samanburði við Bandaríkin og Kína, hefur farið hratt þverrandi. Viðvörunarljósin loga eitt af öðru. Orka er of dýr, fjárfestingar í lágmarki, hraði nýsköpunar of hægur, minnkandi framleiðni, skriffinnska og óhófleg reglubyrði sem hindrar vöxt og sá fyrirsjáanleiki sem fyrirtæki þarfnast til að fjárfesta hefur reynst veruleg áskorun. Raunar var það orðað þannig í hinni umræddu Draghi-skýrslu, sem kom út fyrir um hálfu ári síðan, að Evrópa væri í tilvistarkreppu þegar kæmi að aðgerðum til að auka framleiðni.
Þetta er staðan á sama tíma og geópólitísk spenna eykst dag frá degi. Meðan diplómatísk vinabönd traustra bandamanna og samstarfsþjóða trosna smám saman, er hvergi slegið af í tækni- og gervigreindarkapphlaupinu. Þar stendur Evrópa öðrum stórveldum langt að baki, en af 100 stærstu tæknifyrirtækjum heims nú um stundir eru einungis um 15 þeirra í Evrópu.
Staðan er einfaldlega sú að ef áfram verður farið eftir sama planinu, sömu gömlu leikreglunum, mun áfram draga úr samkeppnishæfni Evrópu. Við sjáum að það er nóg af öðrum löndum og mörkuðum sem fylgja ekki slíkum reglum. Bandaríkin eru augljóst dæmi um þetta og ekkert bendir til þess að forgangsröðun Bandaríkjanna fyrst og fremst í þágu eigin hagsmuna muni minnka undir stjórn Trump. Þvert á móti. Kína spilar sömuleiðis eftir sínum eigin reglum á grundvelli sinnar stefnu og hagsmuna.
Hvort sem okkur líkar betur eða ver, verðum við að horfast í augu við að upp er runninn nýr tími – ný heimsmynd, með aukinni verndarstefnu, tollamúrum, auknum ríkisafskiptum í viðskiptum og umtalsvert meiri opinberri fjárfestingu í stefnumótandi mikilvægum atvinnugreinum en við höfum áður séð. Með öðrum orðum, það spila ekki allir eftir sömu leikreglum og Evrópuríkin og þar með Ísland eiga á hættu að klemmast á milli stórveldanna og verða undir í samkeppninni ef ekkert verður aðhafst. Afleiðingarnar yrðu skelfilegar.
En hvað er til bragðs að taka fyrir Ísland í þessari stöðu? Ef einhver heldur að einangrunarhyggja sé svarið við þessum áskorunum, þá er mitt svar þvert á móti aukið alþjóðasamstarf sem leiðir til sterkari Evrópu. Þar geta Norðurlöndin í sameiningu haft mikið að segja. Samkeppnishæf og framsækin Evrópa þýðir einfaldlega samkeppnishæfara Ísland. Sömuleiðis þurfum við markvisst að auka samvinnu og samstarf við stórveldin sem leiða tækni- og gervigreindarkapphlaupið í þeim efnum, einkum og sér í lagi Bandaríkin sem standa okkur nær landfræði- og menningarlega.
Þá undirrituðu Ísland og önnur EFTA-ríki á liðnu ári fríverslunarsamning við Indland, þriðja stærsta hagkerfi heims, og það hagkerfi sem vex hvað hraðast um þessar mundir. Ég veit af eigin raun eftir heimsókn mína til Delhi í síðasta mánuði að þar standa opnar dyr fyrir fjárfestingu, viðskiptum og margvíslegu samstarfi sem ættu að verða báðum þjóðum til heilla. Fleiri slíkir samningar sem munu opna nýja og vænlega alþjóðamarkaði eru í pípunum. Höfum samt á hreinu að til að Ísland nái árangri í auknu alþjóðlegu samstarfi þurfum við með skýrari hætti en áður að leggja mat á það hverjir séu lykilhagsmunir okkar og tryggja að þeirra verði í hvívetna gætt af stjórnvöldum á alþjóðavettvangi. Þar getum við gert betur.
Í breyttri heimsmynd þurfum við jafnframt að efla styrk og viðnámsþrótt samfélagsins til þess að mæta fjölbreyttari ógnum, hvort sem það er af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara. Ekki til að skapa ótta eða öngþveiti meðal þjóðarinnar heldur gera okkur reiðubúnari en ella að bregðast við því sem að höndum kann að bera. Í þeim efnum getum við lært margt af okkar norrænu vinaþjóðum og sömuleiðis dregið lærdóm af þeim mikla styrk og viðbragði sem íslenskur iðnaðar sýndi við krefjandi aðstæður undanfarin ár í síendurtekinni glímu við náttúruöflin. Af honum getum við öll lært.
Við höfum ekki efni á að láta stefnuleysi, innviðaskuld eða kerfislægan seinagang hamla för okkar. Við þurfum að taka höndum saman og skapa jarðveg sem getur brugðist hratt við sviptingum í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi okkar. Þannig getur smæðin, sjálfstæðið, óhæðið og stuttar boðleiðir frá hugmyndum til framkvæmdar orðið það forskot sem við þurfum að nýta okkur.
Kæru félagar,
Yfirskrift þessa þings, „Ísland á stóra sviðinu,“ krefst þess nefnilega að við spyrjum okkur: Erum við tilbúin að axla þessa ábyrgð, nýta tækifærin og takast á við áskoranir dagsins í dag og framtíðarinnar í þessari breyttu heimsmynd?
Skilaboð mín til ykkar eru þessi: Ísland getur ekki setið hjá. Nú er ekki tími fyrir sviðsskrekk eða minnimáttarkennd. Við eigum ekki að standa á hliðarlínunni og fylgjast með því sem kann að gerast heldur taka að okkur mikilvægt hlutverk og sýna hvers við erum megnug. Þetta er einfaldlega ákvörðun sem við getum tekið.
Við höfum margoft sýnt það að við eigum heima á stóra sviðinu og ef við ætlum að standa keik á því verðum við í sameiningu að stuðla að efnahagslegum stöðugleika, styrkja útflutningsstoðirnar okkar og tryggja samkeppnishæfni íslensks iðnaðar og atvinnulífs þannig að innlend starfsemi geti blómstrað í samkeppni við heiminn. Það gerum við helst með því að ryðja heimatilbúnum hindrunum úr vegi, efla innviðina okkar, tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar raforku, einfalda og afhúða regluverk og hvetja til áframhaldandi fjárfestingar landið um kring.
Leikreglurnar þurfa einfaldlega að endurspegla stefnu okkar og lykilhagsmuni. Við höfum sjálfdæmi um svo margt þegar kemur að regluverki og megum ekki vera feimin við að sníða okkur stakk eftir vexti. Gera nauðsynlegar og fyrirsjáanlegar breytingar á starfsumhverfinu til að auka hvata á ýmsum sviðum, laða að fjárfestingu og efla rannsóknir og þróun enn frekar. Á sama tíma kann að þurfa að grípa til varna fyrir viðkvæmari en ekki síður mikilvægar greinar með þeim úrræðum sem bjóðast, rétt eins og aðrar þjóðir gera. Þannig getum við byggt á styrkleikum okkar, sérstöðu og þeirri gjörbreyttu stöðu í atvinnumálum sem okkur hefur tekist að skapa með fjölgun útflutningsstoða á undanförnum 15 árum eða svo.
Sömuleiðis verðum við að nýta þau tækifæri sem felast í breyttu alþjóðaumhverfi – því á tímum óvissu spretta upp nýir möguleikar. Nýr iðnaður sem byggir ofan á grunnstoðirnar, hugvit, tækniþekking, sérþekking á auðlindum okkar og náttúrulegum áskorunum, er sífellt stærri þáttur í verðmætasköpun okkar. Og við getum gert enn betur ef við sköpum réttar kringumstæður. Þar spilar allt sem byggir á hugvitinu áfram algjört lykilhlutverk. Eitt útilokar ekki annað því annar iðnaður nýtur undantekningalaust góðs af vexti og uppbyggingu af þessum toga.
Kæru félagar,
Orka með dyggð reisi bæi og byggð,
hver búi að sínu með föðurlands tryggð.
Því menning er eining, sem öllum ljær hagnað,
með einstaklingsmenntun, sem heildinni‘ er gagn að.
Það fagra sem var, skal ei lastað og lýtt,
en lyft upp í framför, hafið og prýtt.
Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,
án fræðslu hins liðna sést ei, hvað er nýtt.
Svo orti skáldið og hugsjónamaðurinn Einar Benediktsson í stórbrotnu kvæði sínu Aldamót í upphafi 19. aldar. Skáldskapur og ljóð Einars Ben hafa um áratuga skeið verið Íslendingum hvatning og andagift til góðra verka, þó vísast fölni boðskapur hans með hverri nýrri kynslóð. En það er full ástæða til að dusta rykið af hans merkilegu sögu og þeim áhrifum sem hann hafði á sjálfstæðisbaráttu Íslands, nýtingu náttúruauðlinda og framleiðslu raforku.
Einar sat þó ekki bara og orti. Hann var sérlega athafnasamur og benti ekki aðeins á tækifærin, heldur kom einnig hugmyndum í framkvæmd. Mörg af þeim verkefnum sem hann stóð fyrir eða lagði lið, voru mikilvæg skref í átt að rafvæðingu Íslands og lögðu grunninn að frekari þróun raforkuframleiðslu hér á landi, sem var svo aftur grunnurinn að margvíslegum framförum í atvinnumálum á liðinni öld og allt til okkar daga.
Það væri óneitanlega áhugavert ef Einar Benediktsson gæti verið meðal þátttakenda í dagskránni hér í dag, því boðskapur hans í Aldamótaljóðinu á að mörgu leyti enn við í þeim áskorunum sem blasa við okkur í breyttri heimsmynd um þessar mundir. Ég er ekki í vafa um að hann myndi leggja margt gott til og blása okkur baráttuanda og eldmóð í brjóst.
Með boðskap hans að leiðarljósi, ber okkur að þekkja og virða sögu okkar og fyrri afrek þegar við byggjum eða sköpum eitthvað frumlegt, og grípum tækifærin til vaxtar og framfara. Frumkvöðlarnir hafa rutt grýtta brautina og við þurfum að læra af mistökum þeirra, mótlæti og sigrum. Þá vissi Einar, rétt eins og við vitum nú, að orka er lykillinn að hagvexti og efnahagslegu sjálfstæði. Öflun nægrar orku með skynsömum hætti og trúmennsku og þjóðarhag í fyrirrúmi er grundvöllurinn að frekari uppbyggingu – og einfaldlega forsenda fyrir vexti. Því megum við aldrei gleyma.
Okkur ber jafnframt stöðugt að efla íslenskt menntakerfi með markvissu samstarfi atvinnulífs og skólanna til að mæta færniþörfum framtíðarinnar, örum tæknibreytingum og sem gagnast heildinni. Nú sem endranær þurfum við að tryggja að við eigum nægan mannauð í fjölbreyttum greinum til að geta áfram vaxið og dafnað. Fyrir fámenna þjóð skiptir hvert og eitt okkar máli í þeim efnum.
Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, var á svipuðum nótum og boðskapur Einars Ben í viðtali í tilefni af sextugsafmæli hennar fyrir rétt tæpum 35 árum síðan, þar sem hún sagði:
„Við þurfum á öllum að halda. Andríki hvers og eins til að reka þjóðfélagið okkar. Ég sé fyrir mér yndislega þróun: ef þjóðin framleiðir allt sem hún má og gerir það svo til fyrirmyndar er, hljóta allir vegir að vera okkur færir. Við lifum í heimi þar sem þekkingin er lykill að nýjum víddum, verðmætum sem skipta máli og velfarnaði þjóðarinnar.“
Þetta þykir mér falleg framtíðarsýn og góður upptaktur fyrir umræður dagsins. Rétt eins og frú Vigdís, trúi ég því að okkur séu allir vegir færir. Framtíðin verður ekki byggð á ótta við breytingar, heldur á hugrekki til að nýta þær. Með því að nýta tækifærin og takast á við áskoranirnar er ég ekki í vafa um að Ísland geti styrkt samkeppnishæfni sína á alþjóðavettvangi og muni eigi verðugan sess á stóra sviðinu.
Kæru félagsmenn Samtaka iðnaðarins og aðrir góðir gestir, ég býð ykkur hjartanlega velkomin á Iðnþing 2025!