Fréttasafn9. mar. 2023 Almennar fréttir

Ávarp formanns SI

Hér fyrir neðan fer ávarp formanns SI sem hann flutti í upphafi Iðnþings 2023 sem fram fer í Silfurbergi í Hörpu í dag.

„Ég man ekki hvar það byrjaði, og veit ekki hvar það endar, en ég held að ég sé að bíða, eftir einhverju.“ Þessi vísu orð ritaði Hrafn Jökulsson heitinn í ljóðabók sinni Húsinu fylgdu tveir kettir, sem varð á vegi mínum einhvern tímann fyrir margt löngu, og koma stundum upp í huga mér í amstri dagsins. Sérstaklega þegar framgangur góðra mála er hægur eða hreinlega stöðvast.

Og þau eiga við í dag þegar óvissan um framtíðarhorfur og áhyggjur af stöðu fjölmargra mála hérlendis sem erlendis lita daglegt líf okkar og við bíðum átekta.

Nú um stundir glímir heimsbyggðin nefnilega samtímis við margþættar krísur. Tveggja ára heimsfaraldur Covid-19 sem enn eimir af, hið hörmulega stríð Pútíns sem geisar innan landamæra Úkraínu og orkukreppu sem hefur skekið Evrópu í framhaldinu. Loftslagskrísa sem gengur hægt að ná ásættanlegum árangri gegn og efnahagskreppa sem birtist helst í hárri verðbólgu og verðhækkunum á hrávöru og neytandavörum.

Og ekki má heldur gleyma þeirri landfræðilega pólitísku spennu sem hefur magnast hratt í heiminum á liðnum árum. Nýir múrar eru reistir, ekki endilega í föstu formi eins og í Berlín forðum, heldur af öðrum toga. Umskiptin frá alþjóðavæðingu yfir í svæðisvæðingu hafa verið hröð og við sjáum hvernig einstök ríki eða ríkjabandalög leggja sífellt aukna áherslu á að tryggja sinn eigin iðnað, vernda sín störf og eigin efnahag.

Þessi þróun snýst ekki bara um peninga og auknar fjárfestingar. Margvíslegir hvatar, einkum í tengslum við græna iðnbyltingu á grundvelli loftslagsmarkmiða, hafa verið lögfestir og flöskuhálsar regluverks fjarlægðir. Markvisst er dregið úr skrifræði og skilyrði um leyfi og vottanir afnumin, allt til þess að auka hraða þessara verkefna.

Ákvarðanir hafa verið teknar í okkar helstu viðskiptalöndum um hvert skuli stefna og hvernig markmiðunum skuli náð. Kapphlaupið að settu marki er hafið og við Íslendingar erum varla farin að hita upp.

Ef fram heldur sem horfir og einstök lönd og svæði viðhalda innflutnings­hindrunum og reisa nýjar, eða hygla þarlendri starfsemi svo mjög að ekki sé unnt að keppa á jafnræðis­grundvelli, erum við í vanda sett. Störf og starfsemi leitar þangað sem bestu aðstæður bjóðast. Samkeppnishæfni lítillar þjóðar er einfaldlega í bráðri hættu í þessu umhverfi, einkum ef ekkert verður að gert.

„Ég man ekki hvar það byrjaði, og veit ekki hvar það endar, en ég held að ég sé að bíða, eftir einhverju.“

Og hvað er til ráða? Við Íslendingar erum í einstakri stöðu að skapa ný atvinnutækifæri og ný störf, ekki síst í hugverkaiðnaði og á grunni hinna grænu umbreytinga, sem myndu stuðla að bættum lífskjörum og velferð þjóðarinnar allrar. En því miður eru ekki nógu mörg teikn á lofti um að við séum sammála um að grípa þessi tækifæri – því við erum að bíða – en eftir hverju? Stóra spurningin sem þarfnast skjótra svara, er hvað við viljum eiginlega sem þjóð? Hvert er íslenska planiðíslenska leiðin?

Við eigum gnægð náttúruauðlinda sem við höfum nýtt á sjálfbæran hátt í áratugi. Sú staðreynd setur okkur í ákjósanlega og eftirsóknarverða stöðu, til að mynda þegar kemur að öflun nýrrar orku til að mæta raforkuþörf vegna orkuskipta á Íslandi og nýrra tækifæra í iðnaði. Við eigum einnig mikinn mannauð, búum að mikilli þekkingu og menntunarstig þjóðarinnar er hátt. Á þessum grunni þurfum við, rétt eins og okkar helstu viðskiptaþjóðir hafa nú þegar gert, að taka erfiðar ákvarðanir og við þurfum að taka þær strax.

Þó krísur, órói og óvissa einkenni þá tíma sem við nú lifum skulum við ekki gleyma djörfungu og þori forfeðra okkar og -mæðra að taka afdrifaríkar ákvarðanir á erfiðum tímum og við krefjandi efnahagsaðstæður. Í stórmerkilegum æviminningum sínum, Lifað með öldinni, sem komu út síðla síðasta árs, rekur dr. Jóhannes Nordal, sem er nú nýlátinn í hárri elli og var sannarlega einn af frumkvöðlum í orkumálum þjóðarinnar og síðar seðlabankastjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar í áratugi, þær miklu og hröðu framfarir sem urðu á íslensku samfélagi á 20. öldinni.

Undir merkjum aukins athafnafrelsis og verðmætasköpunar voru tækifærin sótt og grunnurinn lagður að stöðugum útflutnings­tekjum á grundvelli orkusækins iðnaðar. Frumkvöðlarnir skildu að lítið virði væri í raforku nema hún væri nýtt. Framsýni og sjaldséð langtímahugsun réðu för og hafa leitt til stóraukinnar velmegunar þjóðarinnar og nýjum tækifærum í atvinnumálum. Þessu megum við aldrei gleyma og ber að þakka fyrir.

En nú ber svo við að raforka er uppseld á Íslandi og aflgeta kerfisins er komin að þolmörkum. Eftirspurn hefur sennilega aldrei verið meiri eftir raforku og mörgum álitlegum verkefnum hefur á undanförnum árum verið ýtt út af borðinu vegna framboðsskorts. Stórnotendur þurfa að búa við mögulegar skerðingar raforku og ekkert er til aukreitis vegna orkuskipta hérlendis né nýrra tækifæra í iðnaði. Engu að síður eru markmið stjórnvalda skýr: að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040.

Því blasir það við að auka þarf raforkuframleiðslu á Íslandi verulega ef við ætlum að vera virkir þátttakendur í hinni grænu iðnbyltingu með áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum. Sömuleiðis þurfa stjórnvöld að endurskoða aðgerðir í loftslagsmálum. Forgangsraða þarf fjármagni ríkisins í hvata og styrki til orkuskipta og tækniinnleiðingar til þess að ná loftslagsmarkmiðunum og draga úr losun á Íslandi í grænni iðnbyltingu. Það er að okkar mati íslenska planiðíslenska leiðin. Aðeins þannig tryggjum við samkeppnishæfni Íslands, stuðlum að vexti útflutningstekna og tryggjum bætt lífskjör fólksins í landinu.

Ég tek heilshugar undir orð stjórnarformanns Landsvirkjunar á ársfundi félagsins nú fyrr í vikunni um að tími orðræðu sé liðinn hvað aukna orkuöflun varðar og tími aðgerða runninn upp. Það er óhjákvæmilegt að rjúfa áralanga kyrrstöðu í þessum efnum. Vilji er allt sem þarf. Þar horfi ég sérstaklega til pólitískra leiðtoga, hvar í flokki sem þau standa. Búið er að greina þörfina frá öllum hliðum og reikna út ávinninginn af okkar færustu sérfræðingum, en skýrslur þeirra og tillögur safna því miður ryki einhvers staðar í Stjórnarráðinu eða á Alþingi. Það er nefnilega ekki nóg að setja sér markmiðþað þarf líka að standa við þau!

Áskoranirnar sem blasa við okkur eru þannig fjölmargar og listinn sannarlega ekki tæmdur. Málefni íslensks vinnumarkaðar þurfa sitt rými í slíkri umræðu og væri hægt að hafa langt mál um þá stöðu sem blasir við okkur að lokinni orrahríð undanfarinna vikna og mánaða. Traust á milli samningsaðila er takmarkað og orðræðan oft á tíðum óásættanleg, sem er ekki gott veganesti í næstu lotu kjaraviðræðna sem er handan við hornið.

Í millitíðinni þarf löggjafinn tafarlaust að skerpa á fúinni vinnulöggjöfinni, einkum hvað varðar hið mikilvæga hlutverk ríkissáttasemjara, sem hefur verið skotspónn verkalýðshreyfingarinnar að ósekju. Afleiðingarnar þekkja allir.

Sömuleiðis er okkur tíðrætt um starfsumhverfi iðnaðar og íslensks atvinnulífs í það heila. Þar er víða breytinga og umbóta þörf í takt við þróunina erlendis. Einföldun regluverks og eftirlits með starfsemi fyrirtækja mun stuðla að auknum stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi. Alla slíka vinnu þarf að vinna í eins góðu samstarfi við atvinnulífið og mögulegt er.

„Ég man ekki hvar það byrjaði, og veit ekki hvar það endar.“

Við munum reyndar nokkuð vel eftir hvar þetta byrjaði. Óhætt er að rekja sögu íslensks iðnaðar allt aftur til Innréttinga Skúla Magnússonar landfógeta í kringum árið 1750. Íslenskur iðnaður hefur svo þróast og vaxið hratt frá öndverðri 20. öldinni, í takt við tíðaranda og tilefni. Örar iðnbyltingar undanfarin 100 ár eða svo hafa leitt af sér stórstígar framfarir og nýsköpun, hver með sínum hætti.

Það hefur vissulega gefið á bátinn og í sveiflukenndu hagkerfi hefur ekki verið auðvelt að byggja upp rekstur, afla þekkingar og verða sér úti um nauðsynlegan tækjakost. Vafalítið hefur oft á tíðum verið tekið eitt skref áfram en svo tvö aftur á bak. En koma tímar, koma ráð og þrautsegja, útsjónarsemi og þolgæði sem hefur verið okkur í blóð borið skilaði árangri.

Aldargamlar fyrirmyndir sem endurspegla þessar miklu breytingar og þróun í iðnaði eru ekki á hverju strái hérlendis, en þó fagnaði eitt af okkar glæsilegu aðildarfyrirtækjum 100 ára afmæli sínu á liðnu ári. Héðinn hf. hefur í heila öld verið eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði málmiðnaðar og véltækni og saga þess er sannarlega merkileg og vel þess virði að vera haldið á lofti. Ég óska eigendum, stjórnendum og starfsfólki Héðins innilega til hamingju með þessi tímamót.

Saga Héðins og annarra íslenskra iðnfyrirtækja sem spanna áratugi aftur í tímann eru okkur hvatning og ekki síður áminning um að í öllum áskorunum eru tækifæri. Sú staða sem nú blasir við okkur, svart á hvítu, að iðnaður sé stærsta útflutningsgreinin og sömuleiðis að iðnaður hafi tvöfaldað útflutningstekjur sínar frá árinu 2017 er ekkert minna en frábærar fréttir fyrir þjóðina alla. Útflutningstekjur eru nefnilega forsenda bættra lífskjara landsmanna.

Og þó við teljum okkur sannarlega muna hvar uppgangur íslensks iðnaðar byrjaði, vitum við ekki hvar hann endar. Það sem við vitum þó, er að vaxtarskilyrðin eru góð í öllum greinum iðnaðar, þrátt fyrir þær áskoranir sem ég hef farið yfir. Hugverkaiðnaðurinn hefur fest sig rækilega í sessi sem fjórða stoð útflutnings og ef fram heldur sem horfir gæti hann orðið sú stærsta áður en þessi áratugur er á enda. Horfur í efnahagsmálum til skamms tíma eru vissulega ekki jákvæðar en til meðallangs tíma eru þær hins vegar bjartar. Allt leitar nefnilega jafnvægis að lokum.

Þrátt fyrir að við kjósum öll eins mikinn stöðugleika og mögulegt er, í nútíð og framtíð, kann helsti lærdómur síðustu ára vera sá að við getum ekki vænst langvarandi stöðugleika­tímabila á næstunni. Mögulega er hið nýja norm, hið eðlilega ástand, að búa við krísur af ýmsum toga og við þurfum að vera viðbúin þeirri stöðu. Ef það reynist vera rétt, óttast ég ekki framtíð íslensks iðnaðar.

Sá mikli árangur sem hefur náðst í okkar atvinnugreinum í óróa og óvissu síðustu ára kennir okkur að við getum aðlagað okkur vel að slíku ástandi. Stærstu vaxtartækifærin eru því í iðnaði. Og höfum þetta í huga: þótt óvissan sé ástand sem okkur líður ekki vel í, þarf hún ekki að vera slæm að öllu leyti því hún þrýstir okkur áfram í aukna nýsköpun og bætta framleiðni. Hraði í framþróun eykst og stærri skref eru stigin en í þægilegu stöðugleikaumhverfi.

Tækifærin til vaxtar bíða og tími aðgerða er runninn upp. Biðin verður að vera á enda. Dagur breytist í nótt fyrr en við hyggjum og við kaupum okkur ekki tíma þegar við erum orðin of sein. Brettum nú upp ermar og nýtum sameiginlegan styrk okkar til að taka erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir. Öxlum okkar sameiginlegu ábyrgð til að tryggja vöxt og áframhaldandi velsæld, samfélaginu öllu til heilla. Það er umfjöllunarefni dagsins í dag.

Kæru félagsmenn Samtaka iðnaðarins og aðrir góðir gestir, verið hjartanlega velkomin á Iðnþing 2023!