Ávarp formanns SI á Iðnþingi
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, flutti eftirfarandi ávarp á Iðnþingi SI:
Kæru gestir!
„Sé ég í anda knörr og vagna knúða
krafti, sem vannst úr fossa þinna skrúða,
stritandi vélar, starfsmenn glaða og prúða
stjórnfrjálsa þjóð, með verslun eigin búða.“
Þannig var framtíðarsýn Hannesar Hafstein fyrir ríflega heilli öld. Hannes var stórmerkur maður og framsýnn leiðtogi sem gerði mikið fyrir þjóð sína. Um Hannes var sagt að hann væri „breytingarmaður meir en dæmi þekktust til“. Hann átti sinn þátt í að koma togaraútgerð á laggirnar, tengja síma til Íslands, setja fræðslulög, stofna kennaraskóla og háskóla auk þess að vera ötull baráttumaður fyrir jöfnum réttindum karla og kvenna. Það er óhætt að segja að Hannes Hafstein hafi verið framfarasinnaður jafnréttissinni sem þráði að bæta allan hag þjóðar sinnar. Hann sá fyrir sér glatt starfsfólk og stritandi vélar og kom auga á mikilvægi bæði mannauðsins og tækninnar.
Ég er stoltur Sunnlendingur og þreytist ekki á að hampa minni sveit. Reyndar er ég stolt af landinu okkar öllu og finnst ég vera undir happastjörnu að hafa fæðst á Íslandi. Landið okkar var og er enn í vissum skilningi harðbýlt. Í margar aldir áttum við í basli með að temja náttúruöflin okkur til framdráttar og finna leiðir til að nýta gæði landsins hvort sem voru fallvötn, veðrið eða fiskimiðin. Lífskjör Íslendinga voru í raun skelfileg fram til aldamótanna 1900 þegar Hannes orti sitt kvæði. Nú er öldin önnur, en ennþá eru næg verkefni að leysa.
Samgöngur á Íslandi hafa alla tíð verið nokkrum vandkvæðum bundnar og má sjá þess glögg merki í minni sveit. Við eigum vatnsmestu á landsins, Ölfusá, og lengstu á landsins, Þjórsá. Það voru merk tímamót þegar Ölfusá var brúuð árið 1891 og Þjórsá fjórum árum síðar. Þá var þjóðin fátæk en samt gat hún reist með stuttu millibili þessi miklu mannvirki sem skiptu sköpum fyrir þróun byggðar á Suðurlandi. Ef þeirra hefði ekki notið við hefði faðir minn líklega ekki komist eins auðveldlega austur í Rangárvallasýslu og raunin varð. Þá hefði mín saga orðið önnur og kannski engin!
Ráðherrann Hannes Hafstein sagði við vígslu Þjórsárbrúar að brúin táknaði sigur yfir hleypidómum og vantrú manna á framtíð landsins. Aðalatriðið væri að hver þjóð hefði trú á mátt sinn og megin og ætti að gleðjast yfir hverju sem til framfara horfði.
Fámenn þjóð í litlu landi má aldrei sofna á vegi framfara. Það er merkilegt að þegar þjóðin var bláfátæk risu hér upp fjölmörg samgöngumannvirki um allt land og ýmsar mikilvægustu stofnanir landsins líkt og Landspítalinn, Þjóðmenningarhúsið og Þjóðleikhúsið. Það virðist eins og okkur gangi ekki eins vel og forfeðrum okkar að hrinda af stað nauðsynlegum framfaraverkefnum. Í uppbyggingu innviða eigum við erfitt með að komast að sameiginlegri niðurstöðu um verkefni sem þó ættu að vera í þágu allra landsmanna. Við þrætum um staðsetningu Landspítala, flugvöllinn í Vatnsmýri og vegalagningar. Það er líklega eitthvað til í því sem Laxness sagði að Íslendingar væru sérfræðingar í að rífast um hluti sem engu máli skipta en létu kjarna máls gjarnan eiga sig.
Við hljótum öll að vera sammála um að samgöngur skipta miklu fyrir samfélagið, vöxt þess og viðgang. Við þurfum að komast greiðlega á milli borgarhluta og utan höfuðborgarsvæðisins hafa samgöngur allt að segja um hvort einstök svæði dafni. Álag á vegakerfi okkar hefur aldrei verið viðlíka og nú. Metfjöldi ferðamanna á þar stóran hlut að máli. Það að enn séu 39 einbreiðar brýr á þjóðveginum er með öllu óásættanlegt. Á mörgum stöðum eru vegirnir mjög illa farnir og nánast ónýtir.
Samgönguráðherra opnaði nýverið fyrir umræðu að kanna nýjar leiðir til að greiða fyrir hraðari uppbyggingu samgöngumannvirkja. Það er mikilvægt að víkka þá umræðu og fjölga mögulegum valkostum. Samvinnuverkefni einkaaðila og hins opinbera eru vel þekkt erlendis, jafnt í Frakklandi sem Færeyjum, og hafa skilað miklum ávinningi til viðkomandi samfélaga á mun skemmri tíma en ella hefði orðið. Höfum við efni á að horfa framhjá því í ljósi stöðu mála á Íslandi? Svarið við því er nei. Við þurfum að leita allra leiða til úrbóta. Ég sem atvinnurekandi sem bý og starfa utan höfuðborgarsvæðisins vil hins vegar leggja þunga áherslu á að sanngjörn útfærsla slíkra hugmynda er grundvallaratriði. Ábati heils samfélags og gesta okkar af bættu samgöngukerfi getur ekki eingöngu verið borinn uppi af fólki og fyrirtækjum sem nýta lykilsamgönguæðar meira en aðrir.
Atvinnulíf hvar sem er í heiminum þarf á orku að halda. Iðnaður er algerlega háður orku. Við erum svo heppin hér á landi að eiga næga sjálfbæra orku. Okkur hefur borið gæfa til að nýta þessa orku skynsamlega og nauðsynlegt er að svo verði áfram. Stjórn SI samþykkti á síðasta starfsári sérstaka raforkustefnu þar sem lögð er áhersla á meiri samkeppni á raforkumarkaði, nýtingu markaðslausna og að mæta betur þörf millistórra raforkunotenda.
Við á Íslandi höfum talið skynsamlega orkunýtingu vera okkur til framdráttar við framleiðslu hér á landi og höfum beinlínis markaðsett framleiðslu okkar á grunni þess að hún nýtir hreina og umhverfisvæna orku. Við lítum á það sem forskot á mörkuðum. En ekki er allt sem sýnist. Á orkureikningi landsmanna og margra fyrirtækja innan raða SI má sjá að hluti orkunnar sem greitt er fyrir kemur frá kjarnorku eða jarðefnaeldsneyti. Nánar tiltekið tæplega þriðjungur á síðasta ári. Skýringin á þessu er að innlend orkusölufyrirtæki selja svokölluð græn skírteini til erlendra aðila sem geta þá flaggað því að þeir séu grænni en áður. En þá eru fyrirtækin okkar sem nota raunverulega græna orku orðin grá í augum viðskiptavina sinna. Ríkið getur sýnt fram á að orkuframleiðsla sé græn og það geta orkuframleiðendur líka gert. En fyrirtækin og fólkið sitja uppi með svarta Pétur og þurfa að þvo af sér óhreinan stimpil kjarnorku og jarðefnaeldsneytis. Hversu galið er að innlend fyrirtæki virðast framleiða vörur hér á landi úr kjarnorku þegar ekki finnst eitt einasta kjarnorkuver hér á landi? Af hverju að selja græna ímynd frá okkur fyrir brotabrot af árlegum hagnaði orkufyrirtækja? Það ber að hrósa því sem vel er gert og rétt að nefna að Orkusalan er eini söluaðili raforku sem stundar ekki sölu á framangreindum skírteinum. Það er vel gert.
Við værum kannski flest flúin á suðlægari slóðir ef jarðhita og hitaveitunnar nyti ekki við til að hita upp heimili og fyrirtæki. Við þurfum að ganga um þennan mikilvæga orkugjafa af virðingu og tillitsemi líkt og aðrar auðlindir. Við megum aldrei gleyma þeirri skyldu okkar að færa komandi kynslóðum hinn sameiginlega náttúruauð okkar í að minnsta kosti eins góðu ástandi og við tókum við honum. Við verðum að gæta þess að brenna ekki brýr að baki okkur.
En við þurfum líka að byggja nýjar brýr, finna nýjar tengingar eins og Hannes Hafstein og félagar forðum. Gagnatengingar og þar með lagning ljósleiðara í dreifbýlinu geta haft mikið um það að segja hvort byggðir þrífist. Góðar gagnatengingar geta jafnvel ráðið úrslitum um hvort Íslendingar viðhalda sjálfum sér eða ekki! Ef ykkur finnst ég þurfa að rökstyðja það betur þá fékk einhleypur vinur minn nýverið ljósleiðara heim á bæinn sinn eftir margra ára einangrun. Tengingin, brúarsmíðin, reyndist ekki bara stórkostlegt tæknilegt framfaraskref heldur liðu ekki nema nokkrar vikur uns hann var kominn með kærustu upp á arminn. Þökk sé Internetinu!
Kæru gestir!
Augnablikið sem varir á meðan við komum hér saman á Iðnþingi er fullt af fyrirheitum, krafti, og áræði. En það dugir ekki að stinga undir stól þeim álitaefnum sem brenna á okkur öllum. Við getum glaðst vegna þess að börnin okkar eru eflaust gáfaðri og upplýstari en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni. Viðnám er líka fyrir hendi gagnvart ýmsum órétti sem áður tíðkaðist. Langflestir Íslendingar hafa til hnífs og skeiðar sem er mikið fagnaðarefni, ólíkt harðærinu forðum. En það breytir ekki því að Íslendingar og mannkynið gervallt stendur á tímamótum mikillar óvissu. Við erum að ofnýta jörðina og komum fram við hnöttinn okkar og andrúmsloftið af ábyrgðarleysi. Það kom skýrt fram í París í lok ársins 2015 að við getum ekki haldið áfram með sama hætti og fyrr. Við stöndum frammi fyrir krefjandi verkefnum og þurfum að svara því hvernig við ætlum að draga úr orkunotkun, jafna kolefnisspor okkar og minnka rusl. Margvíslegar vísindalegar mælingar sem ekki er hægt að draga í efa sýna að Móðir Jörð sendir nú frá sér ýmsar viðvaranir hvort sem um ræðir hlýnun andrúmslofts, súrnun sjávar eða gæði vatna. Rauð ljós loga víða og kveikja áleitnar spurningar um sjálfbærni. En í öllum breytingum felast líka nýir möguleikar. Við Íslendingar höfum einstakt tækifæri til að láta til okkar taka á þessu sviði. Við eigum nú þegar fjölmörg fyrirtæki og einstaklinga sem eru að vinna að spennandi tæknilausnum í umhverfismálum. Nægir þar að nefna CRI sem framleiðir metanól úr koltvísýringi frá orkuveri HS Orku í Svartsengi. Við sem störfum í iðnaðinum vitum að þar birtast nýjar og krefjandi áskoranir á hverjum degi og við verðum að taka fulla ábyrgð á því að vera leiðandi í umhverfismálum.
Útsjónarsemi, seigla og þolinmæði íslenskra atvinnurekenda er með ólíkindum. Miklar sveiflur í gengi, verðlagi og viðvarandi spenna á vinnumarkaði skapa efnahagsleg starfsskilyrði sem vinna sífellt gegn atvinnulífinu og ýta undir að fyrirtækin leita út fyrir landsteinana í stöðugra og fyrirsjáanlegra rekstrarumhverfi.
Vaxtastigið sem íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir er mjög hátt og í engu samræmi við þau vaxtakjör sem erlendir samkeppnisaðilar njóta. Það þarf að lækka vexti myndarlega þegar í stað og Seðlabankinn verður að standa þá vakt af meiri festu. Minni vaxtamunur myndi einnig létta undir gengi krónunnar sem er á fleygiferð.
Af umræðunni í samfélaginu mætti ætla að gengið geti bara ferðast í þessa einu átt og að þetta framkalli batnandi lífskjör til langframa. En það er ekki svo. Nú er gengið svo hátt skráð að það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur. Það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir áfall í útflutningstekjum og vaxandi flótta fyrirtækja úr landi. Auk lægri vaxta og afléttingar hafta eru auknar fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis forsenda þess að það fari ekki illa.
Mikil styrking á gengi krónunnar er ekki síst til komin vegna fjölgunar ferðamanna. Þeir eru stórir notendur innviða landsins og ég tel eðlilegt að vinnu ljúki fljótt við að koma á einhvers konar gjaldtöku af ferðamönnum. Slík gjöld gætu fjármagnað nauðsynlega uppbyggingu innviða hér á landi. En þau gætu líka stemmt stigu við mikla styrkingu á gengi krónunnar sem myndi bæta samkeppnishæfni allra útflutningsgreina.
Við megum aldrei gleyma því að ef við missum hugvitsdrifna starfsemi úr landinu verður atvinnulífið fábreyttara og reist um of á auðlindum. Hugvitið er auðflutt afl og því er hætta á að unga, vel menntaða fólkið okkar finni framtíðardraumum sínum annan stað en hér á landi. Sú framtíðarsýn er ekki spennandi.
Góðir Iðnþingsgestir!
Ég er afskaplega stolt af því að tilheyra íslenskum iðnaði. Í allri sinni fjölbreytni skapar atvinnugreinin þrjár krónur af hverju tíu í þeim verðmætum sem verða til í landinu. Það er engin önnur atvinnugrein sem leggur jafn mikið í púkkið og oft er það í frábærri samvinnu við aðrar greinar.
Allar greinar iðnaðar eru mikilvægar fyrir okkur og fólkið í greininni skapar mikil verðmæti hvort sem um er að ræða mannvirkjaiðnað, framleiðsluiðnað eða hugverkaiðnað. Á síðasta ári efndum við hjá SI til átaks sem ætlað var að draga fram mikilvægi þeirra starfa sem fagfólkið í íslenskum iðnaði vinnur. Við skulum sjá dæmi um þessa flottu einstaklinga og þeirra mikilvægu störf.
Ég hef á þessum vettvangi oft áður nefnt mikilvægi menntunar til þess að atvinnulíf og iðnaður fái blómstrað. Samtök iðnaðarins taka þátt í fjölmörgum verkefnum sem hafa það að markmiði að efla menntun. Mig langar að nefna sérstaklega herferð Tækniskólans og annarra verkmenntaskóla í samstarfi við SI þar sem vakin er athygli á ýmsum starfsgreinum sem bjóða upp á tækifæri fyrir stúlkur. Þetta verkefni skapar innblástur fyrir ungt fólk, ekki eingöngu stúlkur heldur einnig drengi. Ég og Svana Helen Björnsdóttir getum vottað það að formennska í SI er líka kvennastarf, líkt og húsasmíði, rafvirkjun og forritun. Stjórnun innan fyrirtækja er líka kvennastarf. Við þurfum að ná miklu lengra í þessum efnum.
Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins var stofnaður á síðasta ári í þeim tilgangi að skapa farveg sem styður við og þróar framfaramál tengd iðnaði. Stofnfé sjóðsins er 500 milljónir króna. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum fór í Microbit verkefnið þar sem hátt í 10 þúsund börn í 6. og 7. bekk grunnskóla fengu forritanlegar smátölvur. Á þessu ári eru tvö verkefni sem fá úthlutað styrkjum úr sjóðnum. Annars vegar er um að ræða styrk sem fer til verkefnis um þróun rafrænna ferilbóka sem unnið verður af Tækniskólanum í samstarfi við aðra framhaldsskóla, Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins, SI, Menntamálastofnun og Advania. Um er að ræða verkefni sem mun stuðla að miklum framförum í öllu námi sem tengist iðn-, tækni- og verkgreinum.
Hins vegar er um að ræða styrk til að þróa og yfirfæra hæfniramma innan framleiðslufyrirtækja í Eyjafirði sem unnið verður af Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar-SÍMEY, Sæplasti, Ferrozink, Norðlenska og Becromal Ísland. Verkefnið hefur breiða skírskotun og mikið yfirfærslugildi ef vel tekst til.
Mig langar í lokin að minna á þá speki sem felst í þeim orðum Hávamála að orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. Það sannast ekki bara í verkum og framsýni Hannesar Hafsteins. Við ættum öll að hafa í huga þá ábyrgð sem okkur er falin. Við erum sjálf forgengileg og dauðleg en verk okkar og orðstír kunna að lifa. Um leið og við ýtum undir framfarir samfélaginu til heilla ber okkur skylda til að horfa til framtíðar og huga að þeim sem á eftir koma. Í Hávamálum er gefið í skyn að orðstírinn einn sé eilífur sem brýnir okkur til að fara vel með ábyrgð okkar.
Ég segi Iðnþing sett og hlakka til að vera með ykkur og virkja allt það hugvit sem hér er saman komið!