Fréttasafn



10. mar. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar

Ávarp formanns SI á Iðnþingi 2022

Hér fer ávarp Árna Sigurjónssonar, formanns SI, á Iðnþingi 2022 sem fram fer í Silfurbergi í Hörpu.

Félagsmenn Samtaka iðnaðarins og aðrir góðir áheyrendur,

Ég býð ykkur öll velkomin á Iðnþing 2022.

Í ársbyrjun fóru vonir að glæðast um betri tíð með blóm í haga, langþráðum afléttingum sóttvarnaaðgerða og endurheimt heilbrigðis þjóðarinnar. Engu að síður voru blikur á lofti í efnahagsmálum, með ört vaxandi verðbólgu, hækkandi vaxtastigi og þannig birtust enn fleiri efnahagslegar afleiðingar kórónukreppunnar, í þann mund þegar atvinnulíf og almenningur, hérlendis og á heimsvísu, undirbjuggu sig að endurræsa vélarnar, ef svo má segja. Skjótt yrði samt allt eins og það átti að vera. En skammt er stórra högga á milli.

Þó við komum saman hér í dag til að ræða þau mál, sem við höfum ákveðið að setja á oddinn hjá Samtökum iðnaðarins á þessu ári, er ekki hægt að láta hjá líða að staldra fyrst um sinn við mál málanna. Ógnvænleg staða blasir við okkur í alþjóðamálum eftir innrás herliðs Rússlandsforseta í Úkraínu, sem vart er hægt að fordæma með nógu sterkum orðum. Þó íbúar heimsins hafi ekki farið varhluta af vígbúnaði og vopnabeitingu á liðnum árum, stendur þessi atburðarás okkur býsna nærri og vekur hjá okkur sterkar tilfinningar – reiði, undrun, samúð og sorg.

Hvort þetta sé byrjunin á nýju ófriðarskeiði í Evrópu eða verði einungis skammvinn áminning um hversu dýrmætt frelsið og friðurinn er okkur öllum, er of snemmt að segja til um. Hvað sem því líður, dvelur hugur okkar Íslendinga og óskoraður stuðningur hjá úkraínsku þjóðinni, sem ver nú frelsi sitt og tilveru með aðdáunarverðum hætti.

Við skulum ekki draga neina fjöður yfir það, að áhrifa þessa ófriðar mun vafalítið gæta á mörgum sviðum íslensks atvinnu- og efnahagslífs, þar sem fjölmörg hérlend fyrirtæki hafa tengst þessum löndum sterkum böndum, hvort sem er á grundvelli innflutnings eða útflutnings. Óbeinu áhrifin verða jafnvel meiri þar sem aðfangakeðja heimsins, sem fyrir var verulega löskuð vegna heimsfaraldursins, þarf nú að leita að nýjum jafnvægispunkti þegar framboð á orku, ýmsum lykilhráefnum og vöruflokkum skerðist verulega eða stöðvast fyrirvaralaust. Áhrif á orku- og eldsneytisverð á heimsmarkaði eru okkur öllum sýnileg. Allt eykur þetta áskoranir okkar allra sem keppumst við að halda verðlagi og lífskjörum eins stöðugum og mögulegt er.

En allt er þetta hjómið eitt miðað við þá miklu neyð sem ríkir nú í Úkraínu og hjá þeim tugmilljónum manna, kvenna og barna sem fyrir einungis tveimur vikum síðan gengu til sinna hefðbundnu daglegu starfa. Nú er tími samstöðu og vægi aukins alþjóðasamstarfs eykst stórkostlega, hvort heldur sem er á sviði stjórnmála eða atvinnulífs. Nýtt járntjald í formi harðra viðskiptahindrana bíta rússneskan efnahag fast, en gleymum því ekki að áhrifin verða sömuleiðis mikil á Evrópu alla, fyrirtæki jafnt sem einstaklinga. Samstöðurödd þjóða þarf að leiða til markvissra aðgerða til að hrinda áhlaupinu og snúa þessu tafli, hratt og örugglega, þannig að varanlegum friði verði komið á að nýju.

Góðir áheyrendur,

Þær fjórar iðnbyltingar sem mannkynið hefur gengið í gegnum allt frá miðri 18. öld hafa leitt af sér stórstígar framfarir, tímamótabreytingar í tækni og grundvöll nýsköpunar. Í hverri iðnbyltingu voru þannig gerðar nýjar uppgötvanir sem smám saman voru hagnýttar í atvinnulífi til að auka framleiðslu og afköst – sem skiluðu sér í bættum lífskjörum.

Þannig hefur þetta gengið koll af kolli, öflugri tækni leysir af hólmi þá sem fyrir var og umbreytir efnahagslífi og samfélögum með ört vaxandi hraða. Á grunni þessarar tækniþróunar og framfara getum við nú tekist á við þær áskoranir sem mannkyn stendur frammi fyrir í umhverfis- og loftslagsmálum.

Og um það snýst hin græna iðnbylting, sem er aðalviðfangsefni okkar á Iðnþingi í dag – að ná stjórn á þessum óæskilegu breytingum með því að finna svör, lausnir og grípa til raunhæfra aðgerða í loftslagsmálum til að ná kolefnishlutleysi með aukinni nýsköpun, orkuskiptum og miklum fjárfestingum.

Græna iðnbyltingin er ólík þeim fyrri því hún leiðir beinlínis af ákvörðunum, markmiðum og aðgerðum stjórnvalda. Markmið íslenskra stjórnvalda eru skýr og metnaðarfull: Ísland verði kolefnishlutlaust og óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Til að ná settu marki þarf víðtækt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs. Það er einmitt stjórnvaldanna að setja skýr markmið en atvinnulífsins að finna bestu grænu lausnirnar og leiðina að markmiðunum.

Þá þurfa stjórnvöld að setja rétta umgjörð sem hvetur til þess að lausnirnar verði til og að þær verði nýttar með markvissum fjárfestingum, einfalda regluverk, afnema allar óþarfa hindranir og varast þá freistni að auka skattlagningu, eins og stundum hefur gerst. Ef aðstæður eru nægilega hagfelldar mun ekki standa á lausnunum.

Ágætu Iðnþingsgestir,

Öllum áskorunum fylgja tækifæri – og í loftslagsmálum eru sannarlega mikil tækifæri fyrir Ísland. Fjölmargar grænar lausnir hafa orðið til í íslenskum iðnaði með virkjun hugvits og ótal fleiri eru á teikniborðinu. Þessar grænu lausnir getum við bæði nýtt hérlendis okkur öllum til hagsbóta og ekki síður flutt út og þannig hjálpað öðrum þjóðum að ná sínum markmiðum. Um leið eflum við hugverkaiðnað sem er, eins og þið vitið, fjórða stoðin í hagkerfinu.

Framleiðsla verður smám saman græn þar sem sum fyrirtæki hafa þegar náð markmiðum um kolefnishlutleysi, önnur hafa náð miklum árangri en enn önnur eru skemur á veg komin. Byggingariðnaður vinnur hörðum höndum að því að gera mannvirki vistvænni og grænni og vænta má aðgerðaáætlunar hvað þau mál varðar síðar á þessu ári. Þá getum við náð forskoti í orkuskiptum og ef rétt er á málum haldið getur orðið til hér iðnaður og þekking sem verður enn eftirsóttari víða um heim. Það er því til mikils að vinna fyrir umhverfið og fyrir samfélagið allt.

Og talandi um orkuskiptin – þó við njótum þess að hafa forskot á flestar aðrar þjóðir á grundvelli öflunar og nýtingar endurnýjanlegrar orku til áratuga, liggur fyrir að auka þarf raforkuframleiðslu á Íslandi verulega, ætli Íslendingar sér að vera virkir þátttakendur í þessari byltingu með áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum. Markmiðum Íslands árið 2040 verður einfaldlega ekki náð nema orkuskipti, úr jarðefnaeldsneyti yfir í græna orku, verði möguleg.

Fyrr í þessari viku var kynnt skýrsla starfshóps orku-, umhverfis- og loftslagsráðherra um stöðu og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum. Skýrslan markar að mínu mati mikil tímamót í umræðu um orku- og loftslagsmál. Hún er ekki pólitískt stefnuplagg heldur dregur einfaldlega fram staðreyndir og sviðsmyndir sem nauðsynlegt er að leggja til grundvallar næstu skrefum og framtíðarákvörðunum. Skýrslan dregur fram að loftslagsmarkmiðin þurfi að móta betur orkuframleiðslu og orkuflutning, sem eru grunnur að því hversu vel okkur muni takast að framkvæma orkuskipti í samfélaginu. Þá kallar orkuöryggi á aukna raforkuframleiðslu og öflugra flutnings- og dreifikerfi, ekki síst til að lágmarka sóun og tryggja að blómlegt atvinnulíf fái þrifist hringinn í kringum landið.

Það er sárt að sjá á baki glötuðum tækifærum í nýsköpun vegna raforkuskorts og það er sömuleiðis sárt að skortur á raforku leiði til neikvæðra orkuskipta, úr rafmagni yfir í olíu, þegar við erum á þessari grænu vegferð. Þess vegna þurfum við sem samfélag að ná sátt um framtíðarstefnu orkumála. Stóra spurningin er: Ætlum við að ná loftslagsmarkmiðunum eða ekki? Ef svo er þurfum við að leggja strax af stað í þessa vegferð.

Ég skil mætavel sjónarmið náttúru- og umhverfisverndar og ég held ég tali fyrir munn okkar allra hér, að okkur þykir afar vænt um landið okkar og þá einstöku náttúru sem hér er. Mín bjargfasta trú er að græna iðnbyltingin muni gera okkur kleift að taka þessi stóru en markvissu skref í betri sátt um vernd og nýtingu landsins og þeirra náttúruauðlinda sem við höfum yfir að ráða. Þá er einsýnt að yfirvofandi orkukreppa í Evrópu muni ýta undir enn hraðari þróun og aukna nýsköpun í orkumálum, þar sem íslenskt hugvit þarf að láta ljós sitt skína. En lykilatriðið er að hefjast handa strax, eitt markvisst skref í einu.

Góðir áheyrendur,

Lífskjarasamningarnir renna sitt skeið í haust. Undirbúningur fyrir komandi kjarasamningalotu er hafinn og við kölluðum saman fulltrúa Samtaka iðnaðarins í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins til skrafs og ráðagerða strax fyrir jól. Þá hefur farið fram ítarleg greining hjá undirfélögum og ráðum innan Samtaka iðnaðarins á helstu áherslum þeirra í aðdraganda kjarasamninga. Öll slík undirbúningsvinna skiptir gríðarmiklu máli og gerir okkur betur í stakk búin að miðla áherslum atvinnurekenda í iðnaði með skýrum hætti í komandi kjarasamningsviðræðum. Náið samráð af þessu tagi við félagsmenn mun verða áfram í fyrirrúmi af okkar hálfu í þessari mikilvægu vinnu.

Í upphafi ræðu minnar vék ég stuttlega að efnahagsmálum og þeirri staðreynd að afleiðingar kreppu í kjölfar heimsfaraldurs hafa nú komið fram ein af annarri, til að mynda aukin verðbólga, hækkandi vaxtastig og hækkandi hráefniskostnaður. Við þetta bætist nú hin alvarlega staða sem komin er upp vegna innrásar Rússa í Úkraínu sem skapar mikla óvissu, óstöðugleika og kostnaðarhækkanir sem hefur samstundis veruleg neikvæð áhrif á heimsbúskapinn. Þau smitast svo yfir í hagkerfi einstakra landa, þar með talið okkar. Þessi erfiða staða einfaldar ekki komandi kjaraviðræður, þegar spurt verður „hvað er til skiptanna?“ eða öllu heldur „er eitthvað til skiptanna?“. Þetta er einfaldlega reikningsdæmi sem gengur ekki upp.

Ég hef ítrekað bent á, að aðilar vinnumarkaðarins munu hafa einna mesta möguleikann á að grípa til mótvægisaðgerða gegn neikvæðri verðbólguþróun með samstilltu átaki, til að koma okkur nær stöðugleika í efnahagsmálum og því lágvaxtaumhverfi sem ríkti hér um stundarsakir. Þetta hefur seðlabankastjóri einnig lagt mikla áherslu á í ræðu og riti.

Gleymum því ekki að við eigum margt sameiginlegt, atvinnurekendur og launþegar, og ættum því að geta snúið bökum saman í ýmsum framfaramálum, til að mynda í húsnæðismálum þar sem framboð á nýju húsnæði hefur langt í frá fullnægt eftirspurn síðustu árin, sem hægt er að rekja til vaxtalækkana og aukins kaupmáttar landsmanna. Sú staða hefur leitt til mikilla verðhækkana á húsnæði sem drífur áfram um þriðjung verðbólgunnar. Þar er verk að vinna, eins og við höfum verið óþreytandi að benda á.

Þá er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins geti átt yfirvegað samtal um hvaða áhrif hinar breyttu stoðir útflutnings hafa á vinnumarkaðinn, tækifærin sem fram undan eru, til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að efla velsæld landsmanna og hvernig vinnumarkaðurinn geti sem best stuðlað að vexti hagkerfisins, öllum til heilla. Nú sem aldrei fyrr er mikið í húfi fyrir alla aðila, að vel takist til í þessari lotu kjaraviðræðna.

Góðir Iðnþingsgestir,

Það er af sem áður var – annar heimur en í gær. Við lifum á síbreytilegum tímum og breytingar verða sífellt örari á flestum sviðum þjóðlífsins. Um sumar breytingar höfum við val en aðrar eru óumflýjanlegar. Eitt er þó víst - stöðnun er ekki í boði. Einn megintilgangurinn með ári grænnar iðnbyltingar er einmitt að vekja athygli á þeim tækifærum sem blasa við okkur í þeim breytingum sem loftslagsmarkmiðin krefjast af okkur. Markmiðið er að kjarna umræðuna um þessi mál og setja þau í skiljanlegt samhengi þannig að sem flestir skilji og átti sig á því hvað við erum að gera í dag og óþrjótandi möguleikum framtíðarinnar, bæði fyrir umhverfið og til að stuðla að þeim efnahagslegu framförum sem munu bæta lífskjör okkar allra. Takist okkur það, mun samstaða um hin markvissu skref sem við þurfum að taka, aukast hratt og örugglega. Þá mun Ísland hafa alla burði til að vera í fremstu röð í loftslagsmálum og grænum lausnum.

Iðnþing 2022 er sett!